16.1.2008 | 01:43
Spennandi einvígi McCain og Romney í Michigan
Beðið er nú eftir úrslitum í einvígi Mitt Romney og John McCain í forkosningum repúblikana í Michigan. Niðurstaðan verður áhugavert innlegg í hina jöfnu baráttu um útnefningu flokksins í forsetakosningunum í nóvember. McCain fékk byr í seglin með sigrinum í New Hampshire og hefur tekið forystu í baráttunni í nýjustu könnunum. Með sigri í fylkinu getur hann styrkt sig til muna. Romney verður að sigra í Michigan til að blása lífi í framboð sitt, eftir skaðleg töp í Iowa og New Hampshire.
Það má fullyrða að Romney sé í raun búinn að vera sem alvöru frambjóðandi nái hann ekki sigri í þessum forkosningum, enda fæddur og uppalinn í fylkinu. Faðir hans, George W. Romney, var ríkisstjóri í Michigan í fjölda ára og er einn þekktasti stjórnmálamaður fylkisins á síðustu öld, einn pólitísku risanna þar. Auk þess var móðir hans, Lenore Romney, stjórnmálamaður þar og ekki síður áberandi en eiginmaður hennar. Þau hvíla bæði í fylkinu og tengingar frambjóðandans við svæðið eru því mikil. Þrátt fyrir að hafa eytt miklum peningum hefur hann ekki unnið alvöru forkosningaslag til þessa og þarf á sigri að halda.
John McCain getur haldið styrk sínum í slagnum með sigri í Michigan, auk þess að slá Romney út af kortinu. Fyrir nokkrum mánuðum var framboð hans talið dauðadæmt en hann hefur átt magnaða endurkomu og berst fyrir sigri í Michigan, auk þess að reyna að taka Suður-Karólínu. Ef hann tekur bæði fylkin fer hann á bylgju mikils stuðnings í forkosningarnar í Flórída. Þar er Rudy Giuliani að vonast eftir að ná að starta af krafti framboði sínu og ætlar að reyna við stóru fylkin. Það er mikil áhætta, sem gæti reynst dauðadæmd er yfir lýkur. Ef McCain nær miklu forskoti næstu dagana gæti hann orðið óstöðvandi er kemur að stóru fylkjunum.
Síðustu vikur hefur slagur repúblikana verið jafn, jafnasti forkosningaslagur þeirra áratugum saman og er galopinn í raun enn. Enginn sterkur frambjóðandi hefur dregið sig til baka frá því að ferlið hófst í Iowa 3. janúar. Það breytist þó brátt. Flestir búast við að Fred Thompson dragi sig í hlé eftir Suður-Karólínu og alveg er ljóst að Romney stendur og fellur með því sem gerist á næstu klukkutímum. Annað hvort fær hann byr í seglin með stuðningi á heimavelli eða framboð hans fær náðarhöggið þar. Verði Huckabee þriðji í nótt, sem ég tel að blasi við, heldur hann sínum dampi, en það mun skipta hann miklu máli að taka Suður-Karólínu, ekta suðurríkjafylki.
Rudy Giuliani bíður á hliðarlínunni og vonast eftir að slagurinn haldist jafn þar til að kosið verður í Flórída eftir hálfan mánuð. Ef McCain tekur næstu fylkin verður hann helsti keppinautur Giuliani um sigur í Flórída. Sumar kannanir sýna McCain nú þegar með forskot í fylkinu. Taki hann Flórída tel ég hann nokkuð öruggan um útnefninguna. Hann fer þá allavega á mikilli bylgju í slaginn á ofur þriðjudegi viku síðar. En nú fer þetta að skýrast, valkostum fækkar og ljóst verður brátt hverjir eru alvöru keppinautar um útnefninguna.
En fylgst er með stöðunni í Michigan nú. Þar ræðst ekki hver verður frambjóðandi repúblikana, en þar geta þó örlög sumra ráðist. Eins og flestir vita er enginn slagur meðal demókrata. Flokksstofnanir hafa refsað flokksmönnum þar fyrir að flýta forkosningunum með því að taka þingfulltrúana af þeim. Hillary Rodham Clinton er þar ein, af alvöru keppinautum um útnefninguna, á kjörseðlinum. Obama og Edwards eru víðsfjarri. Þannig að það er engin barátta í fylkinu hjá þeim.
Þannig að þetta snýst að segja má bara um hvað gerist hjá repúblikunum í Michigan. Þarna gætu orðið spennandi úrslit. Þarna gæti Romney risið upp sem frambjóðandi með alvöru möguleika eða hann gæti lognast út af pólitískt. Mikil barátta. Og McCain getur haldið bylgjunni eða misst flugið. Hann tók fylkið fyrir átta árum og sigur þar kæmi sér vel fyrir hann. Ella skiptir Suður-Karólína hann miklu máli. Þarna er því margt í húfi fyrir frambjóðendur innan flokksins.
Spái því að þetta verði tæpt. Hallast að því að Romney vinni, enda hefur hann lagt mikla áherslu, skiljanlega, á fylkið - allt er í húfi. McCain hefur staðið sig vel og stólar á óháða, sem mega kjósa í forkosningunum. Enda hefur hann farið um fylkið með Joe Lieberman, varaforsetaefni Gore og óháðan þingmann í Connecticut, sér við hlið. Hann féll í ónáð innan demókrata, en er nú sér á báti og styður McCain. Svo verður Huckabee þriðji.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:01 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.