Farið á mikilli hraðferð yfir merka sögu

Sjónvarpið

Á laugardag eru 40 ár liðin frá fyrsta útsendingardegi Ríkissjónvarpsins. Því mun verða fagnað um helgina með veglegri afmælisútsendingu. Allan þennan mánuð höfum við hinsvegar fengið tækifæri til að líta á merka sögu Sjónvarpsins þessi 40 ár. Sýndir hafa verið þættir með merkum klippum, t.d. verið rakin saga tónlistar, leikrita, gamanefnis, fræðsluefnis og svona mætti lengi telja. Allir hafa þessir þættir verið virkilega áhugaverðir og ég hef passað mig á því að reyna að sjá þá alla.

Hinsvegar hefur gallinn verið sá að þessir þættir hafa verið dreifðir út um allt í kvölddagskránni og þeir eru alveg skelfilega stuttir. Það er farið yfir merk atriði á hundavaði á 10 mínútum. Sumt sem er merkilegra en annað verður stutt klippa í stórum haug merks efnis. Þetta er frekar snautlegt og undarlegt að Ríkissjónvarpið geti ekki haft veglegri samantekt um allt það góða sjónvarpsefni sem það á í sínum fórum eftir þessa löngu sögu sem að baki er.

Til dæmis fannst mér þetta sérstaklega snautlegt þegar að farið var yfir merkilegt fræðslu- og menningarefni að þar var klippt hratt á milli, ólíku efni blandað saman og farið yfir þetta með alveg ótrúlegum hraða. Í nokkrum þáttum var svo farið yfir klippur úr gömlum áramótaskaupum. Það var virkilega áhugavert en sama gerðist með það og í þessu. Reyndar var farið betur yfir sögu skaupanna en sjálfs menningarefnisins. Reyndar verður aldrei sagt að Sjónvarpið hafi staðið sig vel í menningarefninu.

Hefði Sjónvarpið viljað minnast sögu sinnar með almennilegum hætti hefði þar verið allt árið lagt undir og farið skilmerkilega og ítarlega yfir þessa merku sögu. Þessi vinnubrögð að demba í okkur tíu mínútna hraðklipptu efni er frekar dapurt og ber hvorki vitni fágun né virðingu fyrir því merka sögulega efni í sjónvarpssögu landsins sem það óneitanlega er.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband