Stórsigur Obama - Edwards búinn að vera

Michelle og Barack Obama Sigur Barack Obama í Suður-Karólínu kemur engum að óvörum, enda verið spáð sigri þar í margar vikur. Þar var aðeins spurt að því hve munurinn yrði mikill. Hann þurfti að vinna fylkið til að halda dampi í baráttunni, hafandi aðeins unnið Iowa fyrir tæpum mánuði. Þar er blökkufólk í meirihluta kjósenda flokksins og því mjög mikilvægt fyrir hann að taka fylkið, einkum þess vegna. Þetta gefur honum byr fram að ofur-þriðjudegi.

John Edwards vann forkosningarnar í Suður-Karólínu fyrir fjórum árum, en hann er fæddur í fylkinu og var öldungadeildarþingmaður á sínum tíma fyrir Norður-Karólínu. Þetta er því heimahérað hans. Þarna varð hann að vinna til að geta átt möguleika áfram. Nú fékk hann aðeins 17% atkvæða. Það er auðvitað fyrir nokkru síðan ljóst að Edwards á ekki lengur hinn minnsta möguleika á því að verða forsetaefni demókrata og þessi niðurstaða er með þeim hætti að hann er einfaldlega búinn að vera. Aðeins spurt að því hvort hann verði í slagnum fram að ofur-þriðjudegi eftir níu daga.

Hillary Rodham Clinton gaf fylkið upp á bátinn fyrir nokkrum dögum og tók að einbeita sér að þeim fylkjum sem kosið verður í á ofur-þriðjudegi. Ávarpaði hún stuðningsmenn frá Nashville í kvöld. Stólar hún á að taka stóru fylkin og samkvæmt könnunum mun hún verða sigursæl þar. Ofur-þriðjudagur verður stór dagur í forkosningaslag demókrata. Það mun þó varla fara svo að frambjóðandinn verði ljós þá, baráttan mun standa lengur og ráðast á þeim fylkjum sem kosið verður í um miðjan febrúar eða jafnvel í mars, ef þetta fer í þann farveg að talið verði upp á hvern þingfulltrúa.

Forkosningaslagurinn hefur verið frá kosningunum í Iowa einvígi tveggja sögulegra frambjóðenda; fyrstu konunnar og fyrsta blökkumannsins með möguleika á Hvíta húsinu. John Edwards hefur lent á milli þeirra allan þennan mánuð, aldrei náð að yfirvinna tapið í Iowa, þar sem hann stóð sig vel árið 2004, og eftir skaðlegan ósigur í Nevada, þar sem hann fékk aðeins fjögur prósent, þurft að minna á nærveru sína í baráttunni - væntanlega hefur Suður-Karólína nú veitt honum náðarhöggið.

Enda er það svo að sértu fyrrum öldungadeildarþingmaður úr suðrinu og fæddur og uppalinn í suðrinu og tekur ekki suðrænt fylki á þessum tímapunkti ertu búinn að vera. Það er ekki flóknara en það. Á þessu féll Fred Thompson í sama fylki um síðustu helgi. Þetta veit auðvitað John Edwards manna best. Margir tala um að stutt sé í að hann fari úr slagnum. Fundur hans með Hillary um daginn vakti t.d. athygli og spurningar margra með stöðuna.

En staðan er galopin. Sigurinn í Suður-Karólínu er mikilvægur fyrir Obama og tryggir að slagurinn verður spennandi nokkrar vikur enn, þó ég telji að Hillary muni verða sigursæl á ofur-þriðjudegi. Spurning hversu sterkur byrinn frá Suður-Karólínu verði fyrir Obama. Þá er kosið í 25 fylkjum - spennandi kosningadagur sem mun skýra línur nokkuð.


------

Hvað varðar repúblikana er baráttan nú um Flórída, það er kosið þar á þriðjudag. John McCain fékk í gær stuðning öldungadeildarþingmanns fylkisins, Mel Martinez, og fyrir nokkrum klukkustundum lýsti Charlie Crist, ríkisstjóri Flórída, yfir stuðningi við hann, eftir langa umhugsun, en allir helstu frambjóðendur höfðu leitað eftir stuðningi ríkisstjórans.

Þessi stuðningur er mjög mikilvægur fyrir John McCain. Ég tel að hann muni taka Flórída og verða sigursæll á ofur-þriðjudegi. Spái honum útnefningu repúblikana. Finnst línur þar hafa skýrst mikið síðustu dagana. Þetta er barátta hans og Romney núna.

mbl.is Obama sigraði í Suður-Karólínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband