Mannlegar karakteráherslur færðu Hillary sigurinn

Hillary og Bill fagna sigri Óvæntur sigur Hillary Rodham Clinton í New Hampshire er skiljanlega aðalfréttaefnið í dag. Allir spyrja sig að því hvað gerðist sem breytti stöðunni svo skjótt, hvernig náði Hillary að stöðva bylgjuna til Barack Obama og sigrast á öllum könnunum og spám um forkosningarnar í New Hampshire? Það er enginn vafi á því að tilfinningasemin, tárin og brostna röddin, í kaffihúsaspjallinu í Portsmouth á mánudag hafði gríðarleg áhrif. Hillary fékk ásýnd konunnar með tilfinningar, hún væri ekki tilfinningalaus og kuldaleg.

Það fór ekki á milli mála að Hillary virkaði fjarlæg og köld í huga margra kjósenda í New Hampshire fyrir mánudaginn. Það fann ekki samhljóm með henni eins og ég benti á í pistli mínum á mánudag. Hún talaði ekki um framtíðina og sýndi lítil svipbrigði, brosið var þvingað og hún var eins og stytta. Náði ekki kontakt við kjósendur. Einnig flutti hún langar einræður sem skiluðu sér ekki. Neistinn var ekki til staðar og tengingin milli frambjóðanda og kjósandans var í núllmarki. Samskiptavandræðin voru að sliga framboðið. Þetta var lykilástæða þess hvernig fór í Iowa og í sama óefni stefndi í New Hampshire.

Það var greinilegt að seinnipart sunnudags var stokkað upp áherslum algjörlega, eins og ég hef svo oft bent á hér síðasta sólarhringinn. Þá var algjörlega snúið við blaðinu og greinilega mótuð ný Hillary til að taka á helstu vandamálunum, enda sást á könnunum hvaða hópar voru að fara frá Hillary. Fyrst og fremst var það ungt fólk og kvenkyns kjósendur. Oprah-sveiflan í Iowa hafði mikil áhrif og hún smitaði út frá sér, enda fannst fólk það sjá í Obama það sem Hillary hafði ekki fram að færa; neistann og útgeislun, auk þess að tala um málefni framtíðarinnar en ekki aðeins reynslu og fortíðina. Á mánudeginum birtist brosandi Hillary og mun mannlegri, sú sem gat sýnt tilfinningar og hafði stefnu.

Sá þetta einna best á kosningafundinum í Nashua þar sem Hillary flutti frekar stutta ræðu en opnaði svo á spurningar og spjall með stuðningsmönnum. Þetta varð tónninn. Einræðan var á bak og burt en í staðinn var fundurinn byggður á léttu spjalli, spurningum um framtíðina og lykilmál þess sem þarf að gera í þessum forsetakosningum. Síðar sama dag voru litlir fundir með konum og ungu fólki þar sem fókuserað var á návígi við frambjóðandann þar sem spurt var hana um lykilmál og ennfremur opnað á persónulegri hliðar. Með því varð baráttan persónulegri og stuðningsmenn sáu meira inn í kjarna hennar.

Það var á slíkum fundi með konum á kaffihúsinu í Portsmouth sem 64 ára ljósmyndari braut ísinn og spurði um það hvernig að Hillary kæmist í gegnum daginn, þraukaði af í þunga erfiðrar baráttu. Hillary svaraði á persónulegum nótum, þetta var fjarri því eina spurningin eða eina augnablikið af þessu tagi þennan dag þar sem fundaformi og áherslum var breytt þar sem talað var um persónu hennar og opnað á mannlegri hliðar, sem ekki höfðu notið sín áður.

Í gær sást þessi taktík enn og aftur þar sem Hillary fór um, brosti og sýndi tilfinningar, var mannleg og jákvæð. Ekki bara konan með reynsluna sem veit allt, getur allt og skilur allt. Þetta var lykilbreytingin og á henni vann Hillary. Hún vann kvennafylgið og stuðning fleira ungs fólks ekki bara með tárum heldur brosi og hlýju. Og hún vann á því að vera lifandi tenging við fólk, spyrja það um hvað það sé sem brenni á því, heyra rödd almennings. Þarna varð breytingin og hún vann fylkið á mannlegu nótunum. Það er víst ekki flóknara en það. Tárin ein gerðu ekki gæfumuninn.

Þetta er eflaust elsta trixið í bókinni, en málið er bara það að enginn getur skipulagt svona baráttu betur og útfært hana betur en Bill Clinton. Ég meina, maðurinn hélt forsetaembættinu og pólitískum ferli sínum gangandi þrátt fyrir að halda framhjá og ljúga eiðsvarinn að fjölskyldu og stuðningsmönnum, allt með sínum fræga jákvæða karakter og best buddies-fíling. Það er líka ljóst að Hillary flutti betri ræður, talaði hreint út og var ekki með einræður. Þetta skilaði sér. Þau voru föst í feni en fundu gömlu öruggu leiðina út úr henni.

Í sjálfu sér er þetta nú ekki flóknara. Nú er bara stóra spurningin hvort að þeim takist að halda baráttunni í gangi allt til enda á þessum breyttu áherslum. Altént vann Hillary mikinn persónulegan sigur með því að sýna aðra hlið á sér, stokka sig upp og feta í fótspor sjarmatröllsins sem hún hefur verið gift í þrjá áratugi. Sá sigur var líka tekinn á persónulegu nótunum að hætti hans.

mbl.is Gáfu tárin Clinton byr?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Paul Nikolov

Mér finnst það ótrúlegt hvernig helstu gagnrýnar hennar saka henni fyrst um það að vera pólitísk vélmaður sem vill bara vald, og þá að vera of veikbyggð til að vera forseti af því að hún sýnir tilfinningar hennar.

Reyndar hefur Rush Limbaugh sagt að Clinton var að sýna bara "krokídílatár". Hvernig vissi hann það? Er hann sálfræðingur? Það eitt sem ég skil ekki er af hverju hata hægrimenn Clinton svo rósalega mikið. Edwards er til dæmis miklu lengra til vinstri en Clinton, en hún er einhvers konar skotmark fyrir skítkast.

Paul Nikolov, 9.1.2008 kl. 13:34

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Paul: Hún stuðar marga, bæði eigin flokksmenn sem og aðra. Margir þeir sem gagnrýna hana mest þessa dagana eru þeir sem fylgja Edwards og Obama. Í herbúðum þeirra er hún beinlínis hötuð.

Baldur: Hillary mun aldrei taka undir að mánudagurinn hafi verið örlagadagurinn. Það blasir við öllum að það var lykilpunkturinn. Þá sneri hún bylgjunni við. Það gerðist ekkert á laugardag nema þá það að þá greindu þau vandann fyrst almennilega. Það var á sunnudeginum sem þau byrjuðu að taka á honum með alvöru vinnubrögðum og strategík.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 10.1.2008 kl. 02:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband