Hættir Barack Obama lífinu fyrir framboðið?

Barack Obama Í fyrsta skipti í bandarískri stjórnmálasögu á þeldökkur maður raunhæfa möguleika á því að verða kjörinn forseti Bandaríkjanna. Barack Obama hefur sýnt það og sannað að hann hefur stöðu og styrk í að hljóta forsetaembættið. En margir telja að hann sé að hætta lífi sínu fyrir framboðið. Doris Lessing, nóbelsverðlaunahafi í bókmenntum, talar mjög skýrt um að hann yrði ekki langlífur yrði hann kjörinn forseti Bandaríkjanna og það hafa fleiri sagt hið sama.

Þetta er vissulega mjög kuldalegt mat og dapurlegt að staðan sé með þeim hætti að fordómar grasseri enn gegn þeldökkum. Fjórir áratugir eru liðnir frá því að blökkumannaleiðtoginn dr. Martin Luther King var myrtur í Tennessee. Morðið á honum var áfall fyrir blökkumenn sem höfðu barist undir forystu dr. Kings fyrir mannréttindum sínum og komist nokkuð áleiðis með mannréttindalögum Johnsons forseta árið 1964, sem hann hafði tekið í arf frá John F. Kennedy, forvera sínum, sem myrtur var í Texas árinu áður og hafði talað mjög fyrir réttindum blökkumanna.

Þrátt fyrir að dr. King átti sér draum um samfélag þar sem allir væru jafnir óháð litarafti hefði hvorki honum né þeim sem gengu með honum í Washington árið 1963 órað fyrir því að nokkrum áratugum síðar ætti blökkumaður alvöru möguleika á að komast alla leið í Hvíta húsið, þó þeim hafi eflaust innst inni dreymt um þann möguleika. Aðeins fjórir þeldökkir (utan Obama) hafa gefið kost á sér til forsetaembættis. Þeirra þekktastur er Jesse Jackson, sem barðist fyrir útnefningu demókrata árin 1984 og 1988, en auk hans hafa Al Sharpton, Shirley Chisholm og Carol Elizabeth Moseley Braun gefið kost á sér.

Mikið var skorað á Colin Powell, hershöfðingja í Persaflóastríðinu, um að gefa kost á sér í forsetakosningunum 1996 sem frambjóðandi Repúblikanaflokksins. Kannanir sýndu að hann átti góða möguleika á að verða forseti Bandaríkjanna. Hann velti fyrir sér þeim möguleika að fara fram af alvöru, en ákvað þó að gefa ekki kost á sér. Eiginkona hans, Alma, var mjög andsnúin framboði hans, af ótta við að hann yrði myrtur færi hann í framboð og myndi sigra Bill Clinton. Powell hefur margoft sagt þá ákvörðun rétta. Powell varð fyrsti þeldökki utanríkisráðherrann árið 2001, í forsetatíð George W. Bush, sem valdi þeldökka konu sem eftirmann hans.

Það hefur margoft verið velt fyrir sér þeim möguleika að blökkumaður yrði forseti Bandaríkjanna og það verið stílfært í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Í upphafi áratugarins var það lykilsöguþráður í fyrstu sjónvarpsseríu þáttaraðarinnar 24 að ráða ætti þeldökkan forsetaframbjóðanda, David Palmer, af dögum, en hann var þá í fararbroddi þeirra sem sóttust eftir útnefningu Demókrataflokksins. Litlu munaði að þeim tækist það, en atburðarásin tók á sig ýmsar myndir er yfir lauk. Í annarri seríu var Palmer orðinn forseti, fyrstur þeldökkra, og söguþráðurinn snerist enn að mestu um hann. Hann var að lokum myrtur í fimmtu seríunni.

Það er vissulega kuldalegt að tala enn með þeim hætti að blökkumaður verði sjálfkrafa myrtur komist hann nærri flokksútnefningu eða vinni forsetaembættið en þetta er samt veruleikinn. Það eru enn til valdamiklir hópar sem vilja ekki að blökkumaður verði valdamesti maður heims og munu berjast harkalega gegn því. Fordómarnir lifa enn, því miður.

mbl.is Obama „yrði myrtur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Við verðum að skoða söguna,þegar svona kemur uppá höfum ekki annað,og hún er ekki falleg þarna/enn og aftur ættu Clinton og Obama að semja hún Forseti hann Varaforseti,svona ungur maður getur sannað þetta seinna,þetta er mitt álit og margra annarra/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 9.2.2008 kl. 17:42

2 Smámynd: Ólafur Als

Stefán,

heldur er mikið gert úr orðum gamals sósíalistahunds á borð við Doris Lessing ef í alvöru á að ræða hennar syn á tilveruna. Ef þú hefðir lesið greinina í Dagens Nyheter (vefútgáfu) voru orð frú Lessing ekki mörg um meinta hættu fyrir Obama - né lögðu Svíar nokkra alvöru í málið.

Hvað eiginkonu Powells varðar var það nú aðallega að hún vildi ekki vera í sviðsljósi fjölmiðlanna, þó svo að fleira hafi haft áhrif á hana. Hverjir þessir "margir" eru, Stefán, kannast maður ekki við - því þessi umræða hefur ekki farið hátt í stórum fjölmiðlum. Þau öfl sem stóðu að baki morðinu á King eru nú svipur hjá sjón, enda eru Bandaríki nútímans umburðarlyndari gagnvart þeldökku fólki í æðstu stöðum, eins og þú víkur sjálfur að.

Að þessu sögðu má benda á að forseti Bandaríkjanna er enn betur varinn nú en áður og ekki hefur þurft svartan forseta til þess að menn gerðu atlögu að einstaklingnum að baki embættinu.

Ólafur Als, 9.2.2008 kl. 18:35

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kveðjuna Halli

Ólafur: Þú verður að eiga það við mbl.is og starfsmenn að þeir pikki þetta upp og skrifi um. Ber enga ábyrgð á því.

Eðlilegt samt að velta þessu fyrir sér fyrst að fréttamat stærsta vefmiðils þjóðarinnar er með þessum hætti og skrifa um það. Vissulega er frambjóðandinn vel vaktaður en þessi ótti hefur jafnan vofað yfir. Það verður allavega áhugavert að sjá hvað gerist.

Með þessum skrifum er ég fyrst og fremst að vonast til að við lifum á það siðlegum tímum að ekki sé ráðist að fólki vegna litarafts þess eða pólitískra skoðana. Það er eitt að vera ósammála, annað að haldast á siðlegum nótum.

Alma Powell óttaðist allra mest að Colin yrði myrtur, var hrædd um hann. Auk þessa var hún ekki hrifin af sviðsljósi fjölmiðla. En hræðslan um öryggi hans var lykilmálið. En fyrst og fremst vildi hún ekki að hann færi í framboð og það hefur verið til staðar alla tíð síðan.

Stefán Friðrik Stefánsson, 10.2.2008 kl. 01:13

4 identicon

Fyrir mér er þessi frétt aðeins auglýsingabrella, og staðfest þegar konan segist styðja hyllari. það er aðeins einn heiðarlegur frambjóðandi til forseta, Ron Paul.

Andri (IP-tala skráð) 10.2.2008 kl. 01:46

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Já, Andri. Ron Paul er ansi flottur. Gaman að honum. Er alveg ófeiminn við að segja það sem hann meinar og hann meinar það sem hann segir. Alveg nauðsynlegt að hafa svona menn sem þora að tala hreint út í slagnum.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 10.2.2008 kl. 03:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband