Var áramótaskaupið skemmtilegra í annað skiptið?

Ragnar Bragason Horfði á áramótaskaupið í endursýningu í kvöld. Það er fínt að gefa okkur annað tækifæri til að njóta þess og eiginlega átta okkur betur á því, enda erum við eflaust mörg sem erum enn að melta boðskap þess. Kosturinn er líka að væntingarnar eru ekki eins háleitar í annað skiptið og boðskapurinn kemst jafnvel betur til skila. Í denn voru engar endursýningar og þetta var eins og heilagt efni sem aldrei mátti endursýna eða ekki var samið um fleiri sýningar á.

Áramótaskaupið hefur líka verið mjög misjafnt. Það er oft svolítið kúltúrsjokk að upplifa gömul skaup. Það sem manni fannst kannski rosalega fyndið hér áður verður allt í einu algjörlega ófyndið á meðan að sum skaupin eru gullslegin klassík sem sannkölluð synd er að ekki séu til á DVD. Annars eru sum skaup kannski best geymd í minningunni. Eru bara minning um árið og það móment sem það var gert. Horfði í einum rykk á nokkur gömul áramótaskaup milli jóla og nýárs. Sum fannst mér óþægilega flöt á meðan að önnur eru yndisleg. Gott dæmi um frábært skaup er það sem gert var árið 1991, þar sem Davíð Oddsson var stjarnan. Klassískur húmor.

Sagan segir jafnan að það sé betra að skilja skaupið í annað skiptið og brandararnir verði betri. Má vera. Viðurkenni alveg að ég hafði eiginlega meira gaman af því í kvöld en þegar að ég sá það fyrst á gamlárskvöldi. Enn fannst mér þó beinagrindin í því, Lost-þemað, frekar dautt, og ég hafði ekki gaman af því. Molarnir inn á milli voru þó margir gulls ígildi og virkilega skemmtilegir. Fannst eitt besta atriðið sem ég upplifði aftur í kvöld ansi gott, en það var Árni Tryggvason í hlutverki sjúklings sem kallar eftir að starfsstúlka færi honum vatnsglas. Þar er þó ekkert nema bergmálið og neyðaróp karlgreysins óma um tóma ganga sjúkrahússins.

Annars áttaði ég mig á einu atriði betur núna en á gamlársdag. Á þetta ekki að vera Ólafur Ragnar Grímsson sem er að koma í glæsibifreið á stofnfund félags íslenskra auðmanna? Verð að viðurkenna að ég tók bakföll af hlátri þegar að ég sá þetta atriði áðan og áttaði mig á því. Þarf kannski ekki að koma á óvart þetta atriði. Svo náði Bergur Þór mjög vel söngvaranum Geir Ólafs og tók hann alveg með brilljans. Umræðan um réttindabaráttu vændiskvenna í Silfri Egils var líka ansi smellið atriði. Svo var líka ansi nett að sjá Kristján Möller hlaupa á dyr í samgönguráðuneytinu þegar að talað var um Grímseyjarferjuna og ellefu ára "barna"afmæli Fáfnis.

Allavega, þetta var alveg ágætis móment, fínt að upplifa skaupið aftur, svona einu sinni í viðbót allavega. En hvað finnst ykkur. Hvernig var að sjá skaupið í annað skiptið? Hvað með gömlu skaupin, viljið þið eiga minningarnar um gömlu skaupin eða mynduð þið kaupa þau á DVD eða vilja eignast þau aftur?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fishandchips

Fannst skaupið bara flott. Missti af nokkrum atriðum á frumsýningunni vegna hláturroka. Náði þessu betur núna. Með Lost "beinagrindinni"..... Var alveg að fatta hvað innflytjendur eru virkilega "Lost" í þessu þjóðfélagi.

Fishandchips, 5.1.2008 kl. 22:48

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Ég nennti nú ekki að horfa á skaupið aftur, en hvað varðar gömul skaup, þá hefði ég áhuga á að sjá gömlu skaupin sem Flosi var með á sínum tíma.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 6.1.2008 kl. 00:12

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

F&C: Já, þetta var að mörgu leyti hið ágætasta skaup. Fannst beinagrind skaupsins vera svolítið einhliða, skil alveg pointið hjá leikstjóranum en hefði alveg þegið lengri stund inn á milli í fleiri atriði og hafa það meira pólitískt. Við sem höfum áhuga á pólitík viljum góða umfjöllun um það. En þetta var fjölbreyttara og mun meiri þjóðfélagsádeila en pólitísk ádeila í heildina.

GMaría: Alveg sammála. Væri virkilega gaman að sjá gömlu skaupin hans Flosa. Mörg þeirra hafa gleymst mikið en það væri áhugavert að sjá þau aðeins lifna við og kynnast þeim betur. Hef ekki séð nema örstutt brot úr þeim.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 6.1.2008 kl. 00:24

4 Smámynd: Fishandchips

Var nokkuð að ske í pólitíkinninni??? Nema bara í borgarstjórn. Leiðist pólitísk skaup. Sami grautur í sömu skál ár eftir ár

Fishandchips, 6.1.2008 kl. 00:30

5 Smámynd: Fishandchips

Er kannski svo vitlaus.... en Flosi var alveg glataður.

Þannig að við erum með mismunandi skopskyn.

Allt gott með það....

Fishandchips, 6.1.2008 kl. 00:33

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þetta var stórmerkilegt ár í pólitíkinni. Það voru þingkosningar og að þeim loknum lauk tólf ára sögulegu stjórnarsamstarfi og nýtt kom í staðinn, varla síður sögulegra, þegar að stærstu flokkarnir, meginpólarnir í íslenskum stjórnmálum tóku sig saman og mynduðu sterkasta þingmeirihluta í marga áratugi. Þetta voru pólar sem börðust hatrammlega fyrir aðeins nokkrum mánuðum. Sérstaklega á þeim tíma er Davíð Oddsson var formaður Sjálfstæðisflokksins.

REI-málið er einn eftirminnilegasti pólitíski skandall síðustu áratuga á Íslandi. Í fyrsta skipti til þess sprakk meirihluti á miðju kjörtímabili og atburðarásin öll var með þeim sögulegri í stjórnmálum síðustu áratugina. Aðeins þetta tvennt gerir árið stórmerkilegt. Þessu var lítið sem ekkert gert skil í skaupinu. Ergó; þetta skaup var þjóðfélagsádeila en ekki pólitísk. Það var nálgunin og þá skilur maður betur ástæður þess að pólitík var að mestu sleppt.

Stefán Friðrik Stefánsson, 6.1.2008 kl. 00:34

7 Smámynd: Fishandchips

Einmitt. Gott að einhver fattar þetta

Fishandchips, 6.1.2008 kl. 00:39

8 Smámynd: Fishandchips

Er sennilega nokkurskonar (anakirsmi).Sorry, smá lesblind, en ekki samt með heilabilun. Fæ grænar og fjólubláar bólur um allan skrokkinn þegar minnst er á stjórnmál. Verst að ektamakinn er gallharður sjálfstæðismaður. Allavega höfum við eitthvað til að rífast um

Fishandchips, 6.1.2008 kl. 00:46

9 Smámynd: Sædís Ósk Harðardóttir

skaupið 84 situr upp úr hjá mér, veit ekki hvers vegna.  Kannski vegna þess að við vinkonurnar kunnum það orðið utan bókar á tímabili.  Laddi og Edda Björgvins voru frábær í því, ríkisverkfallið var tekið og svo marft fl.

Annars góður punktur að ofan hja einni með að tengja Lost við innflytjendur, þeir eru oft ansi lost í þessu öllu saman hér.  Segi enn og aftur, mér fannst þetta flott skaup, hefði vilja sjá það aftur i kvöld, vissi ekki af endursýningunni.

Sædís Ósk Harðardóttir, 6.1.2008 kl. 01:19

10 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentið Sædís.

Já, Skaupin 84, 85 og 86 voru alveg virkilega góð. Kvennaskaupið 84 er sígilt og mér finnst það eiginlega betra með árunum. Húmorinn þar var rammur fyrir suma en aðrir hlógu. Þetta er eitt af þeim skaupum sem ég myndi vilja eiga á DVD allavega og sama gildir um skaupin næstu tvö ár á eftir. Sígildur húmor og algjör klassi. Var skemmtilegt hvernig leiðtogafundurinn var dreginn sundur og saman í háði í 86 skaupinu. Þetta er eðalefni sem ætti að gefa út svo við getum notið og komandi kynslóðir auðvitað.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 6.1.2008 kl. 01:25

11 Smámynd: Sigurbjörn Friðriksson

Ég var búinn að fá mér smá bjór á gámlárskvöld og var því óeðliglega gagnrýninn.  Hinsvegar þegar ég sá Skaupið aftur í kvöld, þá var það bara dálaglegt.  Alveg ljómandi gott.

Þar að auki nenni ég ekki að vera í fýlu, ég var í fýlu mest allann táningaraldurinn og ég veit ekki af hverju. Samt hefði ég alrei gengið til liðs við Vinstri Græna, ég var aldrei í það mikilli fýlu.

Björn bóndi.

Sigurbjörn Friðriksson, 6.1.2008 kl. 01:26

12 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Alveg sammála. Fannst skaupið skárra í annað skiptið og ég naut þess betur. Margir alveg virkilega góðir molar og vandað í alla staði, eins og við má búast hjá fagmanni á borð við Ragnar Bragason.

Góðir punktar með vg hehe.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 6.1.2008 kl. 01:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband