24.1.2008 | 01:09
Björn Ingi segir af sér og hættir í stjórnmálum
Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi og fráfarandi formaður borgarráðs, hefur ákveðið að segja af sér á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag og hætta þátttöku í stjórnmálum. Þetta eru mikil tíðindi - en þurfa þó ekki að koma að óvörum. Staða Björns Inga hefur orðið vonlaus á síðustu dögum í skugga hneykslismáls vegna umdeildra fatakaupa (skattalagabrota) og falls vinstrimeirihlutans sem Björn Ingi múraði sig inn í eftir svikin við sjálfstæðismenn í haust og hætti öllu fyrir.
Björn Ingi kom sem mikil vonarstjarna inn í íslensk stjórnmál árið 2002 og virtist hafa sterka stöðu í upphafi innan Framsóknarflokksins, var náinn samstarfsmaður Halldórs Ásgrímssonar, fyrrum forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins, og samherja hans, og voru falin mikil og voldug verkefni allt frá fyrsta degi og varð frambjóðandi í öðru sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík suður, á eftir Jónínu Bjartmarz, í þingkosningunum 2003. Í kjölfarið varð hann aðstoðarmaður Halldórs í utanríkisráðuneytinu og síðar í forsætisráðuneytinu, þar til að Halldór hætti þátttöku í stjórnmálum sumarið 2006, eftir litríkan og stormasaman feril. Fáir stóðu honum nær síðustu árin en Björn Ingi.
Í kjölfar ákvörðunar Alfreðs Þorsteinssonar að hætta í stjórnmálum í nóvember 2005 gaf Björn Ingi kost á sér til leiðtogahlutverks framsóknarmanna í borgarstjórn, þar sem flokkurinn bauð í fyrsta skipti fram í borgarmálum í eigin nafni í tólf ár. Sigraði hann leiðtogaslag í prófkjöri í janúar 2006 gegn Önnu Kristinsdóttur og Óskari Bergssyni. Í kjölfarið ákvað Anna, sem var sitjandi borgarfulltrúi framsóknarmanna innan R-listans frá árinu 2002, að hætta í stjórnmálum og taka ekki annað sætið, sem hún hafði hlotið á listanum. Óskar færðist upp í sætið í hennar stað. Kosningabaráttan varð Framsókn erfið og illa horfði lengi vel, öll sund virtust flokknum lokuð.
Það var fyrst í síðustu viku kosningabaráttunnar sem að Björn Ingi mældist inni í skoðanakönnunum og með von á kjöri. Tókst honum með markvissri baráttu, miklum auglýsingum og sterkri strategíu að hala sér inn en naumt var það. Í kjölfarið ákvað hann að taka upp samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og slíta á R-listatengslin. Lengi framan af virtist samstarf Björns Inga og Vilhjálms Þ. ganga vel og virkuðu þeir nánir sem samrýmdir feðgar með einbeittan hug. Í hita hins funheita REI-máls á örfáum dögum í október 2007 lauk samstarfinu og Björn Ingi stakk sjálfstæðismenn í bakið og myndaði meirihluta framhjá þeim.
Með því að fara til vinstri lokaði Björn Ingi á alla aðra kosti, múraði sig inni með fyrrum minnihlutaöflum. Það varð honum því allt að því pólitískt lífsspursmál að meirihlutinn héldi velli. Um leið minnkuðu áhrif hans sjálfs til muna, sem varð æ greinilegra eftir því sem frá leið. Hann var barinn til hlýðni í vissum lykilmálum og svigrúm hans varð miklu minna. Það mátti sjá í áramótaþætti Egils Helgasonar að Björn Ingi var ekki eins sigurreifur og nokkrum vikum áður er hann virtist vera hamingjusamasti maður borgarinnar. Að því kom að meirihlutinn sprakk eftir aðeins hundrað daga.
Og nú er Björn Ingi farinn af sviðinu og felur Óskari Bergssyni leiðtogahlutverk Framsóknarflokksins í Reykjavík. Það sést vel á atburðarás síðustu daga að það er mjög skaddað fley - Björn Ingi skilur eftir sig sviðna jörð í flokkskjarnanum í borginni. Með vinnubrögðum Björns Inga og valdatafli felast endalok valdamaskínu Framsóknar í borgarmálunum eftir fjórtán ára samfellda vist í meirihluta. Þar tekur við nöpur minnihlutavist án valda. Björn Ingi, sem virtist hafa öll tækifæri og öll tromp á hendi fyrir nokkrum vikum og virtist hafa stöðu til formennsku í Framsókn, hefur misst sína stöðu.
Það er því skiljanlegt að hann fari. En mikið er nú annars stjörnuhrapið hans Björns Inga og leitun að öðrum eins endalokum. Eftir allt sem á undan er gengið hrósar Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, maðurinn sem Björn Ingi stakk í bakið, sigri í valdabaráttu síðustu vikna og Björn Ingi, krónprinsinn ungi, hefur sagt sig frá veldissprota sínum. Þetta eru mikil pólitísk tíðindi. Og eftir stendur flokkur í vanda með vonda stöðu og vonlausan kapal í höndunum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:16 | Facebook
Athugasemdir
Mer þykir þú segja fréttir félagi Stefán/Eg er ekkert hissa samt/Kveðja Halli gamli
Haraldur Haraldsson, 24.1.2008 kl. 01:24
Læt nú alveg vera hve mikil tíðindi hér eru á ferð Stebbi, er það nokkuð annað en flótti frá valdaleysi sem hér er á ferð ?
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 24.1.2008 kl. 02:59
Góðan daginn frændi. Þessar fréttir glöddu mig, mér var sem mér væri gefinn góður biti. Vonandi geta framsóknarmenn farið að vinna að einingu innan flokksins. Þetta er ekkert grín. Bingi græðir þó allavega föt fyrir 12hundruð þúsund á þessu valdagræðgisbrölti sínu. Með beztu kveðju.
bumba (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 08:39
Ég myndi ekki afskrifa Björn Inga fyrir lífstíð, Stefán. Hvað gerði Tricky Dick á sínum tíma? Smá vísbending: Spilltur stjórnmálamaður sem hvarf úr pólitík en átti endurkomu og komst í eitt æðsta embætti í heimi. Þurfti reyndar að yfirgefa það vegna spillingar.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 09:38
Gísli: Ég þakka bara fyrir að Bingi er ekki orðinn nógu gamall í forsetakosningar í haust.
Einar Jón, 24.1.2008 kl. 14:24
Einar Jón, hehhe þú er óborganlegur, vonandi fáum við nú hvíld frá honum í bili. Heheheh. Góður þessi.
Já það er lítil eftir sjá af honum úr pólitík. Vonandi heldur hann sig langt í burtu og fari bara með veggjum. Með beztu kveðju.
bumba (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 18:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.