Mun Ólafur Ragnar gefa kost á sér til endurkjörs?

Ólafur Ragnar GrímssonÞriðja kjörtímabili Ólafs Ragnars Grímssonar á forsetastóli lýkur eftir átta mánuði. Eðlilega er farið að velta því fyrir sér hvað Ólafur Ragnar muni gera, en aðeins hálft ár er í áætlaðar forsetakosningar, en þær eiga að vera laugardaginn 28. júní 2008. Margir telja að forsetinn muni tilkynna um ákvörðun sína í nýársávarpi frá Bessastöðum eftir hádegið á nýársdag. Ásgeir Ásgeirsson og Kristján Eldjárn tilkynntu báðir starfslok sín í embættinu í nýársávarpi en Vigdís Finnbogadóttir í þingsal á þingsetningardegi.

Hugleiðingar hafa staðið um framtíð hans á forsetastóli um nokkurt skeið, eða eftir að tilkynnt var að hann væri að rita ævisögu sína með Guðjóni Friðrikssyni. Eflaust er þar á ferðinni uppgjörsbók á öllum skalanum, umfjöllun um hæðir og lægðir á ferli forsetans. Upphaflega átti ævisagan að koma út fyrir þessi jól, en af því varð ekki. Eðlilega hafa margir tekið því sem svo að hann ætli sér að halda áfram. Það að hann tilkynnti ekki starfslok á þingsetningardegi í október á sínum gamla vinnustað, Alþingi, gaf orðrómi um að hann ætlaði að halda áfram líka byr undir báða vængi.

Í ljósi þess að Ólafur Ragnar tilkynnti sérstaklega í kosningabaráttunni 1996, með Guðrúnu Katrínu Þorbergsdóttur sér við hlið, sem margir hafa reyndar metið mestu stjörnu þeirra forsetakosninga, að heppilegast væri að forseti sæti aðeins tvö kjörtímabil hlýtur að teljast ósennilegt að hann fari fram í fjórða skiptið. Það verður þó að koma í ljós hvort að hann vilji feta í fótspor Ásgeirs Ásgeirssonar og Vigdísar Finnbogadóttur. Sögusagnir hafa verið frekar í þá átt að hann telji sig eiga hlutverki að gegna, vilji sitja jafnlengi og þeir sem lengst hafa verið á Bessastöðum og láta ljós sitt skína á alþjóðavettvangi.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur verið umdeildur forseti, bæði tekið afstöðu til pólitískra hitamála og haft afgerandi skoðanir á hitamálum, auk þess að vera umdeildur fyrir vissan snobbhátt forsetaembættisins og slúðurblaðavæðingu þess. Ólafur Ragnar var umdeildur löngu áður en hann varð forseti og víst er að aldrei hefur verið algjör samhljómur um verk hans, þó að hann hafi unnið sannfærandi sigur í forsetakjöri 1996 og unnið endurkjör í skugga hitamáls fyrir þrem árum, þá gegn frambjóðendum sem höfðu enga lýðhylli.

Framganga Ólafs Ragnars á alþjóðavettvangi síðustu mánuði hefur vakið nokkra athygli. Hefur þar frekar virst maður í leit að nýju verkefni í fjarlægri heimsborg heldur en þjóðhöfðingi sem talar með sannfæringu fyrir hönd heillar þjóðar. Sérstaklega vakti ferð hans til Washington á árinu mikla athygli og hann fundaði þar með Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, Barack Obama, forsetaframbjóðanda demókrata, og fleiri aðilum í bandarísku þingstarfi. Það væri ekki undarlegt þó því væri velt fyrir sér að Ólafur Ragnar horfði annað.

Ólafur Ragnar er kominn á þann aldur að með ákvörðun um næsta kjörtímabil felst ákvörðun um starfslok hans í raun; hvort hann ætli að helga sig embættisverkum á Bessastöðum fram að eftirlaunaaldri eða horfa í aðrir áttir áður en að þeim áfanga kemur. Ólafur Ragnar Grímsson verður 65 ára í maí á næsta ári og hann yrði kominn að sjötugu færi hann fram í fjórða skiptið til forsetaverka og léti af embætti eftir það, árið 2012.

Ólafur Ragnar hefur oft kunnað á tímasetningar á forsetaferli sínum og er vel fókuseraður. Hann er mjög líklegur til að vilja tilkynna ákvörðun sína um framtíðina í þjóðhöfðingjahlutverkinu og vilji ekki feta í fótspor annarra í þeim efnum. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist. En hitt er víst að kjaftasagan um fjórða kjörtímabilið hefur lifað betra lífi eftir að hann ákvað að tilkynna ekkert í þingsal í haust.

Það eitt er víst að fylgst verður með hverju orði húsbóndans á Bessastöðum á nýársdag og hvort að þar verði línur lagðar um hlutverk hins umdeilda þjóðhöfðingja á næstu árum, hvort sem hann vill halda því hlutverki áfram eða horfa jafnvel til annars hlutverks á fjarlægum slóðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steini Bjarna

Ólafur Ragnar er réttur maður á réttum stað og á hann endilega að fara fram aftur og taka fjórða kjörtímabilið með glans.

Steini Bjarna, 27.12.2007 kl. 12:20

2 Smámynd: Auðbergur Daníel Gíslason

Það verður gaman að fylgjast með ávarpinu á nýjársdag og ég mun fylgjast spenntur með.

Auðbergur D. Gíslason
14 ára Sjálfstæðismaður

Auðbergur Daníel Gíslason, 27.12.2007 kl. 13:42

3 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Hann tekur eitt kjörtímabil enn...mjög líklega. Þjóðin hefur aldrei kosið flokksbundinn Sjálfstæðismann forseta lýðveldinsins fram að þessu og þar verður seint breyting á. Einhver nefnir Sigríði Dúnu ?? common !

Næsti forseti lýðveldisins verður örugglega ekki flokksbundinn sjálfstæðismaður eða einhver eftilaunastjórnmálamaður úr þeim flokki. Hvernig væri að sleppa því að kjósa núverandi eða fyrrverandi stjórnmálamann.. það er ekki leið til sátta um þetta embætti. Sjáum Stebba td. búinn að vera með þvílíkan habbít gegn núverandi forseta bara af þvi hann var einusinni formaður Alþýðubandalagsins og spældi Davíð stundum upp úr skónum ...

Jón Ingi Cæsarsson, 27.12.2007 kl. 15:21

4 Smámynd: Óttarr Makuch

Er hans tími ekki bara liðinn eins og tíminn hennar Jóhönnu er kominn.

Reyndar get ég seint kallað manninn forseta allra þjóðarinnar sökum þess hvernig hann kom fram í tíð sinni sem stjórnmálamaður og reyndar einnig í tíð sinni sem forseti, annaðhvort á forsetinn að vera pólitískur eða ekki.  Hingað til hefur þjóðin kosið sér að forsetinn sé sameiningartákn þjóðarinnar, einn talsmaður allra radda en ekki fyrir fámennan hóp aðdáenda líkt og núverandi forseti hefur stundum verið.

Ég tel því vænlegast fyrir land og þjóð að kjósa sér aðila sem getur hvort tveggja í senn verið sameiningartákn og fulltrúi allra landsmanna.

Óttarr Makuch, 29.12.2007 kl. 22:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband