Meirihlutinn að falla - fundað um nýjan meirihluta

Ráðhús Reykjavíkur Flest bendir nú til þess að vinstrimeirihlutinn í Reykjavík riði til falls og bráðlega verði myndaður nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og F-lista. Það er nú ljóst að sögusagnir um að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Ólafur F. Magnússon hafi rætt um myndun nýs meirihluta, sem gengið hafa í allan dag, eru sannar. Viðræður hófust af alvöru um helgina og hafa staðið í dag ennfremur.

Slökkt hefur verið á símum helstu áhrifamanna, innan beggja afla í allan dag og unnið að myndun meirihlutans. Það segir í raun allt sem segja þarf. Atburðarásin hefur þó verið hröð í dag. Framan af degi reyndu Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og samherjar hans að neita sögusögnum um fall meirihlutans og að nýr meirihluti væri í burðarliðnum, F-listinn með Ólaf F. Magnússon væri á útleið úr meirihlutanum með þeim. Það eru nú hinsvegar allar líkur á að myndun nýs meirihluta sé langt á veg komin og jafnvel að hann verði kynntur nú á næstu klukkustundum.

Sögusagnir hafa verið um að deilt sé um hver verði borgarstjóri í Reykjavík í nýjum meirihluta. Sjálfstæðismenn geri kröfu um að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson verði aftur borgarstjóri og að Ólafur F. Magnússon heimti hluta af því sem lifir kjörtímabilsins sem borgarstjóri. Það er erfitt að segja um hvað sé satt í þeim efnum. Hitt er þó ljóst að viðræður hafa farið fram og þær hafa staðið um nokkurn tíma. Það er því fjarri því ósannindi eins og reynt var að halda fram í svörum við skrifum mínum og fleiri í dag að myndun nýs meirihluta væri hafin.

Það er greinilegt að það hefur verið stirt milli aðila í fyrri meirihluta og virðist deila um málefnasamning hafa gert út af við meirihlutann, fari svo, sem allt bendir til, að vinstrimeirihlutinn sé á fallanda fæti. Hann hefur nú starfað í þrjá mánuði án málefnagrunns og greinilega verið ólga um viss mál - nægir þar að nefna deilur um gömul hús á Laugavegi, sem ætti að vera smámál.

En það eru spennandi tímar framundan í borgarmálunum með enn einum meirihlutanum, þeim þriðja á innan við hálfu ári - og kannski þriðja borgarstjóranum á sama kjörtímabilinu, ef Vilhjálmur Þ. verður ekki aftur borgarstjóri. Allir fylgjast spenntir með borgarstjórakapal nýs meirihluta.

Ennfremur er ljóst að þriggja mánaða borgarstjóraferli Dags B. Eggertssonar er að ljúka. Hann hefur nú aðeins verið borgarstjóri í tæpa 100 daga, aðeins örfáum dögum lengur en Árni Sigfússon fyrir einum og hálfum áratug.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Auðbergur Daníel Gíslason

Ég get ekki sagt annað en: Gleðifréttir.

Auðbergur D. Gíslason
14 ára Sjálfstæðismaður

Auðbergur Daníel Gíslason, 21.1.2008 kl. 17:21

2 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Ég sé nú ekki að Vilhjálmur teljist koma inn sem sterkur borgarstjóri fari svo að hann setjist í þann stól og reyndar enginn af D listanum ef út í það er farið. Kannski væri leið fyrir Vilhjálm út úr sínum ógöngum að sitja sem borgarstjóri fram á haustið, eftirláta þá Ólafi stöðuna og fara þá sjálfur í útlegð sem sendiherra sem gæti reyndar orðið erfitt þar sem Ingibjörg Sólrún fer með valdið.

Gísli Sigurðsson, 21.1.2008 kl. 18:02

3 identicon

Ég verð nú að segja að ekki lýst mér á þetta ef Ólafur á að verða borgarstjóri!

 Ansi finnst mér Villi selja sig ódýrt þegar hann lætur þetta eftir þeim. F-lista borgarstjóri er ekki eitthvað sem ég vil sjá !

Ívar (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 18:03

4 Smámynd: Fannar frá Rifi

Það er allt skárra en séð og heyrt borgarstjórinn sem veit ekki hvort hann sé að koma eða fara.

Fannar frá Rifi, 21.1.2008 kl. 18:13

5 identicon

Sæll kæri Stefán, þetta er nú bara of gott til að vera satt. Vonandi rætist þetta hið fyrsta og þessir flokkar sem nú eru við völd hverfi sem fyrst á brottu. Þetta er nú meiri sullugangurinn. Hlakka til að fylgjast með framvindu mála. Takka fyrir góðar greinar. Með beztu kveðju.

bumba (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 18:17

6 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Það er óhugur í mér þótt ég fagni því að Sjálfstæðisflokkurinn komist aftur til valda. Ég er ekki viss um að ég treysti Ólafi M.
Finnst þetta líka bara allt orðið mikið rugl og yfir höfuð ekki traustvekjandi.

Vona að minn flokkur sé ekki að selja sig ódýrt, þá er betra að bíða.

Kolbrún Baldursdóttir, 21.1.2008 kl. 18:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband