Guðjón Ólafur gerir upp við Björn Inga

Björn IngiÞað var stórmerkilegt að sjá Guðjón Ólaf Jónsson gera upp við Björn Inga Hrafnsson í Silfri Egils nú eftir hádegið. Ummælin um að hann hefði hnífasett í bakinu eftir vinnubrögð borgarfulltrúans í sinn garð í aðdraganda kosninganna 2003 og 2007 vekja athygli og segja allt sem segja þarf um vinslit þeirra og hversu umdeildur Björn Ingi er innan Framsóknarflokksins, ekki bara í Reykjavík heldur á landsvísu. Hann virðist hafa sviðna jörð í kringum sig.

Það er eflaust rétt sem Guðjón Ólafur segir að yfirlýsing Björns Inga í gær er bara einn leikþáttur þar sem reynt er að væla út stuðning og spinna upp undankomuleið til að þurfa ekki að svara fyrir fatamálið margfræga. Enn hefur Björn Ingi ekkert gert til að svara heiðarlega fyrir sig og hreinlega afneita fatadæminu á kostnað flokksins. Heldur er þetta aumt yfirklór hjá honum og eðlilegt að kallað sé eftir skýrum svörum, en ekki bara vælukjóatöktum. Það vita enda allir að enginn vill taka við Birni Inga, fari hann úr Framsókn. Hann er bæði það umdeildur og illa þokkaður sem persóna, samkvæmt lýsingum samstarfsmanna hans, að hann stendur og fellur með framsóknarvist.

Það er greinilegt að mikið hefur gengið á innan Framsóknarflokksins í Reykjavík á síðustu árum. Hann tærðist að mestu upp á síðasta kjörtímabili og rétt marði að ná inn einum borgarfulltrúa í kosningunum 2006 og virðist á þessari stundu hafa veikst það mjög að hann hefur ekki burði til að fá þingsæti eða jafnvel að halda borgarfulltrúasætinu sem Björn Ingi situr nú í, í borgarstjórnarkosningunum eftir tvö ár. Eflaust vitum við aðeins hálfa sögu valdabaráttunnar bakvið tjöldin í þessum hópi. Guðjón Ólafur kom þó fram með nokkrar mikilvægar sögur úr þeirri baráttu og það var svolítið sérstakt að fá innsýn í þann suðupott.

Björn Ingi gerði mikið með það að ólga væri innan Sjálfstæðisflokksins síðasta haust í borgarmálunum. Ég held að honum nægi að horfa í eigið bakland, eigin flokkssveit, til að sjá að hann er mun verr staddur í raun en nokkur borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Það er biðröð greinilega þar af fólki með hnífasettin í bakinu sem bíða eftir færi að stinga hnífum í hinn grátandi borgarfulltrúa, sem er að reyna að snapa sér upp samúð til að forðast að mæta þessu fólki á niðurleiðinni. Það er jafnan sagt að menn eigi að forðast að sparka í fólk á leiðinni upp á tindinn, enda geti það orðið erfitt að mæta þeim á niðurleiðinni. Þetta virðist Björn Ingi vera að sjá nú.

Framsóknarflokkurinn í Reykjavík er flakandi sár, sviðin jörð. Guðjón Ólafur var alveg heiðarlegur í viðtalinu áðan og sagði brotabrot af þeirri átakasögu sem gengið hefur bakvið tjöldin og varð enn miskunnarlausari eftir því sem gæfa flokksins eftir merkilegan varnarsigur í kosningunum 2003 snerist upp í hreina ógæfu, þar sem hver og einn vóg næsta mann til að búa í haginn fyrir sjálfan sig. Þetta er greinilega ekki falleg saga, fjarri því orðið eitthvað ævintýri, heldur dimm og drungaleg barátta um pólitískt líf hvers og eins. Það er ekkert heilagt í þeim hráskinnaleik og greinilegt að samstaða þessa fólks dugar ekki í fleiri kosningar. Þetta er bara rúst.

Í sjálfu sér er áhugavert að sjá inn í þennan suðupott pólitískrar ólgu. Hvað varðar Björn Inga væri ágætt að sjá hann svara alvöru spurningum og að einhver fjölmiðillinn myndi byrja á að rekja upp þann augljósa og ómerkilega spuna sem hann er að spinna til að reyna að bjarga eigin skinni. En kannski fer fyrir Birni Inga á endanum að hann verði gerður upp í eigin spuna.


mbl.is Með mörg hnífasett í bakinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Það var merkilegt að horfa á þetta...hverju svarar Björn Ingi?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 20.1.2008 kl. 15:32

2 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Framsóknarflokkurinn hefði dáið Drottni sínum, ef Björn Ingi hefð ekki komið til, flottur og vel til fara.  Mér finndist ekki nema sjálfsagt að flokkurinn hefð orðið að vera með einhver útlát, hvort sem það hefði verið í formi peninga eða klæða.

Ég hef megnustu skömm á „looserum“ sem haga sér eins og Guðjón gerir í þessu máli.

Tek það fram að ég hef aldrei kosið Framsóknarflokkinn. 

Ingibjörg Friðriksdóttir, 20.1.2008 kl. 16:31

3 identicon

Ingibjörg þetta er ekki legnur bara spurning um einhver föt...

Þetta er spurning um stjórnmálamann sem flestum þykir vera rotinn inn að beini. Um stjórnmálamann sem hefur kollvarpað borgarstjórninni í Reykjavík. Ef hann færi væri a.m.k. að einhverju leiti spornað við spillingu í íslenskum stjórnmálum.

Ívar (IP-tala skráð) 20.1.2008 kl. 16:51

4 Smámynd: María Anna P Kristjánsdóttir

Guðjón staðfesti þá hugmynd sem ég og fleiri hafa af Binga,það var ekki drengileg framkoma þegar hann sleit samstarfinu við Borgarsfórnar flokkinn,ég er bara mest hissa að Villi skuli ekki hafa sé þetta áður en ósköpin skullu yfir.

Það verður gaman að fylgjast með Framsók næstu daga.

María Anna P Kristjánsdóttir, 20.1.2008 kl. 17:16

5 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Mér segir svo hugur að styrktaraðilar flokksins hafi vel efni á að klæða manninn upp og telji það góða fjárfestingu.

Sigurður Þórðarson, 20.1.2008 kl. 17:40

6 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Sammála þér Sigurður, því hvað myndi ég ekki gera ef Samfylkingin væri í dauðateygjunum.  Safna liði, poppa kandidatana upp með því að fara í KRON KRON og dressa liðið.

Ekki ætla ég að segja til um hver sveik hvern.  Ég held að innanbúðarátökin í Sjálfstæðisflokknum hafi bara einfaldlega eyðilagt meirhlutann.  Hvað með sms skilaboðin til VInstri grænna.  Björn Ingi er kænn stjórnmálamaður og miiiiiiiiiiiklu betri en Guðjón Ólafur. 

Ingibjörg Friðriksdóttir, 20.1.2008 kl. 19:12

7 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Þetta var ótrúlegt viðtal og einhvern veginn upplifði maður það sem öfundsýkisvæl manns sem var kominn lengra en Björn og nær tindinum árið 2002 en nú er Guðjón fyrrverandi þingmaður sem galt afhroð í síðustu kosningum og var hent út en Björn Ingi tvöfaldaði fylgi sitt á nokkrum vikum, komst í meirihluta þá og aftur núna eftir REI sprenginguna og það þrátt fyrir að stöðugt hafi verið barið á honum allt kjörtímabilið með ásökunum á hann persónulega mun meira en hans verk.

Ásökunin í garð Björns Inga var sú að í prófkjörsslag hafi hann sagt í baráttu um prófkjörssæti að Guðjón hefði "lítinn kjörþokka".  Einhvern tímann hefur maður nú heyrt hærra reitt til höggs í prófkjörsslag án þess að menn mæti vælandi í sjónvarpsviðtal yfir meðferðinni.

Hvernig getur maðurinn líka sagst "fyrst og fremst vera  flokksmaður og liðsmaður og alltaf hafa staðið að baki forustu Framsóknarflokksins. Það skipti hann mestu máli að hans liði og flokki gangi vel."...og komið síðan inn í Silfur Egils og atað oddvita flokksins í höfuðborginni aur.  Hvernig í ósköpunum fer þetta saman?  Hvernig getur þetta verið flokknum í hag nú þegar á að fara að byggja hann upp þrátt fyrir persónulegt ósætti þeirra í milli?

Ég þekki Björn Inga ekki neitt og ekki heldur Guðjón.  Ég upplifði þetta sem hins vegar sem sóðalegt frumhlaup biturs og öfundsjúks manns.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 20.1.2008 kl. 22:46

8 identicon

Ég skildi trúnaðarbréfið þannig að hann væri að óska eftir því að Björn Ingi svaraði ásökunum um að föt hefðu verið keypt af flokknum, þ.e. að Guðjón Ólafur hafi haldið að um væri að ræða sögusagnir sem nauðsynlegt væri að leiðrétta til að sogur um spillingu fengju ekki byr undir báða vængi. Heyrði ekki væl né vol, heldur var hann að segja hvað hann hefði unnið fyrir flokkinn. Flokkurinn var með betri ímynd þegar Guðjón Ólafur var að vinna fyrir hann heldur en nú þegar hann er ekkert nema einn maður þ.e. Björn Ingi.

Hanna (IP-tala skráð) 20.1.2008 kl. 23:39

9 identicon

Góð grein, ég segi nú bara eins og gamla konan sem var frekar sterk á meiningunni um menn og málefni, "ef hann væri vettlingur sem ég hefði prjónað, væri ég fyrir löngu búinn að rekja hann upp", hann á að sjá sóma sinn í því að draga sig í hlé, hann Bingiboy. Með beztu kveðju.

bumba (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 00:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband