13.12.2007 | 22:04
Hillary missir flugið - Obama sækir í sig veðrið
Þrem vikum fyrir fyrstu forkosningar demókrata í Iowa sýna kannanir að Hillary Rodham Clinton sé að missa veglegt forskot sitt, bæði á landsvísu og í lykilfylkjum, og Barack Obama sé að sækja í sig veðrið. Obama leiðir nú bæði í Iowa og í New Hampshire í baráttunni um það hver verði forsetaframbjóðandi Demókraflokksins í nóvember á næsta ári. Greinilegur skjálfti er kominn upp í herbúðum Hillary og augljóst að þar á bæ er óttast að Obama sé að ná upp stemmningu og raka að sér fylgi.
Það blasir við að Obama græddi umtalsvert á því að Oprah Winfrey skyldi koma fram opinberlega á kosningafundi með honum í Iowa. Stjörnuljómi hennar er mikill og það er greinilegt að margar konur vilja kjósa eins og Oprah. Oprah átti reyndar í stökustu vandræðum með að velja hvort hún ætti að styðja Hillary eða Obama, enda hefur hún verið vinkona Clinton-hjónanna og studdi þau ötullega í kosningunum 1992 og 1996. Oprah valdi að lokum að styðja blökkumanninn í framboði og liðssveit Obama minnir vel á það hvar spjallþáttadrottningin er í liði. Þetta eru skilaboð sem skipta máli. Stjörnuljóminn er óumdeilanlega til staðar.
Kvennafylgið leitar nú í áttina að Obama og virðist á könnunum sem að stærsta sveiflan sé einmitt þaðan. Það er mikið áhyggjuefni fyrir Hillary ef að hún missir mikið kvennafylgi til Obama og gæti það jafnvel kostað hana útnefningu Demókrataflokksins er yfir lýkur. Enn hefur Hillary þó forskot á landsvísu, en það hefur minnkað verulega. Það mun þó varla duga henni. Að mörgu leyti skiptir lykilmáli að vinna fyrstu fylkin, eins og ég hef svo oft bent á í pólitískum pælingum hér. Með því kemur upp stemmning sigurvegarans. Það getur ráðið úrslitum - það gerðist t.d. síðast er John Kerry sló Howard Dean við í upphafi og missti ekki forskotið eftir það.
Könnunin í dag sem sýndi Obama með forskot í New Hampshire var gríðarlegt áfall fyrir Hillary. Bill Shaheen, forystumaður framboðs Hillary í fylkinu, sagði í fjölmiðlum í kjölfarið að myndi Obama verða forsetaefni flokksins myndu repúblikanar velta sér upp úr viðurkenningu Obama á því að hann hefði prófað eiturlyf og myndu jafnvel gefa í skyn að hann hefði farið dýpra í dópið en hann hefði viðurkennt. Mikið fjaðrafok varð vegna ummælanna sem þótti kristalla óttann í herbúðum Hillary í fylkinu og víðar um land reyndar. Síðla dags hafði Hillary beðið Obama opinberlega afsökunar á ummælum Shaheen.
Það stefnir í spennandi orrustu Hillary og Obama. Spennan vex með hverri könnuninni sem sýnir landslagið breytast. Fyrir nokkrum vikum töldu allir Hillary komna með útnefninguna allt að því örugga í hendurnar og að forkosningaferlið yrði eins og krýningarathöfn fyrir hana. Sumir voru meira að segja farnir að spyrja um hver myndi mæta Hillary, að því gefnu að hún hefði svo mikið forskot að það myndi haldast, vissulega minnka en hún næði þessu fljótt og vel. Það hafa verið teikn um það síðustu vikur að kosningamaskína Hillary sé farin að hökta; þar sé óttast um að Obama bæti við sig og baráttan verði raunveruleg.
Það er enginn vafi á því að það verður umtalsvert pólitískt áfall fyrir bæði Hillary Rodham Clinton og Bill Clinton nái hún ekki útnefningunni fljótlega í þessu ferli og muni jafnvel missa af henni vegna þess að Obama sé talinn framtíðarkandidat en hún ekki. Clinton-hjónin hafa verið draumateymi demókrata í einn og hálfan áratug, verið hinn eini sanni stjörnuljómi hans. Það blasir við samkvæmt könnunum að lykilstaða þeirra er í talsverðri hættu og alvöru barátta blasi við Hillary um farmiðann í baráttuna um Hvíta húsið.
Í sjálfu sér er gleðiefni að þetta verði jöfn og spennandi barátta. En það er þó ljóst að enginn mun tapa meira á jafnri baráttu meira en Hillary. Hún veit að til þess að ná stjörnuglampa á næstu vikum þarf hún að taka lykilfylkin í upphafi og vinna helst stórt til að ná glampa á leiðarenda. Það verða mikil pólitísk tíðindi ef henni verður hafnað í þessum forkosningaslag og því alveg ljóst að Hillary mun berjast eins og ljón með eiginmanninn sér við hlið á aðventunni og um jólahátíðina í þeim fylkjum sem fyrst er kosið í.
![]() |
Obama saxar á forskot Clintons |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:18 | Facebook
Athugasemdir
Ef svo færi að Obama inni þetta prófkjör,væri það til þess að Repubikanir væru i góðum málum,þvi miður/Halli gamli
Haraldur Haraldsson, 14.12.2007 kl. 00:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.