Mitt Romney sigrar - mjög jafnt hjá repúblikunum

Mitt Romney Ekki varð baráttan jöfn í Michigan eins og kannanir höfðu spáð. Mitt Romney vann nokkuð góðan sigur í forkosningunum í sínu gamla heimafylki, sem hann varð að sigra í til að halda framboði sínu á floti. Sigur hans tryggir enn jafna baráttu um það hver hlýtur útnefningu repúblikana. Þar er allt galopið. Huckabee vann Iowa, McCain vann New Hampshire og Romney vann í Michigan. Nú verður barist um sigurinn í Suður-Karólínu.


Nokkrir punktar um stöðuna:

- Mitt Romney er enn í slagnum um útnefninguna eftir sigurinn í Michigan - fer með byr í seglin til suðurríkjanna og vonast eftir að landa sigri í Suður-Karólínu. Ekki tókst McCain að vinna Michigan á sömu bylgju stuðnings í kjölfar sigurs í New Hampshire, en á móti kemur að Romney var að keppa í fylkinu sem hann fæddist í og tap hefði þýtt að allir hefðu spurt sig að því hvort hann gæti yfir höfuð sigrað. En það er alveg ljóst að þetta er mikilvægur sigur fyrir Romney - hann á enn möguleika eftir allt saman. Margir töldu hann búinn eftir tapið í NH.

- John McCain hefur forskot í landskönnunum en þarf nú nauðsynlega að vinna í Suður-Karólínu til að halda þeim byr sem hann fékk í New Hampshire. Það hlýtur að vera honum gríðarleg vonbrigði að hafa ekki náð óháðum á sitt band í Michigan. Hann fór með Lieberman um fylkið og vonaðist eftir að ná styrk þar með því og laða að sér fólk úr öðrum flokkum, þar sem ekki var alvöru kosning hjá demókrötum. Óháðir voru hans sterkasta von á sigri, það brást og nú þarf hann að verða sigursæll í suðurríkjunum til að halda haus í því sem framundan er. Hann fór illa í leðjuslag gegn Bush í Suður-Karólínu 2000 og tapaði þeim hráskinnaleik og voninni á útnefningu þar. Nú þarf hann að snúa gæfunni við á sama stað. Það gæti orðið snúið og mikið er undir, vægast sagt.

- Rudy Giuliani tók áhættu með að stóla á stóru fylkin og vonast eftir því að baráttan yrði jöfn um fyrstu fylkin og ekkert ljóst fyrir Flórída. Eins og staðan er núna hefur hann veðjað rétt og á enn möguleika. Þrátt fyrir að hann hafi fengið rosalegan skell í Iowa, New Hampshire og Michigan. Tapið í Michigan er reyndar svæsið, enda er hann aðeins með þrjú prósent, sem er suddalega lélegt fyrir mann sem ætlar sér að vera alvöru frambjóðandi og hafa sterkan stuðning um allt land. Gleymum því ekki að hann leiddi nær allar kannanir í fyrra og virkaði ósigrandi. En Suður-Karólína gæti orðið til að breyta grand master plani Giuliani fram að Flórída. Sjáum til.

- Mike Huckabee náði þriðja sætinu með sannfærandi hætti. Það blasti þó við fyrir löngu að hann næði því og enginn ógnaði honum um sætið - væri lítil áhætta í sjálfu sér. Nú þarf hann hinsvegar að fara að verða sigursæll til að haldast á floti og þarf sigur í Suður-Karólínu. Hann er illa staddur ef hann fær skell í fylkinu og treystir að suðrið færi sér byr í seglin, hafandi verið ríkisstjóri í Arkansas, rétt eins og Bill Clinton forðum daga. Ekki dugar bara Iowa þegar að suðrið er annars vegar!

- Ron Paul náði sex prósentum í Michigan, hlaut helmingi meira en Giuliani. Góður árangur og hann nuddar Giuliani upp úr saltinu með því að benda á að hann sé helmingi vinsælli en Giuliani í þessu sterka repúblikanavígi, fylkinu sem Gerald Ford, fyrrum forseti, kemur frá. Fred Thompson mældist varla í Michigan og þarf að ná sigri í Suður-Karólínu. Ella búinn að vera. Verður hann sá fyrsti sem fellur í valinn?


Spennandi slagur - ekkert öruggt. Svona á það að vera. Það stefnir í spennandi baráttu í suðrinu og á laugardag ráðast örlögin í Suður-Karólínu. Það gæti farið svo að ekkert yrði ljóst fyrr en á ofur-þriðjudegi. Þetta er að verða jafnasti og áhugaverðasti forkosningaslagur repúblikana í yfir hálfa öld. Það er spurt sannarlega að leikslokum, enda enginn með alvöru forystu.

mbl.is Romney vann í Michigan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Ég er enn á því að Giuliani verði frambjóðandi repúblikana og verði mótframbjóðandi hans Cinton eða Obama nema bæði verði (varaforsetaefni) þá held ég að hann taki þetta þó maður skildi ætla að Bandaríkjamenn væru búnir að fá nóg af stríðsáráttu þeirra Repúblikana. Ég held að Bandaríkjamenn séu bara ekki tilbúnir til að kjósa sér hvorki konu né blökkumann (má ég nota það orð?) sem forseta.

Gísli Sigurðsson, 16.1.2008 kl. 17:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband