7.2.2008 | 21:25
Romney hættir - McCain nær útnefningunni

Til þess að vera áfram í slagnum hefði Mitt Romney þurft að sigra allavega í Kaliforníu, Georgíu og Missouri á ofur-þriðjudegi. Það var forsenda þess að framboðið væri trúverðugt. En svo fór ekki. Tapið í Kaliforníu var mesta áfallið og í raun endalokin fyrir framboðið, sem trúverðugt afl hið minnsta. Auk þess náði hann ekki að komast af alvöru fram úr Huckabee og var aðeins hársbreidd öflugri en hann, náði ekki að komast heldur upp að hlið McCain. Svo að þetta var orðið glatað og heiðarlegt mat að líta svona á stöðuna og segja hreint út að betra sé að flokkurinn fari að undirbúa sig fyrir kosningarnar í nóvember.
Mitt Romney hefði getað haldið áfram vissulega og barist fram í marsmánuð, á mikla peninga og marga öfluga lykilstuðningsmenn. En það er einfalt hvernig landið liggur. John McCain hefur þegar náð rúmlega 60% þingfulltrúa til að tryggja sér útnefninguna. Hann leiðir slaginn, hefur byr í seglin og stendur mjög vel að vígi. Þrátt fyrir að McCain hafi ekki tekist að klára slaginn endanlega í orðsins fyllstu merkingu á ofur-þriðjudegi er forskotið einfaldlega það mikið og afgerandi að hann verður ekki stöðvaður. Romney gerði sér grein fyrir þessu og það vita allir að Mike Huckabee mun ekki stöðva hann. Þetta er búið spil.
Það er greinilegt að mörgum stuðningsmönnum hans brá í dag að hann ætlaði sér að hætta slagnum og í staðinn sætta sig við orðinn hlut. Það er eðlilegt að stuðningsmenn hans séu ósáttir og hafi talið að halda hafi mátt áfram einhverjar vikur. En allir sem þekkja sögu forkosninganna í Bandaríkjunum sjá bara með því að líta á tölurnar nú eftir ofur-þriðjudaginn að John McCain hefur náð það sterkri stöðu að enginn mun koma í veg fyrir að hann verði forsetaefni repúblikana í nóvember, berjist fyrir því að taka við af George W. Bush, keppinaut sínum í forkosningaslagnum harkalega fyrir átta árum.
Þessi niðurstaða markar endalok alvöru baráttu um útnefningu Repúblikanaflokksins, þó að Mike Huckabee verði kannski einhverjar vikur í viðbót í slagnum. Engu að síður er baráttan búin, barátta af alvöru. John McCain mun bráðlega geta farið að undirbúa kosningabaráttu, stilla saman strengi og marka strategíuna, auk þess að sameina flokkinn að baki sér. Margir repúblikanar lengst til hægri hafa ekki enn sætt sig við að McCain fronti flokkinn - það mun taka þá hópa einhvern smátíma til að ná áttum og skynja að nú er aðeins framundan að berjast við demókrata, ekki McCain.
Á meðan stendur slagur Barack Obama og Hillary Rodham Clinton um útnefningu Demókrataflokksins enn. Það er alvöru slagur, enda enginn með afgerandi forskot eftir ofur-þriðjudaginn og virðist allt vera opið. Af því leiðir að demókratar berjast enn blóðugri baráttu á meðan að repúblikanar geta skipulagt sína baráttu og lagt sínar meginlínur. Það má kannski þakka Mitt Romney öllum mönnum mest fyrir að hafa klárað mál með svo heiðarlegum og skynsömum hætti nú á þessum tímapunkti. Hann veit að þetta er best í stöðunni, fyrir flokkinn.
Það er greinilegt að vaxandi óróleiki er meðal demókrata vegna þeirrar stöðu, sem eðlilegt er. Það verður því spurt um hversu lengi baráttan standi enn. Þegar er flokksmaskínan farin að draga í land með að þetta verði látið dankast í gegnum sumarið, eins og sumir hafa spáð, og koma í veg fyrir blóðugt vígi á þinginu í Denver.
Það er alveg ljóst að demókratar geta ekki leyft sér slík hjaðningavíg átta til níu vikum fyrir forsetakosningar. En hver ætlar að marka reglur svo báðum líki? Þegar er farið að rífast um hvernig eigi að breyta reglum í miðju ferlinu. Það blasir við að bæði munu berjast meðan stætt er.
![]() |
Romney hættur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:41 | Facebook
Athugasemdir
Já, ég yrði ekki hissa á því að Mike Huckabee yrði varaforsetaefni John McCain. Þeir myndu bæta hvorn annan upp og framboðið yrði mjög sterkt. McCain vantar vissan stuðning í suðrinu, biblíu-beltinu, og það kæmi með Huckabee í framboð McCain.
Er eiginlega vonlaust að spá um hvað gerist hjá demókrötum. Hef sagt alla tíð að ég tel Hillary hafa kjarnastuðninginn til að fara alla leið. Obama mistókst að sigra í mikilvægum fylkjum á borð við Kaliforníu, New Jersey og Massachusetts (sem var reyndar mikið áfall enda studdu bæði Ted Kennedy og John Kerry) hann.
Tel vonlaust að Hillary verði varaforsetaefni en jafnvel gæti Obama farið á framboð með Hillary. En það er langur vegur eftir enn og ég held að hann verði blóðugur fyrir demókrata, að óbreyttu. Það er erfitt að standa í svona hjaðningavígum með hinn flokkinn tilbúinn til framboðs, að öðru leyti en því að varaforsetaefni hefur ekki verið valið.
Stefán Friðrik Stefánsson, 7.2.2008 kl. 21:51
JFK fékk ekki tilnefningu fyrr en á þingi Demokrata. Með seimingi. Svipað gæti gerst með Obama.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 22:03
Það er svo sem möguleiki að Huckabee nái vopnum sínum við fráfall Romney, en það verður að teljast ólíklegt þar sem McCain hefur þegar náð 70% af þeim kjörmönnum sem hann þarf á að halda - en ekkert er ómögulegt...
En af þeim fjarlægja möguleika frátöldum þá virðist vera orðið ljóst að í fyrsta skipti í 48 ár verður sitjandi öldungardeildarþingmaður kosinn forseti Bandaríkjanna, en það hefur ekki gerst síðan John F. Kennedy var kjörinn forseti 1960 - kannski önnur samlíking Obama við Kennedy....
Þeir Bush yngri, Clinton, Reagan og Carter voru allir ríkisstjórar (Reagan reyndar fyrrum ríkisstjóri), Bush eldri varaforseti, sem og Nixon (sem þó hafi tekið sér "frí" frá stjórnmálum". Johnson og Ford tóku við af forverum sínum við fráfall og afsögn þeirra.
En næstu mánuðir verða áhugaverðir. Ég hef litla trú á því að McCain nái að vinna hvort heldur sem er Clinton eða Obama þó svo að nýjustu kannanir sýni svo - allt annað hljóð verður þegar fólk tekur afstöðu til tveggja raunverulegra valkosta - ekki frambjóðandi á móti "hvað ef" dæmi.
Vandamálin í Bandaríkjunum í dag eru þess eðlis að það eina sem Repúblikanar geta gert er að auka þau! Það sjá bæði stuðningsmenn Clinton og Obama - og miðað við hvað fólk hefur hópast í forkostningarnar hjá þeim er sigur þeirra óumflýjanlegur!
Steingrímur Jónsson (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 23:16
Maður verður bara að sammála Steingrimi herna á undan,eins og maður hefur álitið alvega til þessa/Halli gamli
Haraldur Haraldsson, 8.2.2008 kl. 00:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.