Bobby Fischer látinn

Bobby FischerBobby Fischer, fyrrum heimsmeistari í skák, er látinn, 65 ára að aldri. Það verður ekki um það deilt að Bobby var einn fremsti meistarinn í skáksögunni og markaði söguna er hann varð heimsmeistari í skák í Reykjavík á hinu sögulega heimsmeistaramóti gegn Boris Spassky í september 1972, er hann varð fyrsti Bandaríkjamaðurinn til að vinna titilinn. Fischer var þó sérlundaður meistari sem fór eigin leiðir og lét aldrei vel að stjórn. 

Fyrst vildi Fischer ekki koma til Íslands og tefla og þurfti atbeina Nixons Bandaríkjaforseta og Henry Kissinger til að hann færi hingað og tæki slaginn. Þetta var litrík saga og eftirminnileg, en henni lauk með sögulegum sigri Fischers. Í seinni tíð var skákmeistarinn upp á kant við bandarísk stjórnvöld. Bandarísk yfirvöld óskuðu eftir því að fá Fischer framseldan til Bandaríkjanna, þar sem hann átti yfir höfði sér allt að 10 ára fangelsi fyrir að brjóta viðskiptabann Bandaríkjanna gegn Júgóslavíu með því að tefla við Boris Spassky í Belgrad haustið 1992. Eftir að þau átök hófust fór hann ekki til Bandaríkjanna.

Deilurnar tóku á sig dramatíska mynd er hann var hnepptur í varðhald í Japan sumarið 2004. Í kjölfarið ákváðu íslensk stjórnvöld að leggja Fischer liðsinni sitt og hlaut hann dvalarleyfi á Íslandi í desember 2004. Það dugði þó ekki til að Fischer væri sleppt úr varðhaldi. Lauk málinu með því að Davíð Oddsson, þáverandi utanríkisráðherra, beitti sér sérstaklega fyrir því að Fischer hlyti íslenskan ríkisborgararétt og fór það endanlega í gegn á Alþingi í mars 2005. Í kjölfar þess var Fischer sleppt úr varðhaldi og hann kom til Íslands sem íslenskur ríkisborgari á skírdag, í mars 2005. Frá þeim tíma og til dauðadags dvaldi Fischer í sínu nýja föðurlandi, Íslandi.

Það er kaldhæðnislegt að Bobby Fischer skuli deyja á sama degi og Davíð Oddsson, fyrrum utanríkis- og forsætisráðherra, fagnar sextugsafmæli sínu. Fáir menn leiddu betur og af meiri krafti þá ákvörðun í gegnum stjórnkerfið að Fischer yrði íslenskur ríkisborgari og kæmi hingað til lands, yrði hnepptur úr varðhaldi, en Davíð. Í þeim efnum sýndi Davíð eftirminnilega forystu og það má fullyrða að Fischer hefði varla fengið ríkisborgararéttinn með þessum hætti nema að það hefði verið leitt af þeim krafti sem einkenndi forystu Davíðs. 

Var það umdeild ákvörðun, en að mínu mati sú rétta er á hólminn kom. Við getum verið stolt af því að hafa lagt þessum sögufræga skákmanni, þeim besta til þessa að mínu mati, lið á örlagastundu. Það sem var þó til skammar á þeim tímapunkti var fjölmiðlaumgjörðin utan um heimkomu hans en þar var farið einum of langt í markaðssetningu vissra aðila á skákmeistaranum, en honum var flogið hingað heim af eigendum sömu stöðvar. Skrifaði ég langan pistil um það á þeim tíma.


Með Bobby Fischer er fallinn í valinn goðsögn í lifanda lífi - sannur meistari skákheimsins, maður sem markaði söguleg skref á ferli sínum og fetaði eigin leiðir. Hann var eigin herra, vissulega uppreisnarsinni sem lét ekki vel að stjórn. Hann stóð og féll með sannfæringu sinni og krafti og það framlag verður að virða, þó ekki hafi mögulega allir verið sammála honum.

Ég vil votta fjölskyldu og vinum skákmeistarans, þeim sem studdu Bobby Fischer í gegnum síðasta kafla ævi hans - er gaf á bátinn og hann þurfti virkilega á aðstoð að halda, innilega samúð mína við andlát hans. Það er ánægjulegt að Fischer gat dáið hér á Íslandi sem frjáls maður en ekki fangi í fjarlægu fangelsi.

Minningin um mikla goðsögn og meistara skáklistarinnar mun lifa.


mbl.is Bobby Fischer látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég er nú glöð að kallgreyið fékk að eyða síðustu árunum hér á landi og deyja í friði.

Ásdís Sigurðardóttir, 18.1.2008 kl. 13:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband