Eldskírn Bilawal - fetað í fótspor forfeðranna

Bilawal Bhutto

Þrem sólarhringum eftir að Benazir Bhutto féll fyrir morðingjahendi er einkasonur hennar, Bilawal, kominn í innsta hring forystusveitar pakistanskra stjórnmála og orðinn lykilþátttakandi í þeirri stjórnmálabaráttu sem einkenndi móður hans og afa áratugum saman og kostaði þau bæði lífið. Bilawal erfir sögufrægt fjölskylduveldi - þetta eru örlög sem móðir hans ætlaði honum en hann hlýtur eldskírnina við gröf hennar á viðkvæmum aldri.

Bilawal Bhutto er ekki öfundsverður af þessu hlutskipti. Hann var aðeins kornabarn er móðir hans varð forsætisráðherra árið 1988 og hefur eins og hún lifað í skugga stjórnmála alla sína ævi. Stjórnmálabaráttan í Pakistan hefur verið miðpunktur Bhutto-fjölskyldunnar áratugum saman. Sú barátta gengur í erfðir. Hann getur ekki skorast undan þeirri ábyrgð sem við honum blasir er móðir hans hefur fallið í valinn. Hún hætti lífi sínu fyrir þessa baráttu. Uppgjöf var ekki valkostur í hennar huga og hann tekur nú þessa þungu byrði á sig. Það er eflaust erfiðara en orð fá lýst að taka þá byrði á viðkvæmum aldri.

Pakistanski þjóðarflokkurinn var stofnaður af Zulfika Ali Bhutto sem vopn í stjórnmálabaráttu, vopn í erfiðri baráttu. Sú barátta varð dóttur hans er hann féll í valinn og sömu örlög erfir dóttursonur hans. Þessi flokkur er undir merkjum þeirra feðgina og nafn þeirra verður flokksins svo lengi sem stjórnmálaáhugi lifir í afkomendum þeirra. Það sést á ákvörðunum dagsins. Morðið á Benazir Bhutto verður til þess að baráttan persónugerfist enn. Þessi barátta er nú merkt afkomendum hennar. Það eru vissulega örlagatíðindi og rétt eins og hjá móðurinni er uppgjöf ekki valkostur hjá hinum unga syni sem þarf að taka á sig byrðar móðurarfsins. 

Benazir Bhutto tók miklar áhættur í sínu pólitíska starfi. Hún hefði getað setið fjarri átakalínum og látið öðrum eftir forystusess á umbrotatímum eftir fall föður hennar. Það var ekki valkostur hennar. Og hún markaði söguleg skref með því að verða fyrsta konan við völd í íslömsku ríki. Förin til Pakistans eftir áratug í útlegð var áhætta sem kostaði hana lífið. Það varð ljóst er reynt var að drepa hana í október að hún ætlaði ekki að láta andstæðinga sína ráða örlögum þessarar baráttu. Enda sagði hún þá að uppgjöf væri ekki valkostur. Hún yrði að mæta því sem gerðist. Og það gerði hún.

Ég tel að hugrekki hennar verði lengi í minnum haft. Hún var hörkutól sem lifði fyrir áhætturnar og féll síðar vegna þeirra. En Benazir var engin hrein mey í stjórnmálabaráttu. Hún var ekki gallalaus en hún má eiga það að hún barðist. Hún tók áhættu sem fáir hefðu lagt í. Sem kona var hún fulltrúi baráttunnar á öðrum forsendum og hún hafði ljónskraft á við marga karlmenn. Hún var enginn heigull í karlaveldinu heldur leiðtogi í samfélagi þeirra. Það verður hennar arfleifð að vera kjarnakona baráttunnar á þessum slóðum.

En nú er þessi barátta færð á þriðju kynslóðina. Á þessum örlagatímum er baráttan í senn persónuleg og pólitísk. Það veit hinn ungi sonur kjarnakonunnar sem tekur á sig byrðar sem hann verður að axla. Í þeim efnum er varla spurt um viljann einan. Dauði Benazir Bhutto breytir miklu fyrir fólkið hennar. Þau þurfa að byggja baráttu sína á öðrum forsendum og halda áfram án neistans sem einkenndi baráttu hennar.

Nú er sonurinn kominn í sviðsljósið, áður en hann hefur getað lokið námi. En örlög hans eru ljós. Móðurarfur hans er einfaldlega sá að halda áfram baráttunni. Og það er ekki öfundsverður arfur í sjálfu sér. Þetta er barátta sem er í senn persónuleg og pólitísk. Og við gröf forfeðranna dugar varla hik.


mbl.is Sonur Bhutto einungis formaður í orði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég ætla nú að vona að hann haldi sig bara innandyra og haldi kosningabaráttu á Youtube...

Ef hann mun stýra þessu með sama hætti þá mun það einnig enda með sömu afleiðingum, því miður.

En verður framboð og hver verður þá forsætisráðherraefnið? Á fjölskyldan einhverja möguleika á að komast til valda í náinni framtíð?

Geiri (IP-tala skráð) 30.12.2007 kl. 21:04

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Er þessi fjölskylda ekki bara haldin valdagræðgi?? spyr sú sem ekki veit. ÉG er ekki vel að mér í innanríkismálum í Pakistan, en ég skil þetta ekki alveg. Get ekki séð fyrir mér að þeir feðgar verði langlífir, ef einhverjir ætla sér að stöðva framgang þeirra þá sýnist mér á öllu að allt verði gert til þess. Hugrekki - heimska ? veit ekki en stundum á fólk að draga sig til hlés, ég get ekki séð ástæðu til að fórna þessum unga manni og finnst mikið á hann lagt.

Ásdís Sigurðardóttir, 30.12.2007 kl. 21:19

3 Smámynd: Bobotov

Hversu mikinn ljónskraft hefir einn maður?

Er það heildarkraftur hvers manns sem umreiknast yfir í þennan ljónskraft, eða þá kraftur sem virkjast bara við ákveðið utanaðkomandi áreiti? 

Bobotov , 30.12.2007 kl. 22:00

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Geiri: Það er erfitt að spá í framtíðina. Það eru mjög mörg spurningamerki framundan. Fyrst og fremst er með þessu vali verið að koma í veg fyrir að stimpla eiginmann Benazir sem flokksleiðtoga. Hann hefur verið mjög umdeildur og það fer betur á því að leitað sé annað. Held að það hafi blasað við um nokkuð skeið að Bilawal myndi fara í stjórnmál. Hann ætlaði fyrst að klára nám sitt og það mun hann ætla að gera. En hann fer í stjórnmál nú þegar með þessari ákvörðun þó.

Það er ekkert hægt að fullyrða um hvað gerist á næstunni. Þetta er ekki ósvipað Gandhi-fjölskyldunni en þar voru þrír ættliðir forsætisráðherrar og leiðtogar Kongress-flokksins og nú er ekkja Rajiv Gandhi leiðtogi flokksins, hin ítalska Sonia, og stjórnar í raun öllu í Indlandi en hún valdi að verða ekki forsætisráðherra þó eftir kosningasigurinn 2004, stuðningsmönnum sínum til mikilla vonbrigða.

Bilawal er orðinn vonarneisti Bhutto-fjölskyldunnar. Hann hefði þó fengið rýmri tíma til að vera utan mesta hita stjórnmálanna í Pakistan ef móðir hans hefði lifað lengur. Það blasir við. En morðið á Benazir breytir öllu og þar er kallað eftir þekktum leiðtoga  með sterkt umboð og það hefur enginn sterkara umboð í þessum flokki en afkomandi tveggja fyrstu leiðtoga flokksins.

Það er erfitt að spá um hvað gerist í kosningunum á næstunni. Þeim verður væntanlega frestað eitthvað. Benazir var sennilega á góðri leið með að verða forsætisráðherra aftur. Það er allt breytt með dauða hennar en fróðlegast verður að sjá hvaða umboð Þjóðarflokkurinn fær í kjölfar fráfalls hennar. Það er nær öruggt að Bilawal verður ekki forsætisráðherra sigri flokkurinn. Hann ætlar sér að klára námið í Oxford.

Ásdís: Þarna er pólitíkin mjög persónuleg og Þjóðarflokkurinn er stofnaður af Bhutto og þar hefur honum verið stjórnað af fjölskyldunni alla tíð. Það breytist ekki þó Benazir falli í valinn. Baráttan heldur greinilega áfram. Sonurinn er bundinn af arfleifð mömmu sinnar og afa og tekur við kyndlinum. Val hans er sterkasta yfirlýsing þeirra um að Bhutto-fjölskyldan sé enn virk í stjórnmálum, án Benazir. Dauði hennar breytir þó öllu og greinilega er svar þeirra að fjölskyldan ætli ekki að gefast upp og berjist áfram. Það er þó óvissa yfir öllu í landinu. Forsetinn hefur veikst og framundan eru spennandi tímar í landinu.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 30.12.2007 kl. 22:27

5 identicon

Maður setur nú samt sem áður stórt spurningamerki við þetta hjá þeim. Þau segjast berjast fyrir lýðræði, en hvar er lýðræðið í því að hún láti 19 ára son sinn fá formannsembættið. Sú ákvörðun getur nú ekki verið byggð á hæfni, hann er enn að mótast, og er auðveldara fyrir einhverja að hafa áhrif á hann.  Þetta segi ég þó án þess að vita það fyrir víst, en ég tel það harla óliklegt að hann sé sá besti í starfið. Og svo er maðurinn hennar meðstjórnandi, er það nú það besta, er það ekki vopn fyrir andstæðinga þeirra, hann sat nú eftir allt saman í fangelsi tengt spillingu, jafnvel þó að það hafi verið byggt á lygi (sem ég veit ekkert um).

Mér þykir þetta mál hið versta fyrir Pakistan, en það má vel vera að þetta sé einmitt það sem þau þurfa á að halda, að flykkja sér fyrir aftan enn einn Bhutto, þetta er kannski meira byggt á sameiningatákninu, heldur en hæfni(veit samt sem áður ekkert um hæfni stráksins).  Ég set bara spurningamerki við það að láta stjórnunarembættin erfast þegar það er verið að berjast fyrir lýðræði. 

mbk

Óli 

Ólafur Hannesson (IP-tala skráð) 31.12.2007 kl. 10:14

6 identicon

Ég er nú frekar viss um að 19 ára ungmenni í Pakistan séu búin að fullorðnast meira en jafnaldrar þeirra hérna á Íslandi, sérstaklega þessi strákur sem hefur lifað óhefðbundnu lífi alla ævi.  Einnig er trúlegt að hann viti meira um stjórnmál heldur en flest miðaldra fólk í landinu og er góður námsmaður.

Finnst það mjög eðlilegt að hann taki við þessari stöðu. Ég held að henni hafi ekki verið troðið á hann heldur að hann hafi sjálfur viljað halda baráttu móður sinnar lifandi. 

Geiri (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 01:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband