Hjaðningavíg Framsóknar eru sjálfskaparvíti

Guðni Ágústsson Framsóknarflokkurinn, elsti starfandi stjórnmálaflokkur landsins, hefur logað stafnanna á milli síðustu árin. Þau víg hafa náð hámarki í dramatíkinni í flokkskjarnanum í Reykjavík síðustu dagana þar sem leiðtoginn, pólitískt eftirlæti Halldórs Ásgrímssonar, hefur sagt skilið við stjórnmálin. Flokkurinn er sviðin jörð eftir leiðsögn hans og valdalaus í borginni, í fyrsta skipti í fjórtán ár, eftir valdatafl sem að lokum sprakk framan í hann.

Fræg vinslit og hnífaslagur hans við fornan samherja hafa líka orðið að örlagastungu í flokkskjarnann, sem jafnvel verður banastunga. Talað hefur verið um hnífasett, sem segir allt sem segja þarf. Þessi hjaðningavíg Framsóknar eru auðvitað algjört sjálfskaparvíti eins og Guðni Ágústsson bendir réttilega á. Þar hefur tímanum frekar verið varið í að höggva hvorn annan en sinna pólitík. Enda er svo komið að flokkurinn er algjörlega kominn að fótum fram og ekki vitað einu sinni hvort að hann nái aldarafmæli eftir átta ár.

Guðni ætti reyndar að þekkja svona hjaðningavíg manna best. Í mörg ár tókst hann á við Halldór Ásgrímsson og var aldrei treyst af honum fyrir völdum og áhrifum. Þegar að Halldór hafði brennt allar brýr að baki sér og fór af velli mæddur og uppgefinn, búinn með sitt pólitíska kapítal, ætlaði hann að taka Guðna með sér í fallinu. Gat ekki unað honum valdasessi í flokknum. Allt var reynt til að ganga frá pólitískum ferli Guðna og óvönduðum meðölum beitt í því skyni eins og Guðni segir sjálfur frá í ævisögu sinni, sem var opinskátt uppgjör við Halldórsarminn og átti að vera stökkpallur Guðna til forystu í flokknum á næstu árum - tilraun hans til að sýna að þar færi ekki biðleikur í valdaleysi flokksins.

Það hefur verið svolítið raunalegt að sjá Framsókn fuðra svona upp. Þetta er eins og að horfa á sögufrægt hús fuðra upp í eldsvoða og eigendur hússins horfa á, af miklum vanmætti og með tárin í augunum, en geta ekkert gert til að slökkva eldinn. Þess virðist beðið að eldurinn slökkni og hægt verði að flikka upp á rústirnar og byggja á sama stað. Sögufrægar tengingar flokksins virðast glataðar, sérstaðan er farin í pólitískri hugsjónasögu, og eftir stendur flokkurinn í óvissuferð án veganestis, eins og ég sagði frá í skrifum mínum í gær.

Sú var tíðin að ég taldi að Framsóknarflokkurinn væri ódrepandi flokkur, hann myndi alltaf geta risið upp úr erfiðleikum. Er farinn að efast um það. Vandræði hans á síðustu árum formannsferils Halldórs Ásgrímssonar voru eðlilega merkt honum. Forsætisráðherraferill hans var sorgarsaga á við grískan harmleik. Halldór fór úr pólitík illa særður og naut aldrei þess að sitja í embættinu sem hann hafði svo lengi stefnt að, og átti að hafa styrkleika til að gegna. Þrátt fyrir það sökkti þetta embætti honum endanlega. Flokkurinn tók dýfuna með honum.

Þrátt fyrir að Halldór tæki á sig ábyrgð á fallandi gengi flokksins hefur hann ekki risið. Vandræðin hafa haldið áfram og orðið hálfu verri. Val Halldórs á eftirmanni til að svína yfir Guðna, tilraunin til að manípúlera forystuhlutverkinu framhjá vinsælum varaformanni, fór illa með flokkinn og hann sökk í þingkosningunum 2007, formaðurinn sat eftir án kjörs í höfuðborginni og var ekki sætt áfram. Nýr formaður tók við allt að því fyrirtæki í greiðslustöðvun, sem var komið að fótum fram. Þar hefur ekkert lagast og fylgi flokksins er enn innan við tíu prósent.

Það er ljóst að Framsókn er á krossgötum í valdaleysi í borgar- og landsmálum í fyrsta skipti í einn og hálfan áratug. Barátta hans er fyrir því að halda velli. Allir krónprinsar Halldórs hafa runnið út úr pólitík við lítinn orðstír og Halldórsarmurinn margfrægi virðist standa og falla nú með Valgerði Sverrisdóttur, kjarnakonunni frá Lómatjörn, sem virðist reyndar eini stjórnarandstæðingurinn með lífsmarki og pólitískt veiðieðli. Guðni er enn að finna fiðluna sína og reyndar óvíst hvort að hann hafi styrkleika til að halda velli í gegnum það sem koma skal.

Það er allt í einu orðin alvöru spurning hvort að Framsókn lifi fram að aldarafmælinu. Þetta eru vond örlög sem Framsókn hefur upplifað. Þar er hinn gamli og trausti flokkur valdanna orðinn allt í einu að illa leiknu gatasigti, fleytu sem varla er fær til sjóferða. Þetta eru grimm örlög og allir stjórnmálaáhugamenn spyrja sig að því hvort að hann geti risið upp úti í sveit undir leiðsögn Guðna, nú þegar að höfuðborgaruppbygging flokksins hefur hrunið eins og spilaborg í logni.

mbl.is Átök framsóknarmanna í Reykjavík hafa jaðrað við mannvíg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörn Friðriksson

Þeir lifa lengst sem lýðnum eru leiðastir.

Sigurbjörn Friðriksson, 25.1.2008 kl. 16:45

2 Smámynd: Gísli Guðmundsson

Góð grein en..... 

......það loga eldar í fleiri stöfnum en hjá Framsóknarmönnum. Það er eldur hjá frjálslyndum, sjálfstæðismönnum, samfylkingu og vinstri grænum. Eini munurinn er að eldar eru farnir að loga út úr stöfnum hjá Framsókn og af þeim sökum tel ég hreinsunarstarfið verða fyrst hjá þeim og þeir því fremstir til að rísa úr öskustónni og verða aftur sú kjölfesta sem sá flokkur hefur alltaf verið í íslenskri stjórnmálasögu.

Minnumst aðfaranna gegn flokknum þegar Ólafur Jó var formaður....var þá ekki reynt að tengja flokkinn við sprúttsölu í Klúbbnum sáluga.....ja og líka alvarlegri hlutum, eins og mannshvarfi? Reyndust þær ásakanir á rökum reystar? Dó flokkurinn þá????

Guðni er fínn og vinsæll en eftir sterkan leiðtoga eins og Halldór þá er ekkert endilega víst að Guðni væri bestur til að hreinsa út. En hans tími er núna af hverju mælast vinsældir flokksins þá ekki eftir því? Og af hverju helst honum ekki betur að stjórna sínum fáu mönnum betur en þetta?????

Gísli Guðmundsson, 25.1.2008 kl. 17:47

3 identicon

Sæll frændi, flottur pistill, get ekki verið meira sammála þér. Með beztu kveðju.

bumba (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 18:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband