Glæsileg endurkoma Hillary Rodham Clinton

Clinton-fjölskyldan fagnar sigri Það er alveg ljóst að glæsileg endurkoma Hillary Rodham Clinton í New Hampshire og sigur hennar á öllum skoðanakönnunum eru stórmerkileg pólitísk tíðindi - hiklaust einn eftirminnilegasti pólitíski sigur í bandarískum stjórnmálum í fjölda ára. Hillary barðist á móti straumnum og varð sigursæl, þó allir spáðu henni skelli og háðuglegri útreið. Hún barðist eins og ljón í kappi við tímann og náði að stöðva bylgjuna sem margir töldu að myndi sópa henni út af kortinu. Mikið afrek.

Það mátti enda sjá í nótt að Clinton-fjölskyldan fagnaði jafnmikið og Hvíta húsið væri í höfn. Þau áttu virkilega ekki von á þessu, þó Bill hefði gælt við það í Hanover að bylgjan hefði verið stöðvuð, og bjuggu sig allt eins undir vondan skell og þurfa að róa lífróður fram að ofur-þriðjudeginum og jafnvel þurfa að gefast upp áður. Hún þurfti sigur til að snúa stöðunni við og tókst það með aðdáunarverðum hætti. Clinton-hjónin hafa haft mörg pólitísk líf og jafnan komið standandi niður eins og kötturinn sama á hverju dynur. Þessi pólitíska endurkoma kjarnakonunnar frá New York er þó eitt mesta afrek þeirra árum saman. Einkum vegna þess að það trúði enginn að þetta væri hægt.

Barack Obama hafði varað stuðningsmenn sína við bjartsýni og það var sannarlega ástæða til. Það skal aldrei vanmeta Clinton-hjónin í pólitískri baráttu. Þetta er lexía fyrir Obama, sem virtist vera á traustri bylgju til sigurs í New Hampshire og á landsvísu. Hafði allt í hendi sér hreinlega. Eitthvað gerðist á mánudag sem sneri stöðunni við, það mátti finna það en samt þorði enginn að spá Hillary sigri. Meira að segja voru blöðin búin að undirbúa stórt forsíðuletur þess efnis að Hillary hefði fengið skell. Meira að segja Fréttablaðið skrifar með þeim hætti í dag að Obama sé á siglingu. Sannarlega vandræðalegur leiðari á þessum morgni fyrir stærsta blað landsins. Það er oft betra að vera vitur eftir á.

En þetta breytir auðvitað öllu. Obama er ekki lengur með bylgjuna miklu og henni hefur verið snúið við. Það var engu líkara en maður væri að sjá gamlar fréttamyndir af komu Bítlanna til Bandaríkjanna er sýnt var frá kosningafundum Obama í New Hampshire um síðustu helgi. Svo mikil var sveiflan til hans. Það hefur mikið gerst í New Hampshire síðan, á síðustu tveim sólarhringum, og nú hefur Hillary tekist að snúa gæfu Obama við og bætt stöðu sína svo um munar. Nú verður þetta alvöru barátta og meiri líkur en minni á því að Clinton-hjónin geti notfært sér þessa uppsveiflu til að tryggja sér aftur þá stöðu sem Hillary hafði fyrir kosninguna í Iowa.

Það er gott mál að alvöru barátta verði um útnefninguna og tekist verði á allt til ofur þriðjudagsins 5. febrúar nk. Verð samt að viðurkenna að það var súrrealískt að fylgjast með talningunni og fara yfir stöðuna. Stórmerkileg kosninganótt í Bandaríkjunum. Þetta er vissulega bara eitt fylki á langri leið til flokksþings demókrata í Denver en New Hampshire er ekkert venjulegt fylki. Það er eitt af þeim sterkustu og hefur tendans til að skapa forsetaefnið sem fer alla leið. Það er fylgst mjög vel með örlögum frambjóðenda þar um allan heim.

Og nú verður að ráðast hvort að hið nýjasta comeback kid Clinton-fjölskyldunnar fer alla leið á þessari óvæntu bylgju, merkilegasta sigri á skoðanakönnunum í seinni tíma bandarískri stjórnmálasögu á nótt endurkomanna. Það eru spennandi tímar framundan í bandarískum stjórnmálum.




mbl.is Clinton vann í New Hampshire
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ragnarsson

Já, glæsileg... grenjaði inn fylgið? Vilja Bandaríkjamenn forseta sem brestur í grát við minnsta mótlæti?

Jón Ragnarsson, 9.1.2008 kl. 11:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband