Göng um Vaðlaheiði sett framar Sundabraut

Kristján L. Möller Það eru ánægjuleg tíðindi að Kristján L. Möller, samgönguráðherra, ætli að setja göng um Vaðlaheiði í forgang í samgönguverkefnum, jafnvel framar Sundabraut, mikilvægri samgönguframkvæmd fyrir sunnan. Ekki kvörtum við hér fyrir norðan altént við þessi tíðindi og fögnum að ráðherrann ætli sér að standa við digurbarkaleg kosningaloforð Samfylkingarinnar í þingkosningunum fyrir tæpu ári. Verður reyndar áhugaverðast að sjá hvort að göngin fara í það verkferli sem Samfylkingin lofaði þá; að þau verði ríkisverkefni að öllu leyti.

Það hljóta að teljast mikil vonbrigði fyrir Reykvíkinga að Sundabraut sé sett aftar Vaðlaheiðargöngum á dagskrá samgönguframkvæmda. Eftir allt talið um mikilvægi Sundabrautar og stór orð borgarfulltrúa Samfylkingarinnar um framkvæmdina vekur það athygli að samgönguráðherra í nafni Samfylkingarinnar taki þá ákvörðun. Væri reyndar áhugavert að heyra viðbrögð Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra í Reykjavík, og ennfremur Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, fyrrum borgarstjóra, sem nú er einn nánasti samstarfsmaður ráðherrans, sem formaður samgöngunefndar Alþingis. Ætla fjölmiðlar ekki að tala við Steinunni?

Annars koma þessar áherslur ekki að óvörum. Kristján Möller talaði mjög ákveðið til kjósenda fyrir alþingiskosningar um mikilvægi Vaðlaheiðarganga og lofaði að koma þeim í framkvæmd fljótlega á kjörtímabilinu hefði hann eitthvað um málið að segja. Hann er í óskastöðu sinni fyrir kosningar, situr nú á stóli samgönguráðherra og verður að standa við stóru orðin enda færi hann illa hér í næstu alþingiskosningum ella. Þetta blasir við öllum sem fylgjast með stjórnmálum hér, sennilega helst þeim samfylkingarmönnum sem hafa sig í frammi hér á Eyjafjarðarsvæðinu, en kallað hefur verið eftir því af fólki hér að ráðherrann myndi taka af skarið.

Það er vissulega vont ef Sundabraut tefst mikið meira en orðið er. Sennilega þurfa samfylkingarmenn í Reykjavík eitthvað að gera sig gildandi í augum samgönguráðherrans þeirra.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Nú vantar bara Austfjarðagöng

Einar Bragi Bragason., 5.1.2008 kl. 19:52

2 identicon

sælir

Það þarf að tryggja atkvæðin.

mbk.

Ólafur Sveinn Haraldsson (IP-tala skráð) 5.1.2008 kl. 20:38

3 Smámynd: Fannar frá Rifi

Sundabraut eru mikilvægustu samgöngu bætur sem nær öll landsbyggðin getur fengið. Hún og tvöföldun á vesturlandsvegi alla leið upp í Borgarnesi með tvöföldum Hvalfjarðargöngum.

Dagur B hefur ekki hugmynd um hvað hann er gera núna ekki frekar en hann hafði hugmynd um það þegar hann kom á Hringbrautar vitleysunni.  

Fannar frá Rifi, 5.1.2008 kl. 21:12

4 identicon

Hér eru menn ekki að skilja. Spurningin er ekki um annað hvort Sundabraut eða Vaðlaheiðagöng, bara hvað er komið lengra. Austfirðir verða boraðir saman frá Norðfirði í Seyðisfjörð. Núna.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 5.1.2008 kl. 21:21

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Þetta er ekki spurning um hvort það verði Sundabraut. Hún kemur. Það þarf að tryggja það verkefni á kjörtímabilinu. Það hefur tafist alltof lengi. Þetta er ekki spurning um hvað á að gera heldur hversu fljótt á að gera það. Allt eru þetta mikilvægar framkvæmdir. Göng milli Eskifjarðar og Norðfjarðar eru á teikniborðinu og verða að veruleika mjög fljótlega, þeim var flýtt af ráðherranum, og það er gott að Vaðlaheiðargöng og Sundabraut eru á dagskrá á kjörtímabilinu. Helst sem fyrst auðvitað. Það er búið að bíða lengi eftir báðum framkvæmdum.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 5.1.2008 kl. 21:31

6 Smámynd: Benedikt V. Warén

Það er í fínu lagi með Vaðlaheiðargöng, það kemur öllum til góða.  En lengingin á Akureyrarflugvelli er alveg út úr kú.

En það er fínt að eiga ráðherra samgöngumála, sem er til í að leggja fé úr ríkissjóði í verkefni á því svæði sem mestu skiptir hann persónulega, - í næstu kosningum.

Benedikt V. Warén, 5.1.2008 kl. 23:05

7 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Norðfjarðargöng eru ekki nóg fyrir Austfirði .......Reykjavík leggst ekki af þó að Sundabraut verði seinkað.......

Einar Bragi Bragason., 7.1.2008 kl. 01:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband