Ólafur F. verður forseti borgarstjórnar fyrir áramót

Ólafur F. Magnússon Ólafur F. Magnússon, leiðtogi F-listans, mun taka aftur sæti í borgarstjórn fyrir áramót og verða þá forseti borgarstjórnar í stað Margrétar Sverrisdóttur, sem hefur leyst Ólaf af í leyfi hans. Þetta eru vissulega merkileg tíðindi, enda hefur Ólafur F. verið lítið sem ekkert áberandi í borgarmálunum í rúmt ár, eða í kjölfar þess að upp úr meirihlutaviðræðum Sjálfstæðisflokks og F-lista slitnaði í kjölfar kosninganna 2006.

Háværar kjaftasögur voru um veikindi Ólafs F, enda fannst mörgum mjög sérstakt að hann skyldi ekki vera áberandi sem forystumaður framboðs síns í meirihlutaviðræðum við Framsóknarflokk, Samfylkingu og VG, eftir að upp úr meirihlutasamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks slitnaði. Þess í stað varð Margrét Sverrisdóttir í forsvari F-listans og varð forseti borgarstjórnar, fyrst allra, án þess að vera kjörinn aðalmaður í borgarstjórn Reykjavíkur. Deilt var um umboð hennar, en það er ekki hægt í tilfelli Ólafs F. sem hefur afgerandi umboð kjósenda sem kjörinn borgarfulltrúi.

Endurkoma Ólafs á næstu vikum hefur þau áhrif að Margrét hættir sem forseti borgarstjórnar. F-listinn á jú aðeins eitt sæti í borgarstjórn og þau munu ekki bæði sitja fundi. Ólafur F. hefur verið lengi í borgarmálunum, var lengi varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins en náði kjöri fyrir hann í borgarstjórn árið 1998 en sagði sig úr flokknum eftir hörð átök á landsfundi árið 2001 um umhverfismál. Hann ákvað að bjóða fram með Frjálslynda flokknum við kosningarnar 2002, enda var Margrét Sverrisdóttir þá framkvæmdastjóri flokksins og er dóttir stofnanda hans. Mörgum að óvörum, og gegn öllum könnunum, tókst honum að ná kjöri.

Ólafur F. var að mörgu leyti sigurvegari borgarstjórnarkosninganna 2006; hann fékk mun meira fylgi en Framsóknarflokkurinn og styrkti stöðu sína mjög. Ólafur F. hafði meira að segja gengið formlega til liðs við Frjálslynda flokkinn á árinu 2005, eftir að hafa verið óháður í þrjú ár í störfum í nafni framboðs með tengingar í flokkinn. Hann yfirgaf flokkinn í kjölfar þess að Margrét Sverrisdóttir ákvað að yfirgefa hann. Það voru eflaust gríðarleg vonbrigði fyrir Ólaf að geta ekki nýtt sigur sinn og myndað meirihluta. Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að mynda ekki meirihluta með honum og vonbrigði hans voru skiljanleg.

Nú er Ólafur F. að verða einn lykiláhrifamanna Reykjavíkurborgar eftir setu í borgarstjórn í áratug, verður forseti borgarstjórnar með einkabílstjóra og bifreið til umráða. Man samt ekki eftir viðtali við hann í sjónvarpi í háa herrans tíð. Ólafur einhvern veginn hvarf eftir að honum mistókst að mynda meirihluta sumarið 2006. En nú snýr hann aftur sem einn lykilspilara borgarmálanna. Það verður áhugavert að sjá hvernig hann notar það sviðsljós.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég tek undir með Thor, þetta er mikið gleðiefni.

Sigurður Þórðarson, 27.11.2007 kl. 16:27

2 Smámynd: Steini Bjarna

Megi Ólafur koma sem sterkastur inn og hrista vel upp í hlutunum. Ef hann og Vilhjálmur mynda meirihluta verður hann að passa upp á að borgarstjórastóllinn, falli hann Vilhjálmi í skaut, verði bundinn við persónu Vilhjálms svo að sexmenningarnir geti ekki sett hann af nema missa völd.

Annars gæti Ólafi líka dottið í hug að gerast borgarstjóri sjálfur, og ekkert við því að segja ef um það semst. 

Steini Bjarna, 27.11.2007 kl. 20:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband