Prodi segir af sér - Ólífubandalagið fallið á Ítalíu

Romano Prodi Romano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu, sagði af sér í kvöld fyrir hönd stjórnar sinnar eftir að hafa orðið undir í vantraustskosningu í efri deild ítalska þingsins. Þrátt fyrir að orðið væri ljóst að hann hefði misst meirihlutann og Ólífubandalagið stæði eftir með tapaða stöðu ákvað hann gegn ráðleggingum ráðgjafa sinna að biðjast ekki lausnar fyrir kosninguna. Það er nokkuð líklegt að stjórnmálaferli Prodis sé lokið í kjölfar þessa skaðlega taps.

Prodi hefur verið forsætisráðherra í tæp tvö ár, frá því í maí 2006, en Ólífubandalagið vann nauman sigur í þingkosningum á Ítalíu í apríl 2006. Hefur bandalagið aðeins haft eins sætis meirihluta í efri deildinni og missti þrjá þingmenn fyrir borð fyrir nokkrum dögum. Í kjölfarið bar stjórnarandstaðan fram vantrauststillögu á stjórnina og hefur nú haft sigur. Þetta er í annað skiptið á innan við ári sem Prodi segir af sér. Hann tapaði kosningu um utanríkismál í efri deildinni í febrúar 2007 en nú fær stjórnin sjálf skell og getur ekki setið lengur.

Ólífubandalagið er bandalag alls níu vinstriflokka með mjög ólíka eigin stefnu og það hafa flestir séð allan þennan tíma að það yrði erfitt ef ekki ómögulegt að halda völdum allt kjörtímabilið og ná samkomulagi í öllum málum við svona aðstæður í tveim þingdeildum og halda jafnvægi allan tímann. Það er enda svo að Romano Prodi er ekki leiðtogi neins flokksins heldur bara forsætisráðherra í nafni flokkanna níu og andlit þeirra.

Prodi var forsætisráðherra í nafni samskonar bandalags á árunum 1996-1998 en gafst þá upp og aðrir tóku við og kláruðu kjörtímabilið. Varð síðar forseti ESB en sneri aftur í ítölsk stjórnmál til að leiða Ólífubandalagið. Það virðist vera að litríkum ferli hans sé lokið, enda varla sætt lengur með falli vinstriaflanna. Hann tók þó áhættuna með að fara í kosninguna, þvert á allar ráðleggingar og verður að horfast í augu við það tap og að hafa misst taflið úr höndum sér.

Vinstrimaðurinn Giorgio Napolitano er forseti Ítalíu. Það verður hans að meta nú stöðuna, ræða við leiðtoga flokkanna og kanna hvað sé rétt að gera. Það eru ekki liðin tvö ár frá þingkosningum og fróðlegt að sjá hvort Napolitano felur þjóðinni að leysa úr erfiðri pólitískri stöðu með því að óska eftir áliti landsmanna eða felur öðrum völdin. Napolitano vildi að Prodi segði af sér fyrir kosninguna. Það hefði tryggt honum opnara spil en nú það sem nú blasir við.

Eftir stendur að vinstristjórnin er ekki starfhæf, enda búin að missa meirihlutann í efri deildinni. Þegar að Prodi hrökklaðist frá völdum fyrir áratug var skipt um forsætisráðherra og tímabilið klárað. En á móti kemur að stjórnin fellur í vantraustskosningu nú og varla getur Napolitano með trúverðugum hætti farið framhjá þeirri staðreynd að Ólífubandalagið er fallið.

Eflaust óttast Napolitano forseti að Silvio Berlusconi komist til valda með kosningum nú. Þetta er mjög erfið staða og vandséð hvernig að hún verður leyst öðruvísi með sómasamlegum hætti en með þingkosningum, þar sem stjórnin er fallin.

mbl.is Prodi sagði af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband