John McCain sigrar - hnífjafnt hjá demókrötum

Hillary Rodham Clinton, Barack Obama og John McCainÚrslit eru nú að ráðast í forkosningum demókrata og repúblikana í New Hampshire. Það er ljóst að John McCain hefur unnið góðan sigur meðal repúblikana en hnífjafnt og spennandi einvígi er á milli Hillary og Obama um sigurinn hjá demókrötum. Enn hefur ekki verið spáð með vissu um sigurvegara.

Kjörsókn var mikil í New Hampshire í dag og greinilegt að íbúar í fylkinu vilja hafa sitt um það að segja hverjir eigi að berjast um forsetaembættið í nóvember. Tölurnar sýna þó að Hillary hefur slegið rétta tóna eftir að hún tók að síga í vikulok. Sennilega var sunnudagurinn hennar örlagadagur, er hún breytti um baráttuþema og lykiltóna í slagnum. Og í gær sýndi hún tilfinningar. Margir töldu það of seint... en það virðist hafa skilað sér.

-----

John McCain blæs nýju lífi í kosningabaráttu sína með sigrinum í New Hampshire í kvöld. Hann tók fylkið í forkosningunum 2000, náði að slá George W. Bush út af laginu og vann sannfærandi sigur, að mörgu leyti óvæntan sigur - náði að berjast af alvöru við hann um útnefninguna framan af en tapaði er á hólminn kom í harkalegri baráttu við forsetasoninn, sem eyddi öllum sínum peningum og klækjum samstarfsmanna sinna til að slá við þingmanninum margreynda. Nú á McCain stóra endurkomu á sama stað og markaði hann sem keppinaut árið 2000.

McCain varð auðvitað að vinna í New Hampshire, þarna var vonarneistinn hans til að byggja upp alvöru baráttu og halda í næstu forkosningar sem alvöru frambjóðandi. Hann var allt að því talinn af í fyrrasumar, missti starfsfólk og átti erfitt með að safna peningum. Það breytist án nokkurs vafa nú og væntanlega nær hann að nýta þennan byr í seglin svo um munar. McCain verður elsti forseti Bandaríkjanna nái hann kjöri í nóvember, enda orðinn 71 árs. Ronald Reagan var 69 ára er hann var kjörinn í nóvember 1980. McCain hlýtur að vera alsæll í kvöld með þennan mikilvæga sigur. Nú getur allt gerst, hann er í slagnum af alvöru.

Mitt Romney tapaði í Iowa og varð að vinna í New Hampshire til að ná að byggja undir framboð sitt. Tapið í kvöld gæti gengið frá forsetaframboð hans. Romney á peninga og hefur dælt þeim svo um munar í þessum slag, en það hefur sannast á honum að það er ekki hægt að kaupa sér velgengni. Romney leiddi í New Hampshire mánuðum saman og stefndi í að taka bæði fyrstu fylkin og ná forskoti í slagnum til að ná velgengni á stóra þriðjudegi í febrúar. Romney mun eiga í miklum vandræðum núna, það verður erfitt fyrir hann að ná endurkomu eftir svo vonda byrjun, þrátt fyrir alla peningana.

Aðrir skipta varla máli repúblikanamegin í kvöld, eru langt að baki. Það er þó mikilvægt fyrir Huckabee að ná þriðja sætinu. Hann vann í Iowa og er alvöru keppinautur um útnefninguna. Giuliani varð fjórði, hefði þurft að verða þriðji til að fá byr í seglin. Hann á mikla baráttu framundan - stólar á að slagurinn haldist ferskur til janúarloka er forkosningar verða í Flórída. Það reynir ekki á hann fyrr en þá, en það er spurning hvort að hann þoli svo langa bið. Það verður að ráðast. Fred Thompson fór illa, stendur nú og fellur með Suður Karólínu. Tap þar gengur frá framboði hans.

------

Fyrstu niðurstöður meðal demókrata sýna að þar er allt galopið. Kannanir höfðu bent til að Hillary væri að fá skell gegn Obama. Er ekki að fara svo. Þetta er auðvitað einvígi þeirra um útnefninguna. Edwards er þriðji, langt á eftir og á erfiða baráttu fyrir höndum. Hann er í sjálfu sér búinn að vera og nær ekki þeim tveim í slagnum. En stóru tíðindin nú eru þau að Hillary er yfir er um fjórðungur atkvæða hefur verið talinn. Hún er ekki að fá stóra skellinn sem spáð var og gæti jafnvel unnið í New Hampshire. Og það yrðu sannarlega stórtíðindi.

En meira um demókrata síðar. Þetta er of spennandi til að skrifa mikið um nú. Það er ekkert öruggt þar og þarf að vaka lengur eftir úrslitum í fylkinu til að sjá hvort að Hillary eða Obama sigrar í einvíginu örlagaríka. En það er greinilegt að menn eiga ekki að afskrifa kjarnakonuna Hillary. Hún er enn í slagnum af alvöru. Mun hún eftir allt sem hefur gengið á síðustu daga verða allt að því jöfn Obama eða sigra hann?

Sannarlega merkileg úrslit, fari þetta svona, en það sannast nú að áherslur hennar á lokasprettinum, þar sem allt virtist orðið glatað, voru réttar. Og hún gæti orðið sama comeback kid og eiginmaður hennar fyrir sextán árum! Jahérna hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband