Stefnir í leiðtogaslag Kristjáns Þórs og Arnbjargar

Halldór, Arnbjörg og Kristján Þór

Það stefnir allt í leiðtogaslag milli Kristjáns Þórs Júlíussonar, bæjarstjóra hér á Akureyri, og Arnbjargar Sveinsdóttur, þingflokksformanns, í væntanlegu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi. Ekki er útilokað að fleiri gefi kost á sér til forystu í kjölfar þeirrar ákvörðunar Halldórs Blöndals að gefa ekki kost á sér til endurkjörs. Arnbjörg Sveinsdóttir tilkynnti þegar í kjölfar ræðu Halldórs, þar sem hann tilkynnti ákvörðun sína um að hætta, á aðalfundi Sjálfstæðisfélags Akureyrar að hún myndi gefa kost á sér. Nær öruggt má telja að Kristján Þór muni tilkynna leiðtogaframboð sitt á næstu dögum.

Lengi hefur verið hávær orðrómur um framboð Kristjáns Þór. Hann hefur verið bæjarstjóri á Akureyri frá árinu 1998 og verið í forystu sveitarfélaga nær samfleytt í tvo áratugi. Hann gaf kost á sér til varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi fyrir tæpu ári. Öllum varð ljóst að loknum bæjarstjórnarkosningunum að Kristján Þór yrði ekki bæjarstjóri til loka kjörtímabilsins, enda var samið um að Samfylkingin hefði stól bæjarstjóra síðasta ár kjörtímabilsins. Það er því ljóst að hann fer ekki fram oftar í bæjarstjórnarkosningum hér né muni verða bæjarstjóri lengi úr þessu. Það er því nær öruggt að hann taki slaginn og gefi kost á sér.

Ekki er óeðlilegt að Arnbjörg sýni áhuga á leiðtogaframboði, en hún er eini þingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu auk Halldórs. Arnbjörg hefur verið lengi í stjórnmálum og því er rökrétt og eðlilegt að hún telji rétt að láta reyna á leiðtogaframboð. Hún féll í kosningunum 2003 í Norðausturkjördæmi en tók sæti við lok ársins á þingi þegar að Tómas Ingi Olrich lét af ráðherraembætti og hætti þingmennsku eftir 12 ára þingsetu og varð sendiherra í Frakklandi. Arnbjörg hefur verið dugleg sem fulltrúi kjördæmisins og því eðlilegt að hún hafi metnað og áhuga til forystustarfa og láta reyna á gengi sitt í kosningu.

Stjórn kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi hefur þegar samþykkt tillögu til að leggja fyrir kjördæmisþing í október um að fram fari prófkjör. Það má því fullvíst telja að það verði prófkjör og fullyrða má að það verði gríðarlega spennandi. Sterkur orðrómur er um að Sigríður Ingvarsdóttir, sem var alþingismaður árin 2001-2003 fyrir Norðurlandskjördæmi vestra og skipaði fjórða sæti framboðslista flokksins hér í Norðaustri í kosningunum 2003, muni gefa kost á sér ofarlega í væntanlegu prófkjöri, en hún hefur verið fyrsti varamaður flokksins frá brotthvarfi Tómasar Inga.

Telja má öruggt að fjöldi flokksmanna sem ekki var á framboðslistanum árið 2003 og hafi áhuga á stjórnmálum vilji gefa kost á sér að auki. Það má því búast við spennandi kosningu í prófkjöri og því að væntanlegir frambjóðendur fari nú að gefa upp hvort þeir stefni í framboð eður ei þegar að ljóst er að fram fer prófkjör. Það eru áhugaverðir tímar framundan hér í kjördæminu, einkum hér hjá Sjálfstæðisflokknum í ljósi allnokkrar uppstokkunar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband