Bretar vilja losna við vinstristjórnina

Gordon Brown og Tony Blair

Skv. nýrri könnun Guardian telja 2/3 breskra kjósenda að Verkamannaflokkurinn eigi ekki skilið að sigra í þingkosningunum 2009 í Bretlandi. Þetta eru stórtíðindi og sýnir vel hversu Bretar eru búnir að fá leið á stjórn kratanna og eilífu valdatafli innan raða þeirra. Þessi tíðindi komu nú nokkrum dögum áður en að Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, flytur sitt síðasta ávarp sem leiðtogi breska Verkamannaflokksins á flokksþingi hans. Fyrr í þessum mánuði neyddist Blair til að tilkynna að þetta yrði hans síðasta flokksþing sem leiðtogi og hann léti því af embætti innan árs, til að slökkva ófriðarbálið í flokknum.

Það eru önnur góð tíðindi í þessari könnun að fleiri Bretar vilja sjá David Cameron, leiðtoga Íhaldsflokksins, við völd í Downingstræti 10 að loknum næstu þingkosningum heldur en Gordon Brown, fjármálaráðherra, sem verið hefur krónprins valda innan Verkamannaflokksins í áraraðir. Gæfan virðist eitthvað vera að renna úr greipum Browns, en hann hefur lengi verið talinn öruggur bæði um að vinna leiðtogastólinn þegar að Blair fer og að geta átt góða sigurmöguleika árið 2009. Eitthvað eru því vindar að snúast í breskum stjórnmálum sem betur fer. Það er altént orðið ljóst að Íhaldsflokkurinn eflist sífellt þessar vikurnar.

Ég tel einsýnt að vindar hafi snúist gegn Verkamannaflokknum eftir átökin sem þar urðu í mánuðinum vegna talsins um hvenær að Blair léti af völdum. Það er eitt hinna góðu dæma um það þegar að innanflokkskrísa tekur yfir stjórn landsins. Um tíma var ekkert rætt innan ríkisstjórnar Bretlands, stjórnarflokksins við völd, nema það hver réði atburðarásinni innan flokksins og framvindu mála. Greinilegt er að andstæðingar Browns innan Verkamannaflokksins eru að plotta sig saman gegn honum, enda gengi hans á fallanda fæti. Það stefnir því allt í harðan leiðtogaslag þegar að Blair hættir sem forsætisráðherra.

Þetta verður spennandi vetur í breskum stjórnmálum ef fram heldur sem horfir og Íhaldsmenn halda áfram að styrkja sig með svo marktækum og góðum hætti og gerst hefur bara núna í september. En stóra spurningin er óneitanlega: nær Blair að sitja við völd fram að tíu ára valdaafmælinu í maí 2007? Það er alveg ljóst að forysta hans er orðin gríðarlegt veikleikamerki fyrir flokk hans eftir langan valdaferil og það sem meira er að Gordon Brown veikist með honum.

Það verður fróðlegt að sjá hver nær yfirhöndinni innan Verkamannaflokksins í þessari stöðu sem nú er þar uppi, meðan að öll tákn þess að allt sé á hverfanda hveli blasir við.

mbl.is Bretar vilja breytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Athyglivert að sjá íslenskan hægri mann hrósa sigri, sem fyrst og fremst er til komin vegna stuðnings við Bandaríkjamenn (Íraksstríðið). Svona í ljósi stefnu hægri manna á Íslandi í þeim efnum.

Of snemmt er þó að fullyrða neitt, því eitt er að lýsa yfir óánægju í skoðanakönnun - annað að kjósa þann flokk sem skildi við þjóðfélagið í rjúkandi rúst á sínum tíma. Og trúðu mér - allir muna enn eftir Thatcher tímabilinu hér. Annus horribilis í fleirtölu.

Sjálfur mun ég þó að öllum líkindum kjósa íhaldið.
Einungis útfrá þeirri forsendu, að lýðræðinu er hollt að skipt sé um með reglulegu millibili. Stundum gerir maður "sínum mönnum" best með því að senda þá í frí til að endurskoða stefnu og markmið.

Eitthvað sem hægri menn á Íslandi mættu íhuga.

Baldur McQueen Rafnsson (IP-tala skráð) 24.9.2006 kl. 01:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband