Stormasamt ár Sigrúnar á bæjarstjóravakt

Ár er liðið frá því að Sigrún Björk Jakobsdóttir tók við embætti bæjarstjóra á Akureyri og leiðtogastöðu í Sjálfstæðisflokknum, fyrst kvenna. Þetta hefur verið stormasamt ár fyrir Sigrúnu Björk. Það hefur einkennst umfram allt af klúðri bæjaryfirvalda í skipulagsmálum, óskiljanlegum aldurstakmörkum á tjaldsvæði bæjarins, langvinnum samningaviðræðum um frjálsíþróttaaðstöðu á Þórssvæðinu og langri bið eftir því að tekið verði af skarið með miðbæjarsvæðið og íþróttavöllinn.

Fyrir ári þegar að Sigrún Björk tók við bæjarstjóraembættinu tók hún við með velvild margra og stuðningi. Eftir níu ára bæjarstjóraferil Kristjáns Þórs Júlíussonar vildu margir breytingar og flestir bjuggust við að hún yrði ferskur vindblær mikilla breytinga. Persónulega varð ég fyrir nokkrum vonbrigðum enda átti ég von á að hún yrði sterkari leiðtogi og myndi ekki lenda í svo mörgum leiðindamálum sem raun bar vitni og sem hafa sligað hana í gegnum fyrstu mánuðina. Það fer ekki framhjá neinum að hún er umdeild víða, ekki síður innan eigin flokks en á öðrum vettvangi.

Ég fer ekki leynt með það að ég varð fyrir vonbrigðum með forystu bæjarstjórans og okkar sjálfstæðismanna í tjaldsvæðamálinu. Þá skrifaði ég gegn ákvörðun bæjarstjórans, enda gat ég ekki varið hana. Það vann gegn pólitískum hugsjónum mínum að banna sjálfráðu fólki aðgang að tjaldsvæðum hér í bænum. Enda gat ég ekki betur séð en að ákvörðunin væri tekin í andstöðu við meirihluta bæjarstjórnar á Akureyri. Það var mál sem ég gat ekki varið og ég verð að viðurkenna að ég íhugaði í kjölfarið hverjar pólitískar hugsjónir bæjarstjórans og bæjarfulltrúanna voru.

Skipulagsmálin voru vont klúður auk þess og fleira mætti nefna. Þetta var heitt ár og margar vitlausar ákvarðanir voru teknar. Það er freistandi að halda að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á Akureyri hafi lært sína lexíu á þeim ákvörðunum og muni geta rétt kúrsinn og leitt mál betur á næsta ári, en var á árinu sem var að líða. Ég hef lengi unnið í stjórnmálum fyrir Sjálfstæðisflokkinn hér á Akureyri, en ég mun aldrei verja það sem ég tel rangt og að mínu mati var tjaldsvæðamálið mesta klúður síðasta árs í bæjarmálunum og vonandi verður horft í aðrar áttir með mál næst.

Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína að þessi meirihluti hafi verið bragðdaufur og hægvirkur. Þar skiptir sköpum að aðeins tveir bæjarfulltrúar meirihlutans höfðu reynslu af því að vera aðalmenn í bæjarstjórn áður; bæjarstjórarnir Kristján Þór og Sigrún. Hin hafa slípast misvel til og hafa verið að læra að synda úti í straumþungum sjónum. Það tekur oft á, jafnvel fyrir duglegt fólk. Það getur tekið mismikinn tíma. Sumir í þessum hópi eru misvel syntir eftir árið, sumir enn að læra tökin og enn efasemdir um hvernig að þeim takist upp. Það reynir á þá á þessu ári er tímabilið er hálfnað.

Persónulega varð ég fyrir mestum vonbrigðum með bæjarstjórann síðla árs er hún skrifaði Morgunblaðsgrein gegn Verði, félagi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri. Það voru mikil pólitísk mistök og ég vona að bæjarstjórinn hafi lært eitthvað á því. Með þeim skrifum var hún að senda þau skilaboð til ungra sjálfstæðismanna í bænum að hún þurfi ekki á okkur að halda og geti farið fram í kosningum eða prófkjöri án okkar hjálpar. Eftir stuðning minn og fleiri ungra sjálfstæðismanna við Sigrúnu Björk í gegnum árin var greinin okkur áfall, sem hún verður að bæta fyrir.

Staða Sjálfstæðisflokksins á Akureyri er athyglisverð nú á þessari stundu. Bæjarstjórinn Sigrún Björk Jakobsdóttir og kjördæmaleiðtoginn Kristján Þór Júlíusson hafa sterka stöðu hér í bænum að því er virðist. Þrátt fyrir það er bæjarstjórinn að klára þriggja ára bæjarstjóraferil sem fyrst var eyrnamerktur Kristjáni Þór og kjördæmaleiðtoginn varð hvorki ráðherra né nefndaformaður í kapal flokksins í maímánuði. Það er því ljóst að í júní 2009 hefur flokkurinn hér hvorki lykilembætti sem fylgja setu í ríkisstjórn eða því að stjórna bænum úr Ráðhúsinu, að óbreyttu.

Það eru eflaust margir hugsi yfir því, sérstaklega þeir sjálfstæðismenn sem lengst hafa unnið hér á Akureyri í flokksstarfinu og þekkja innviðina þar mest og best. Fyrir Sigrúnu Björk var þetta erfitt ár, það blasir við öllum, hún þarf að reka af sér sliðruorðið og sýna sjálfstæðismönnum að hún sé leiðtogi sem geti farið í kosningar og leitt liðsheild af visku og krafti. Í þeim efnum þarf hún að sýna betri diplómatahæfileika og stjórnvisku, en ekki einhliða keyrslu á bensínlausum bíl. Um þetta er spurt umfram allt.

Sigrún Björk Jakobsdóttir er hin vænsta kona, en er á hólminn kemur þarf hún að sýna leiðtogahæfileika til að verða sá leiðtogi sem getur verið sigursæll fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri. Það vantar enn upp á það hjá henni að hún hafi náð að byggja sig upp sem sterkan leiðtoga og það hefur ekki reynt á það á þessu ári af neinu viti að hún geti það. Það verður áhugavert að fylgjast með verkum bæjarstjórans og forystu hennar á árinu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Stefán minn...ef tjaldsvæðamálið er í þínum huga stærsta klúður ársins eru vandamálin ekki stór hér í bæ. Flestir bæjarbúar sáu aftur á móti að síðasta verslunarmannahelgi er sú besta hér í bæ fyrir gesti og heimamenn. Bærinn var ekki ofuseldur ölvun og ljótum atburðum og í fyrsta sinn í meira en áratug var enginn umræða um skrílslæti og drykkju hér í bæ. Ég kýs að horfa á málin frá því sjónarhorni og það gera flestir bæjarbúar en það eru frekar unglingar annarsstaðar á landinu sem hafa sama viðhorf og þú og horfa á takmörkun ákveðis hóps að fjölskyldutjaldsvæðum sem var ekkert nýtt og hafði verið þannig árum saman. Ég er ekki viss um að bæjarbúar vilji endurvekja það ástand sem var næstu 14 verslunarmannahelgar þar á undan.

"Það hefur einkennst umfram allt af klúðri bæjaryfirvalda í skipulagsmálum"

Stefán minn... ef þetta er sýn þín á skipulagsmál hér verð ég að efast um þekkingu þína og skilning á þeim málaflokki. Skipulagsnefnd afgreiddi yfir 500 mál á síðasta ári. Nokkur mál tengd skipulagsmálum rötuðu í fjölmiðla og voru flutt þar misvel og misrétt.

Síðumálið. Ágreiningsmál um greiðslu fyrir lóðarréttindi...frá 1982. Deiliskipulag frágengið og samþykkt af öllum stofnunum sem það varðar. Málið í höndum stjórnsýslunnar og er í eðlilegum farvegi.

Sómatúnsmálið. Deila um túlkun deiliskipulags. Skipulagsnefnd leggur fram tillögu sem byggir á áliti og skoðun tillöguhöfunda. Skipulagsstofnun úrskurðar á hinn veginn og málinu lokið. Hundruð mála fara í þann farveg á hverju ári víðsvegar á landinu enda er þetta hluti af lögbundnu skipulagferli rísi ágreiningur um túlkun skipulags.

Glerártorg. Ágreiningur milli eigenda Glerártorgs og Svefns og heilsu um lóðarskika undir húsi sunnan þeirrar síðarnefndu. Mál rangflutt og afflutt í fjölmiðlum. Deiliskipulag úrskurðað fullgilt þrátt fyrir tilraun til að fá það ógilt. Samskonar úrskurður og í Sómatúnsmálinu þar sem kom til úrskurður skipulagsyfirvalda.

Þetta eru þau mál sem mér dettur í hug að verði að klúðri í skipulagsmálum á Akureyri á síðasta ári. Ég er eiginlega sorgmæddur yfir að þú skiljir þennan málaflokk ekki betur og fylgist ekki betur með. Þér til hughreistingar munu koma fram á næstu mánuðum mörg stórmál í skipulagsmálum hér sem unnið hefur verið að og eru að fara í framkvæmd og kynningu.

Hávær umræða í fjölmiðlum þýðir ekki klúður í skipulagsmálum og það eiga vanir pólitíkusar eins og þú að sjá. Horfðu á málflokkinn, áttaðu þig á því hvað er skipulagsmál og hvað er annað og dragðu svo ályktanir.

Skipulagsmál eru í afar góðum farvegi hér í bæ og núverandi skipulagsnefnd hefur lagt sig fram um að ná samkomulagi við bæjarbúa um farsæla framkvæmd skipulagsmála með stór auknu samráði og vönduðu vinnubrögðum. Enda er ráðið afar samstíga og vinnur þétt saman, bæði meiri og minnihluti.

Jón Ingi Cæsarsson, 10.1.2008 kl. 23:09

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ég stend við mín skrif. Tjaldsvæðamálið fór gegn pólitískum hugsjónum mínum og að mínu mati fannst mér bæjarstjórinn afhjúpa sig sem hugsjónaleysingja með ákvörðun sinni, sem nota bene var ekki studd af meirihlutanum, eins og síðar kom í ljós. Eða svo sagði Hilda Jana, dóttir varaþingmannsins ykkar. Hvar stóðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í því máli annars?

Það vantaði að Hilda Jana kortlegði hverjir studdu þetta innihaldslausa klúður bæjarstjórans og hverjir voru á móti því, þó mig gruni hvernig staðan hafi verið. Hvað mig varðar fannst mér bæjarstjórinn afhjúpa sig illa í því máli og ég verð að viðurkenna að ég hef verið mjög hugsi um hana síðan þá, þó að það séu fleiri mál uppi sem ég hef velt mikið fyrir mér.

Skipulagsmálin eru alþekkt klúður Jón Ingi. Hef sagt þér skoðanir mínar á því hér áður og tel varla þurfa að benda þér aftur á það. Enda hefur giska lítið breyst í þeim efnum, klúðrið verður ekkert skárra þó þú breiðir taudúk yfir það. Meira að segja leiðtogi Samfylkingarinnar í bæjarstjórn og verðandi bæjarstjóri hér á Akureyri bráðnaði eins og smjörklípa á pönnu í viðtali hjá Birni Þorlákssyni og var mjög sorrý yfir öllum dómunum sem við töpuðum svo eftirminnilega.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 10.1.2008 kl. 23:42

3 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Auðvitað stendur þú við skrif þín...ég hef aldrei séð þig bakka með neitt jafnvel þó reynt sé að benda þér á annað og réttara.

Jón Ingi Cæsarsson, 10.1.2008 kl. 23:47

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þetta er ekkert persónulegt í þinn garð Jón Ingi. Þetta er hinsvegar alvarlegt mál. Það er talað um þetta í bænum. Það er mesti misskilningur að þetta sé bara eitthvað sem talað er um af þeim sem stúdera pólitík fram og til baka. Skynja víða mikla óánægju í skipulagsmálum. En ég vona innilega að við lærum af mistökunum, enda er þá hægt að taka á þeim. Það er besta lexían og auðvitað vona ég að við munum standa okkur vel og gera það gott, enda á bærinn okkar að vera í fararbroddi í góðum málum, en ekki í klúðri, eins og því sem hefur orðið landsfrægt á síðustu mánuðum.

En það er vissulega rétt að margt hið góða er minna fjallað um. Er ekki með þessum pistli að tala niður allt sem þessi meirihluti hefur gert, heldur að fara yfir árið með bæjarstjóranum, enda er hún ný í starfi. Eðlileg króníka - ég skrifaði mjög góðan pistil um hana þegar að hún tók við. Hún hefur valdið mér vonbrigðum en hún hefur enn tíma til að bæta sig.

Er ekki að tala niður allt sem gert hefur verið, en það hafa verið viss vandamál í gangi sem hafa dekkað sviðsljósið mun meira. Kannski eru fréttamenn okkar misheppnaðir eða brotalöm á öðrum stöðum, en ég get fullvissað þig að fyrsta og síðasta spurningin sem ég fæ frá þeim sem ég þekki utan Akureyrar eru um þessi vandræðalegu skipulagsmál sem við þekkjum báðir.

Og það er vissulega ömurlegt að það sé það eina sem festist í huga þeirra sem búa utan Akureyrar. Við eigum að taka á því en snúa ekki blinda auganu að kíkinum.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 10.1.2008 kl. 23:57

5 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Stefán... skipulagsmál eru allsstaðar í umræðunni og það er eðlilegt. Ef þú fylgist þokklalega með eru þetta þau mál sem mest eru rædd í öllum stóru sveitarfélögunum. Þú velur að kasta fram órökstuddum alhæfingum um ekki neitt og vísar í óstaðetta umræðu eins og hver önnur kjaftakelling. ég nenni ekki að tala við þig á þessum nótum og læt því hér með lokið.

Víst víst víst æpir þú og og stingur fingrum í eyrun og lokar augunum. Ég hef farið yfir nokkur hér og svar þitt sýnir að þú annað hvort skilur eða villt ekki skilja og þannig verður það þá bara að vera.

Jón Ingi Cæsarsson, 11.1.2008 kl. 00:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband