Össur býður Birni Inga í Samfylkinguna

Össur SkarphéðinssonÍ lok blóðugrar helgar í Framsóknarflokknum þar sem hnífar hafa verið á lofti í slag hinna fornu félaga Björns Inga Hrafnssonar og Guðjóns Ólafs Jónssonar hefur Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, nú boðið Birni Inga í Samfylkinguna upp á sitt einsdæmi. Þetta boð vekur sannarlega athygli. Myndi Björn Ingi þiggja það boð yrði hann væntanlega óbreyttur félagi í liðsheild Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra, og þyrfti að byrja að plotta sig frá grunni. Ekki tel ég það líklega fléttu í stöðunni sem uppi er.

Mun líklegra er að þetta hafi verið einn leikþáttur eins og Guðjón Ólafur hefur bent á. Eins og komið er fyrir Birni Inga eru valkostirnir að vinna áfram í Framsókn eða ganga viðskiptalífinu á hönd eins og Finnur Ingólfsson og Árni Magnússon, aðrir pólitískir afkomendur Halldórs Ásgrímssonar, gerðu svo eftirminnilega þegar að sól flokksins tók að hníga til viðar. Enn hefur Björn Ingi annars ekki svarað beint ásökunum Guðjóns Ólafs, nema í hálfkveðnum vísum og vælutóni. Ekki mun Björn Ingi endalaust geta flúið flokksfélaga sína með þeim hætti og skýrra svara beðið. Hann svaraði reyndar fréttamanni með SMS-skeyti í dag. Það er í fyrsta skipti í langan tíma sem hann afþakkar að láta ljós sitt skína í viðtali.

Það væri gaman að vita hvernig að Samfylkingarfólk tekur þessu boði Össurar til Björns Inga. Er hann að tala fyrir hönd annarra en sjálfs sín? Svar óskast! Ég man þá tíð að Samfylkingarfólk talaði harkalega gegn Birni Inga, fyrir og á meðan að REI-skandallinn geisaði á hápunkti. Á einni nóttu voru þau þó tilbúin til að gleyma öllu tali um að hann væri gerspilltur og gengu í eina sæng með honum í nýjum vinstrimeirihluta á haustdögum og fóru allt í einu að slá skjaldborg um hann. Það var eftirminnilegur umsnúningur, þó fáir hafi umpólast meira en Bjarni Harðarson, alþingismaður, sem hafði óskað eftir afsögn Björns Inga en koðnaði niður með það.

Framsóknarflokkurinn er illa staddur eftir helgina. Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, grætur krókódílatárum yfir því að lagt sé til Björns Inga og virkaði næstum því sannur með sorrýsvipinn sinn heima á Selfossi í kvöldfréttunum. Hann missir ekki svefn yfir því að frægðarsól Björns Inga hnígi til viðar og hann verði skotspónn í átökum af þessu tagi. Enda var vörn hans fyrir Björn Inga ekki beint sannfærandi. Hún hefði kannski verið það ef ekki væri vitað um undirliggjandi deilur og að jafnvel muni hann hjóla í Guðna á næsta flokksþingi. En formaðurinn er ekki mjög áhyggjufullur yfir hnífaslagnum í Reykjavík.

Það er langt síðan að einn flokkur hefur logað eins glatt í höfuðstaðnum eins og við erum að verða vitni að á þessari blóðugu helgi framsóknarmanna. Þetta eru fjarri því bara átök tveggja manna, þetta er miklu stærra en svo. Þarna eru heilir armar að berjast hatrammlega og sér ekki fyrir endann á því, eflaust er þetta eins og Skaftárhlaup að spretta fram eftir gos í iðrum jarðar um nokkuð skeið.

Það er freistandi að telja að þarna séu örlagarík slagsmál í gangi sem hafi áhrif á heill og hag elsta stjórnmálaflokks landsins, sem þessa dagana minnir þó æ meir á eldgamalt fley án haffærisskírteinis en glæsifleytu fornrar tíðar.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Stefán. Alveg er þetta nú hið ótrúlegasta mál. Hvernig er hægt að taka fólk trúanlegt sem flakkar svona á milli flokka? Og eyðileggur samvinnu með öðrum? Mér er þetta alveg óskiljanlegt. Það er eins og sé ekkert sem leiði þennan vesalings mann annað er tómt siðleysið.

Ég er algjörlega sammála þér að þetta kraðaðk í Framsóknarflokknum er ekki eingöngu á milli tveggja manna. Heldur eins og þú segir, tveggaj sterkra arma innan flokksins. Verður gaman að sjá framvindu mála á næstu dögum. Mér finnst í rauninni að Björn Ingi hafi algjörlega fyrirgert rétti sínum sem framsóknarmaður og ætti nú að rýma sæti sitt fyrir öðrum trúverðugri. Hver það ætti að vera veit ég ekki, þau eru kannski öll svona, eitthvað broguð. Þvílíkur endemis hálfvitagangur.

Hvað Össur snertir þá gat ég nú ekki annað en brosað í kampinn, Samfylkingin er og verður ekkert annað ruslakista fyrir pólitíska flakkara. Sérkennileg pólitík það. Með beztu kveðju.

bumba (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 02:27

2 identicon

Ég get ekki skilið boð Össurar á annan hátt en þann sem hver og einn býður þeim inn til sín sem lendir í norðanhríð. Ég veit ekki til þess að flokkar hafi hafnað inntökubreiðni manna. Össur er hjartahlýr maður og sér ýmsa góða hluti í Birni. Ég bloggaði um pólitíska stöðu Guðjóns og Björns sem ég tel reyndar ansi veika, hjá báðum. Það er ekki svaravert þegar menn koma svo nafnlaust með komment um að Samfylkingin sé pólitísk ruslakista. Skil ekki þennan gunguhátt hjá fólki sem þorir ekki að segja meiningu sína undir nafni og málefnalega.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 09:48

3 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Alveg er þetta dæmigert hjá Össuri. Tel þó litlar líkur á því að Björn Ingi  þekkist boðið - betra að vera stór kall í litlum flokki en lítill kall í stórum. Björn Ingi hefur barist til metorða á vægðarlausan hátt að hætti framsóknarmanna, eins og berlega er að koma í ljós nú, en það er ekki líklegt að hann komist upp með þvílíkt metorðaklifur annars staðar - nema þá í hinum litla flokknum, þeim er kennir sig við frjálslindi og aðrir framsóknarmenn hafa hrökklast til.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 21.1.2008 kl. 10:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband