Benazir Bhutto myrt

Benazir Bhutto Benazir Bhutto, fyrrum forsætisráðherra Pakistans, fyrsta konan sem leiddi íslamskt ríki, hefur verið myrt á kosningafundi í Rawalpildi í Pakistan - var skotin til bana. Hún var 54 ára að aldri. Þetta eru dapurleg endalok á endurkomu Benazir í pakistönsk stjórnmál, en hún stefndi að því að reyna að verða aftur forsætisráðherra Pakistans, en hún gegndi embættinu tvisvar á áttunda og níunda áratugnum og markaði söguleg skref með því.

Aðeins eru nokkrar vikur liðnar frá heimkomu Benazir til Pakistans. Aðeins örfáum klukkustundum eftir að Benazir Bhutto sneri heim til Pakistans með tárin í augunum þann 18. október sl, þá eftir áratug í útlegð, var henni sýnt banatilræði. Þá slapp hún naumlega. Öllum var ljóst eftir stormasöm átök í stjórnmálum Pakistans síðustu mánuðina að Benazir væri í stórhættu og margir vildu hana feiga og óttuðust vinsældir hennar í heimalandinu. Því þurfa þessi dapurlegu örlög hennar ekki að koma að óvörum, þó sorgleg séu.

Heimkoma þessa eins öflugasta stjórnmálamanns í sögu Pakistans, fyrstu konunnar sem leiddi íslamskt ríki, hefur í einu vetfangi breyst í hreina martröð. Það mátti auðvitað búast við því að heimkoma Benazir kveikti ófriðarbál víða - hún er vinsæl meðal landsmanna en gríðarlega umdeild. Yfirvofandi þátttaka hennar í þingkosningunum stuðaði mjög marga. Benazir deyr 28 árum eftir að faðir hennar, Zulfikar Ali Bhutto, fyrrum forseti og forsætisráðherra Pakistans, var tekinn af lífi með mjög umdeildum hætti.

Heimkoma Benazir hafði verið skipulögð mjög lengi. Hún tók það djarfa skref að tilkynna mörgum vikum áður um endurkomuna og því gafst andstæðingum hennar færi á að undirbúa tilræði gegn henni. Það voru þó eflaust flestir að vona að ekki kæmi til þessa. Fjarvera Benazir frá pakistönskum stjórnmálum var mjög áberandi. Ekki naut hennar lengi við og má búast við að morðið á henni magni til muna ófriðarbálið í Pakistan og raun erfitt að spá því hvað gerist þegar að þessi öflugi stjórnmálaleiðtogi er fallin í valinn.

Benazir Bhutto var einn vinsælasti stjórnmálaleiðtoginn í stjórnmálalitrófi íslamskra ríkja. Hún markaði söguleg skref er hún varð fyrsta konan til að leiða íslamskt ríki og var í senn umdeild og gríðarlega vinsæl. Dauði hennar nú á jólahátíðinni eru sorgleg örlög fyrir þessa litríku konu, sem féll í valinn allt of snemma og með dapurlegum hætti. Hennar verður lengi minnst.


Myndin með þessari færslu var tekin í gærkvöldi og er ein þeirra síðustu sem tekin var af Benazir Bhutto.


mbl.is Benazir Bhutto látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er sama hvert litið er til hins íslamska heims, að hvergi þola þeir líðræði.

Stefán (IP-tala skráð) 27.12.2007 kl. 13:59

2 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Sorglegt...þetta eykur til muna þann möguleika að helsti leppur bandaríkjamanna í hinum íslamska heimi verði áfram við völd.

Jón Ingi Cæsarsson, 27.12.2007 kl. 15:14

3 Smámynd: Kristján Pétursson

Þetta er afar sorgleg frétt og mun valda miklu uppnámi meðal stuðningamanna hennar.Mér fannst endurkoma Benazir Bhutto til Pakistan vera hið stóra og lýðræðislega spor,sem gæti hugsanlega skapað heibrigt stjórnskipulag í landinu.Hún var mjög vinsæl,litrík og falleg kona,stjórnvöld óttuðust hana.

Hennar verður minnst sem hugrökku honunnar,sem lét líf sitt fyrir land og þjóð.Guð blessi hana.

Kristján Pétursson, 27.12.2007 kl. 15:35

4 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Þetta er mikið áfall fyrir lyðræðið/Guð fyrirgefi þeim!!!Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 27.12.2007 kl. 16:16

5 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Þetta eru hræðilegar fréttir, þó við þessu hafi mátt búast, eins og þú talar um í geininni.

Greta Björg Úlfsdóttir, 27.12.2007 kl. 16:34

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir kommentin.

Já, þetta er sorglegur dagur. Dapurleg endalok á ævi litríkrar kjarnakonu. Vonandi mun dauði hennar ekki marka endalok lýðræðisbaráttunnar.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 27.12.2007 kl. 19:22

7 Smámynd: Bryndís Böðvarsdóttir

Já tek undir þetta allt. Vona að stuðningsmenn hennar finni sér skjótt annan fulltrúa og gefist ekki upp.

Bryndís Böðvarsdóttir, 27.12.2007 kl. 21:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband