Glæsileg afmælisveisla Sjónvarpsins

Sjónvarpið

Í gær voru 40 ár liðin frá fyrsta útsendingarkvöldi Ríkissjónvarpsins. 30. september 1966 hófust útsendingar með ávarpi Vilhjálms Þ. Gíslasonar, útvarpsstjóra, skemmti- og afþreyingarþáttum, að ógleymdum blaðamannafundi þar sem dr. Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sat fyrir svörum. Halldór Kiljan Laxness, skáld, las svo upp úr bók sinni, Paradísarheimt. Fyrsti framhaldsþátturinn í Sjónvarpinu var á dagskrá það kvöld, en það var Dýrlingurinn, með Roger Moore, sem síðar lék njósnara hennar hátignar, sjálfan James Bond, í aðalhlutverki. Mun Savanna-tríóið hafa verið með fyrsta skemmtiþáttinn. Merkileg dagskrá.

Að baki er 40 ára eftirminnileg og glæsileg saga. Hvað svo sem segja má rekstrarfyrirkomulag þessarar stofnunar, sem ég hef verið allnokkuð ósáttur við í gegnum árin, má þó fullyrða að þessi stofnun hefur átt merka sögu og glæsilega hápunkta sem vert er að minnast. Það hefur t.d. verið gaman að fylgjast með eftirminnilegum hápunktum úr þessari sögu í góðum, en alltof stuttum, upprifjunarþáttum síðustu vikurnar. Efnið sem Sjónvarpið á í sínum fórum eru menningargersemar sem standa verður vörð um. Það mætti reyndar endursýna meira af íslenska leikna efninu, sem eru svo sannarlega algjörar perlur.

Afmælinu var fagnað með glæsilegri afmælisveislu í útsendingu í útvarpshúsinu við Efstaleiti í gærkvöldi. Ég missti af útsendingunni í gær en horfði á hana nú eftir hádegið í endursýningu. Þetta var alveg yndisleg útsending og ánægjulegt að fylgjast með. Vel stýrt af Evu Maríu, Þórhalli, Sigmari, Jóhönnu og Ragnhildi Steinunni. Innilega til hamingju með afmælið Sjónvarpsfólk. Að baki er merk saga og íslenskt þjóðlíf hefði orðið miklu fátækara án Sjónvarpsins. Það er því ástæða til að gleðjast á svona tímamótum og minnast þess sem eftir stendur. Það er rík og eftirminnileg saga, tel ég.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband