Líður að valdaskiptum - Bush hreinsar vel til

George W. Bush Á sunnudag er ár þangað til að George W. Bush lætur af embætti forseta Bandaríkjanna og heldur alfarinn til Texas. Það verða auðvitað þáttaskil með forsetaskiptunum, enda blasir við að nýr forseti, hver sem hann verði, muni stokka mikið upp í áherslum. Þegar má sjá merki þess að Bush ætlar að skilja eftir sig hreint borð í Hvíta húsinu þegar að hann fer og skilur ekki eftir sig áberandi minnismerki um forsetaferilinn í formi gagna og upplýsinga um umdeildustu mál valdaferils síns.

Það hefur jafnan verið hefð í Bandaríkjunum að forsetar Bandaríkjanna hafa jafnan hreinsað vel til þegar að þeir yfirgefa Hvíta húsið og skilja ekki mikið af ummerkjum forsetaferilsins eftir í skjölum og gögnum. Þetta á best við þegar að forsetar úr öðrum flokki en forverinn tekur við völdum. Oftar en ekki fara umdeild gögn í forsetabókasafn viðkomandi forseta, sem byggð eru af stuðningsmannahópi hans. Þegar að George W. Bush kom í Hvíta húsið þegar að Clinton-hjónin fóru fyrir sjö árum höfðu þau tekið vel til og tekið með sér gögn um Lewinsky-málið, Whitewater og fleiri umdeildustu mál átta ára forsetaferils Bill Clinton. Sama gerðist þegar að Clinton tók við af föður Bush forseta, í janúar 1993.

Það er alveg ljóst að muni demókrati taka við Hvíta húsinu eftir ár verði vel farið yfir öll gögn úr umdeildustu málum forsetans. Það þarf því varla að koma að óvörum að grisjunin sé þegar hafin og til merkis um að Bush forseti ætlar ekki að skilja eftir sig minnismerki um þessi ár, ekki frekar en margir forsetar. Það var alþekkt að Richard M. Nixon hreinsaði vel til síðustu misseri Watergate-tímans, í aðdraganda þess að hann varð að segja af sér forsetaembættinu fyrstur bandarískra forseta. Hann hélt t.d. dauðahaldi í hinar frægu spólur með samtölum úr forsetaskrifstofunni og skjölum og enn er mikil leynd yfir mörgum gögnum þess tíma.

Það er alveg ljóst að George W. Bush var forseti á umbrotatímum. Hann var umdeildur og tók umdeildar ákvarðanir sem forseti Bandaríkjanna, deilt var um þær þegar að þær voru teknar og deilt er um þær enn. Hann er forseti sem sagnfræðingar framtíðarinnar munu fjalla um og hann verður vinsælt umfjöllunarefni þegar að líður frá og rykið hefur sest - hann er kominn til Texas í sveitasæluna.

Og þá hentar vel að hafa sópað til þeim upplýsingum sem geta orðið verðmætar og jafnvel fyllt upp í heildarmyndina. Þetta er ekki fyrsti forsetinn sem gerir það og ekki sá síðasti. En það má deila um hversu mikið af sögunni á að eyða.

mbl.is Tölvugögnum Hvíta hússins líklega eytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband