Vilhjálmur leitaði til Hjörleifs - algjört klúður

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Það er nú orðið ljóst, þó að allir hafi sagt það nema Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sjálfur, að hann átti við Hjörleif Kvaran, forstjóra Orkuveitunnar, þegar að hann sagðist hafa leitað eftir lögfræðilegu áliti borgarlögmanns. Þetta er auðvitað algjört klúður og varla séð hvernig að Vilhjálmur geti talað sig frá þessu. Þetta er jafn vandræðalegt og blaðamaður segðist vitna í forsætisráðherra í frétt, en svo kæmi upp úr dúrnum að þar væri átt við Davíð Oddsson.

Vissulega hefur Hjörleifur verið borgarlögmaður, en það eru orðin fimm ár síðan, en hann gegndi því starfi í níu ár við hlið Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem borgarstjóra á valdatíma R-listans. Það er einum of langt síðan til að Vilhjálmi til varnar sé talað um að það sé stutt síðan hann hætti, enda var ekki skipað í stöðu borgarlögmanns í rúm tvö ár og svo ekki ráðið í hana fyrr en á síðasta ári þegar að Kristbjörg Stephensen hlaut starfið í meirihlutatíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þegar að haft er í huga að álit borgarlögmanns löngu liðinna tíma voru aðalrök Vilhjálms í Kastljósi á fimmtudag er um algjört klúður að ræða.

Er talað er um Hjörleif nú um stundir kemur ekki fyrst upp í hugann orðið borgarlögmaður, þó eflaust ágætis lögfræðingur sé, enda hefur hann gegnt forstjórastarfi í Orkuveitunni síðustu mánuði og var forstjóri fyrirtækisins á umdeildum hluthafafundi í október. Báðir sátu þeir því fundinn og það er ekki traustvekjandi sé Vilhjálmur að tala um hann í þessu tilfelli. Það blasir við að hann hafi veitt Vilhjálmir "lögfræðilega ráðgjöf" á hluthafafundinum sjálfum eða þá rétt fyrir hann. Það er fjarri því að vera traustverðugt fyrir hvorugan manninn og er varla haldbært lögfræðilegt álit. Í öllum þessum hraða virðist hver hafa kóað annan í vitleysunni.

Þeir félagar Vilhjálmur og Hjörleifur báðir eiga á hættu að þurfa að axla ábyrgð vegna þessa máls, bera báðir mikla ábyrgð í því auk Guðmundar Þóroddssonar. Það er kallað eftir því að þeir axli þá ábyrgð og skal engan undra miðað við allt pólitíska klúðrið. Það að Vilhjálmur leiti til forstjóra Orkuveitunnar um lögfræðilegt álit en ekki borgarlögmanns, eins og hann fullyrti æ ofan í æ í afspyrnuslöku viðtali í Kastljósinu, er ekki traustvekjandi og hlýtur að teljast pólitísk afglöp. Ofan á allt annað er fullyrt í Fréttablaðinu í dag að Vilhjálmur hafi skipað Kristbjörgu að tjá sig ekki um málið við fjölmiðla og gengið langt fram í því.

Það er alveg ljóst að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson þarf að íhuga sína pólitísku stöðu um helgina. Það er í mínum huga orðið fráleitt að hann taki aftur við embætti borgarstjóra í Reykjavík og ég tel að það væri best fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík að hann myndi taka af skarið um það sem allra fyrst.

mbl.is Forstjóri OR álitsgjafinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já nú er mál að linni

Stanslausar yfirlýsingar Kjartans Magnússonar um að Vilhjálmur njóti fyllsta trausts borgarfulltrúa sjálfstæðisflokksins

Skyldi vera ástæða fyrir því að Hanna Birna og Gísli Marteinn sjást ekki og heyrast ekki ?

Er engin sem vill tala við þau?

Vilja þau ekki tjá sig um Rei?

Eða eru þau í skotgrafarhernaði ?

Sæmundur (IP-tala skráð) 9.2.2008 kl. 11:45

2 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Þetta er gengið allt of langt.  Ekki er annað í stöðunni en hreinsa til.  Þeim sem gengdu lykilhlutverkum í samrunaferli REI og GGE verði vikið til hliðar á meðan óháð rannsóknarnefnd í umboði eiganda OR (Akranes og Borgarnes meðtalið) rannsaki málið ofan í kjölinn.  Skýrsla stýrihóps Svandísar er hrein loðmulla þar sem hvergi er tekið á nokkrum hlut.  Hvað þá ef satt reynist að nefndin hafi aldrei kallað þessa lykilmenn fyrir sig; Vilhjálm fv. borgarstj., Hjörleif Kvaran, Guðmund Þóroddsson, Björn Inga svo einhverjir séu nefndir. 

Málið lyktar skelfilega illa og það er hrein og klár spurning hvort framganga þessara manna sé saknæm og þá jafnvel refsiverð.  Að hafa ætlað sér að afhenda verðmæti OR sem almenningur á til fjárplógsmanna eins og Bjarna Ármannssonar og Hannesar Smárasonar getur ekki verið í neinu samræmi hagsmunagæslu eiganda OR gagnvart eigendum sínum.

Ég hef alltaf haft trú á Vilhjálmi.  Sú trú er brostin og hann á ekki annara kosta völ en segja af sér.  Því fyrr því betra. 

Sveinn Ingi Lýðsson, 9.2.2008 kl. 11:48

3 Smámynd: Jónas Jónasson

Sammmmmmmála! Nú kemur í ljós hvort hann tekur eiginhagsmuni fram yfir hagsmuni flokksins. (Gísli Marteinn má fylgja með)

Er svo ekki bara langeinfaldast að Ólafur F komi aftur yfir í flokkininn og haldi Borgarstjórastöðunni út kjörtímabilið. 

Úfff ! Silfur Egils! :) 

Jónas Jónasson, 9.2.2008 kl. 11:54

4 identicon

Það er pínlegt að horfa upp á hvert klúðrið á eftir öðru hjá Vilhjálmi. Allt frá smá pirring yfir kjældum bjór yfir í hið risavaxna REI klúður.

En Vilhjálmur er ekki á því að hætta heldur hann ótrauður áfram við að grafa sína pólitísku gröf. Ef maðurinn hættir ekki núna eða verður látinn hætta þá er það víst að gröfin mun rúma allan borgarstjórnarflokk Sjálfstæðismanna að lokum.

Það er komin tími á að Vilhjálmur taki pokan sinn hleypi inn sínum varamanni og Hanna Birna verði borgarstjóri í hans stað þegar þar að kemur.  Við Sjálfstæðismenn höfum ekki efni á að hafa Vilhjálm lengur í borginni.

Hilmar (IP-tala skráð) 9.2.2008 kl. 12:21

5 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Ég er sammála þér Stefán, en mikið er þetta allt orðið sorglegt. Við þurfum svo miklu frekar að auka tiltrú fólks á stjórnmálamönnum, það er töluvert uppbyggingarstarf eftir.

Gunnar Skúli Ármannsson, 9.2.2008 kl. 12:39

6 Smámynd: Óðinn Þórisson

Sammála þér Stefán og hef engu við hann að bæta.

Óðinn Þórisson, 9.2.2008 kl. 13:09

7 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Var Hjörleifur á lista þeirra sem áttu að fá kaupréttarsamning ?

Jón Ingi Cæsarsson, 9.2.2008 kl. 13:33

8 identicon

Það sést enn og aftur að forsendurnar fyrir falli meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru ennþá fyrir hendi - en samt er Björn Ingi langt fjarri!  Enda hefur fall meirihlutans í haust ekkert með Björn Inga að gera heldur algjöra sundrungu í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins! 

Þessi sundrung sást m.a. í andltum Gísla Marteins og Hönnu Birnu fyrir aftan þá Vilhjálm, Ólaf og Kjartan Magnússon á Kjarvalsstöðum þegar núverandi "meirihluti" var kynntur - þau voru allt annað en ánægð með þann gjörning - gjörning sem festi Vilhjálm sem borgarstjóra í 14 mánuði!

Og þar liggur hálfur hundirinn grafinn. Jafnvel þó hver einasti sjálfstæðismaður ofan torfu - og jafnvel allir dauðir líka - samþykki Gísla Martein eða Hönnu Birnu sem borgarstjóra á eftir Ólafi þá breytir það engu þar sem Ólafur hefur lokaorðið - og viðkomandi þarf að vera maður sem Ólafur getur unnið með og njóta trúnaðartrausts - og ég efast um að Hanna Birna eða Gísli Martein séu í þeirri stöðu.

Hinn helmingurinn af hundinum liggur grafin í því að því að það er algjörlega ljóst að það er engin samstaða um hver ætti að taka stöðu Vilhjálms.  Heldur einhver að Gísli Marteinn standi hljóður hjá á meðan Hanna Birna rústar framavonum hans í stjórnmálum?

Það eru til fjöldinn allur af leiðum sem Sjálfstæðisflokkurinn getur farið til að endurvekja traust en þær eiga það allar sameiginlegt að hann verður að afsala sér völdum af einhverju leiti.  Það er hins vegar gjörsamlega andstætt hugsjónum flokksmanna!

Góðu fréttirnar eru þær að að það verður sífellt styttra í að Dagur B. Eggertsson verður borgarstjóri aftur!

Steingrímur Jónsson (IP-tala skráð) 9.2.2008 kl. 14:29

9 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Við spyrjum að leikslokum,Villi verður að athuga sinn gang/eg er samt efins um að hann hefi gert neitt rangt sem ekki er hægt að leiðrétta,ef að er þá nokkuð/en þerra er öll á könnu vinstri manna maður heyrir það vel/aðferðir þeirra er að taka menn Pólitikt af lifi/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 9.2.2008 kl. 14:35

10 identicon

Halli minn - það þarf ekkert vinstri menn til að taka Villa pólítíkst af lífi - hann hefur alveg séð um það sjálfur -

Og síðan hvernær er Stebbi vinstri maður?  Er hann ekki að taka þátt í þessari meintu aftöku?

Steingrímur (IP-tala skráð) 9.2.2008 kl. 14:59

11 Smámynd: Halldór Sigurðsson

Virðist vera eðlileg hegðun sjálfstæðismanns -- það bara komst upp um hann .

Halldór Sigurðsson, 9.2.2008 kl. 15:18

12 identicon

Tel að það verði fleiri en Vilhjálmur að skríða út með skömm frá þessu sorgarmáli.Trúi ekki að borgarbúar verði sáttir og allt falli í ljúfa löð ef bara Villi hættir.Held að hann hafi sagt bara já og amen við þessa græðgiskalla og átt að halda kj. við sitt lið,öjbara.Steingrímur,nei vonum að langt verði að Dagur setjist aftur í stólinn.Vilhjálmur Þ.Vilhjálmsson dragðu þig í hlé kallinn,liðið þitt þarf á liðsheildinni sem skapar meistarann,en ekki einleik,þú ert ekki góður í því.Sammála að snuðdrengurinn Gísli Marteinn gráti mikið ef Hanna fer í forystu.Vona samt að ekki verði skipt um meirihluta enn á þessu tímabili.Kosningar eru orðnar óþarfar.Svei mér þá ef þetta lið skiptir ekki oftar um meirihluta en nærföt á þessu tímabili.Kveðja  

Halldór Jóhannsson (IP-tala skráð) 9.2.2008 kl. 16:18

13 identicon

Mér er sagt að Silfur Egils verði fréttnæmur á morgun. Þetta verður bara verra.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 9.2.2008 kl. 17:24

14 Smámynd: Auðbergur Daníel Gíslason

Mér þykir þessi umræða um það hvort að Vilhjálmur hafi fengið lögfræðilegt álit vera alveg fáránleg. Hann er lögfræðingur að mennt, var formaður sambands íslenskra sveitafélaga, auk þess að hafa starfað sem borgarfulltrúi til fjölda ára. Ég tel því að hann hafi fyllilega haft vit á því hvort hann hafði hið umtalaða umboð. Hann hefur mikið meira vit á sveitastjórnarmálum heldur en þeir tveir lögfræðingar sem fengnir voru til að gefa álit fyrir skýrsluna.

Hitt er annað mál að ég tel að hans tími sé að verða liðinn í stjórnmálum, og tími til kominn að hleypa nýju fólki að. Ég tel þó fráleitt að leita að oddvitaefni utan borgarstjórnarflokks.

Auðbergur D. Gíslason
14 ára Sjálfstæðismaður

Auðbergur Daníel Gíslason, 10.2.2008 kl. 22:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband