Móðir án titils - karaktersigrar Nicole

Nicole KidmanÞað hefur jafnan verið svo að móðirin í lífi hvers einstaklings sé það sérstök að hún verðskuldi aðeins þann titil að vera móðir. Finnst jafnan mjög sérstakt og undarlegt þegar að fólk nefnir foreldra sína skírnarnafninu og lætur staðlaða titla mömmu og pabba lönd og leið. Þekki vissulega fólk sem hefur gert þetta og finnst það reyndar mjög spes. Mér myndi t.d. aldrei detta í hug að kalla mömmu öðru nafni en því.

Þetta er eðlilegra og sennilega mun algengara í þeim tilfellum að börn séu ættleidd. Þó hef ég marga þekkt sem kalla kjörforeldra sína mömmu og pabba, eiga enga aðra foreldra í huganum og myndu aldrei nefna þau öðrum nöfnum. Fannst hún skemmtilega sérstök þessi frétt um Nicole Kidman og börnin hennar tvö, sem hún ættleiddi með Tom Cruise. Hún hefur tvisvar misst fóstur, við upphaf og endi frægs sambands við Cruise, og er fertug ekki enn búin að eignast barn sjálf. 

Þó að Nicole Kidman hafi ekki enn verið kölluð mamma í prívatlífinu og ekki eignast börn hefur hún leikið mömmu á hvíta tjaldinu, t.d. í The Others. Það er ekki hægt að segja annað en að Nicole sé ein af bestu leikkonum sinnar kynslóðar. Hún hefur verið þekkt fyrir að setja sig vel inn í karakter þeirra sem hún leikur og undirbúa sig mjög vel. Það eru að verða tveir áratugir síðan að Nicole Kidman komst á kortið sem leikkona. Það var í kvikmyndinni Dead Calm árið 1989. Hún er án nokkurs vafa ein sterkasta kvikmyndin frá Eyjaálfu í seinni tíma kvikmyndasögu, ef Piano, er undanskilin.

Hún var byggð á frægri sögu Charles Williams, sem segir frá hjónum sem verða vör við mannlausa skútu á leið sinni. Ævintýri þeirra verða mikil og að því kemur að þau verða að berjast fyrir lífi sínu í grimmri baráttu. Það voru aðeins þrír leikarar að heita má í myndinni; Kidman, Sam Neill og Billy Zane, og hún var í senn bæði spennandi og dulúðug, flott blanda. Eftir það náði hún á toppinn og fékk þau tækifæri sem allar leikkonur dreymir um að eignast. Hún lék á móti Tom Cruise árið eftir í Days of Thunder og eitt umtalaðasta ástarsamband seinni tíma kvikmyndasögu hófst.

Þau léku saman í tveim öðrum myndum næsta áratuginn; vesturfaramyndinni Far and Away og hinni erótísku Eyes Wide Shut, sem varð síðasta kvikmynd snillingsins Stanley Kubrick. Flestir töldu fjölmiðlavænt samband Tom Cruise og Nicole Kidman skothelt í gegn, enda á yfirborðinu sterkt. Það sprakk þó í loft upp með hvössum fjölmiðlayfirlýsingum árið 2001, ári eftir að þau brostu í gegnum tárin saman þegar að Tom Cruise tapaði óskarnum enn eina ferðina, þá fyrir Sir Michael Caine. Skömmu síðar missti hún barn en vann sig frá því með því að leika í kvikmyndum og lék í einum átta til tíu á mjög skömmum tíma á því tímabili.



Á þeim árum varð Nicole Kidman mun sterkari í bransanum en Tom Cruise, sem hefur sigið nokkuð, en Kidman tókst fyrir nokkrum árum að vinna óskarinn, fyrir leik sinn á Virginiu Woolf í The Hours (sjá klippu hér ofar), sem var markmið Cruise alla tíð. Hún var þó ekki þokkadísin mikla í myndinni sem færði henni eftirsóttustu kvikmyndaverðlaun heims. Kidman setti á sig stórt gervinef og var nær óþekkjanleg og með hárið litað svart, að hætti Virginiu. Rauða hárið hefur verið eitt helsta vörumerki Nicole Kidman. Það varð sennilega eftirminnilegast í kvikmyndinni Moulin Rouge, þar sem hún brilleraði í hlutverki þokkadísarinnar Satine.

Hún hefur náð að túlka sterka kvenkaraktera með bravúr og nægir þar að nefna Suzanne í To Die For, Isabel í Portrait of a Lady, Grace í The Others (sem er reyndar með allra bestu draugamyndum og fléttu í kvikmyndum seinni ára), Silviu í The Interpreter, Ada í Cold Mountain, Anna í Birth, Grace í Dogville að ógleymdri Nadiu í Birthday Girl. Nýlega fitaði hún sig talsvert fyrir túlkun sína á Hönnu í The Reader.

En þrátt fyrir alla leiksigrana hefur hún ekki enn orðið mamman með stóru M-i í einkalífinu þrátt fyrir að hafa verið mamma t.d. í The Others. Móðir án titils verður kannski það eina sem hún kynnist því hlutskipti.



mbl.is Neita að kalla Kidman mömmu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband