9.1.2008 | 04:49
Hillary sigrar Obama í New Hampshire
Þvert á allar hinar dökku kosningaspár sem boðuðu háðuglegan ósigur tókst Hillary Rodham Clinton að sigra Barack Obama í forkosningaslag demókrata í New Hampshire og stöðva bylgjuna sem myndaðist í kringum hann eftir sigurinn í Iowa fyrir tæpri viku. Það var sigri hrósandi Hillary, í sínu besta formi, sem ávarpaði stuðningsmenn sína í Manchester nú á fimmta tímanum og talaði af þeirri innlifun sem vantaði í boðskap hennar fram á sunnudaginn.
Hillary flutti eldmessu yfir liðinu - þvílíkur kraftur! Það er greinilegt að Hillary hefur lært mikið á mótvindinum síðustu daga og fundið aftur pólitíska baráttuandann og veiðieðlið sitt. Hún virðist sannarlega í hörkuformi eftir stormasömustu viku á 35 ára stjórnmálaferli sínum og hefur náð áttum og stjórninni að nýju. Þvílík endurkoma! Segja má að kosningabarátta Hillary hafi verið byggð algjörlega upp frá grunni á síðustu dögum og henni tókst í miðri bylgju allra neikvæðu skoðanakannanna, sem hljómuðu sem endalok litríks ferils, að stöðva bylgjuna til Obama sem virtist þó óstöðvandi allt þar til á mánudag. Það mátti þó finna hið örlagaríka augnablik er hún beygði af á kaffihúsafundinum. Þá fór eitthvað að smella til.
Ég verð að viðurkenna að þetta er ein merkilegasta endurkoma í bandarískum forkosningaslag hin seinni ár, enda er hún svo óvænt í raun, þó það þurfi ekki að hljóma svo. Fyrir nokkrum vikum virtist Hillary örugg um útnefninguna en mótvindurinn gegn henni var svo mikill þessa fimm daga í baráttunni í New Hampshire að allt virtist algjörlega á vonarvöl og sérfræðingar voru farnir að velta því fyrir sér hvort hún myndi draga sig í hlé fyrr en síðar og jafnvel að samherjar hennar í öldungadeildinni, sem hafa beðið með stuðningsyfirlýsingu myndu styðja Obama. Þetta er vissulega mikill sigur á skoðanakönnunum og bara öllu sem var að gerast. Bylgjan var stöðvuð og það opnar slaginn upp á gátt aftur.
Ósigur Hillary virtist orðinn það óumflýjanlegur að hún sjálf og helstu kosningasérfræðingar hennar voru farnir að gera ráð fyrir honum og byggja plan, mjög erfitt plan, að baráttunni næstu vikurnar. Las fréttir og heyrði umfjöllun víða í gær þar sem farið var að tala um ósigurinn sem staðreynd, eina óvissan væri hvort hann yrði um eða yfir 5%. En Clinton-hjónin sýna það enn og aftur að það er hægt að snúa jafnvel hinu glataða við og eiga endurkomu. Það tókst Clinton forseta í sama fylki fyrir tæpum tveimur áratugum og frúin er ekki síðri comeback kid en hann.
Nú er spennan sannarlega orðin algjör. Hillary hefur ekki náð útnefningunni en þessi sigur var þó mikilvægt skref fyrir hana í þeirri baráttu sinni að þrauka fram að ofur þriðjudeginum er tuttugu fylki halda forkosningar og slagnum ætti að ljúka í raun. Það er nú svo að segja tryggt að slagurinn helst svo lengi og Hillary er ekki lengur metin sem lúser, eftir svona viðsnúning er ljóst að allt er opið og Obama hefur ekki tekist að halda bylgjunni. Hann þarf nú að berjast áfram, en þessi ósigur er áfall fyrir hann eftir allar væntingar hans um að sigur væri svo til öruggur.
Eins og ég sagði fyrir nokkrum dögum er bylgjan mikla kom eftir Iowa að þá var ekki hægt að afskrifa Clinton-hjónin. Þau eru fæddir kosningasmalar og kunna öll trixin í bókinni. Mótvindurinn í vetrarríki New Hampshire virðist bara hafa eflt þau og kveikt í þeim sama baráttuanda og einkenndi þau á tíunda áratugnum þegar að þau endurskrifuðu sögu Demókrataflokksins og gerðu hann að sigurteymi eftir tólf ára forsetatíð repúblikana. Endurkoma er það og nú er bylgjan hennar. Merkileg vika, sú skemmtilegasta í bandarískri pólitík í mjöööög langan tíma!
Og Hillary fékk kvennafylgið. Oprah Winfrey hvað? :) Og unga fólkið var í meirihluta sigri hrósandi stuðningsmanna hennar í bakgrunni er hún flutti sigurræðuna. Hvað segir það okkur? Þetta voru sigursæl tár sem féllu á kaffihúsinu segi ég bara.
------
Hjá repúblikunum er John McCain skyndilega orðinn lykilmaður á ný eftir sigurinn í kvöld. Hef fjallað vel um stöðuna þar og bendi á þau skrif neðar á síðunni, fyrr í nótt. Segi þó þetta: McCain er kannski á áttræðisaldri en hann virkaði sannarlega mun yngri í kvöld er hann hrósaði sigri í New Hampshire, fylki sem enn og aftur krýnir hann sigurvegara og alvöru keppinaut um Hvíta húsið. Og honum tókst að raka til sín stuðningi óháðra, sló við Obama. Þvílíkt afrek.
Segiði svo að kallinn sé dauður úr öllum æðum. Fólkið öskraði Mac is Back aftur og aftur yfir ræðu hans. Þvílík stemmning - gott ef hann minnti ekki á Reagan á sínum tíma, þegar að hann talaði sem hjartahlýi jaxlinn og útplottandi risinn í sömu andránni og af ógleymanlegri snilld. Munu repúblikanar í fleiri fylkjum öskra Mac is back á næstunni? Spurning sem verður gaman að fá afgerandi svar við. Get varla beðið hreinlega.
-------
Stóru tíðindi kvöldsins eru þau að bylgja breytinganna tók á sig aðra mynd; reyndir pólitískir refir með mikla reynslu tókst að taka baráttuna með trompi og vinna sannfærandi eftir allt sem á undan er gengið og tryggja að slagurinn er lifandi og hress. Verða kannski þessir tveir þrautreyndu vinnufélagar í öldungadeildinni frambjóðendurnir sem keppa um Hvíta húsið í vetur? Ein spurning sem verður mjög erfitt að bíða nokkrar vikur eftir að fá svar við.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:13 | Facebook
Athugasemdir
Vá. Ég á bara næstum því enginn orð. 3% forskot er forskot samt. Áfram til Suður-Karolína!
Fjölmiðilar sem ég er að lesa á netinu sýnir Demokratar miklu meira athygli en Republikanar, og ég held að þetta er ekki fyrir einhverjum pólitískum ástæðum, heldur bara af því að þetta er miklu meiri spennandi að fylgjast með.
Hvílík russibani er það!
Paul Nikolov, 9.1.2008 kl. 09:24
Þetta er mögnuð nótt, vægast sagt. Hef ekki séð aðra eins endurkomu mjög lengi, sennilega er þetta stærsti sigur á skoðanakönnunum síðan að Íhaldsflokkurinn vann bresku þingkosningarnar fyrir fimmtán árum. Engin könnun í allri kosningabaráttunni sýndi þá yfir, en þeir unnu kosningarnar. Dettur það helst í hug hreinlega.
Hillary hefði verið alsæl þó að það hefði bara munað broti úr prósenti. Þetta breytir öllu. Nú er hún aftur orðin sigursæl og fær aukinn byr í seglin. Þannig að það er allt hægt. Þetta er fljótt að breytast. Ekki viss um hvernig að þetta fer en ég tel að Hillary eigi mjög góðan séns og ef hún misstígur sig ekki á næstunni ætti útnefningin að verða hennar.
mbk.
Stefán Friðrik Stefánsson, 9.1.2008 kl. 09:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.