7.10.2006 | 21:51
Uppstokkun á þingi - vefir frambjóðenda

Dagarnir líða varla núna um þessar mundir án þess að við fáum fréttir af því að þingmenn séu að hætta eða að einhver maður eða kona úti í bæ vilji fara í prófkjör eða komast með öðrum hætti í mjúkan stól í steingráu húsi við Austurvöll. Þetta er merkilegur tími í stjórnmálum og svolítið gaman að upplifa þetta allt. Ég hef það mikinn áhuga á stjórnmálum að mér leiðist ekki svona árstími. Held reyndar að við séum að horfa upp á einhverja mestu uppstokkun á Alþingi í komandi kosningum. Mér telst til að 16 alþingismenn, kjörnir árið 2003 séu annaðhvort hættir eða að hætta. Svo munu einhverjir þingmenn fá reisupassann í prófkjöri væntanlega - verða hent út fyrir nýliða.
Það verður spenna í prófkjörunum um allt. Í gær voru birtir nafnalistar yfir frambjóðendur hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík og hjá Samfylkingunni í Suður- og Suðvesturkjördæmi. Í öllum prófkjörunum eru um 20 manns að gefa kost á sér. Það er gleðiefni að það er gott val í boði og nægir kostir fyrir kjósendur flokkanna er kemur að því að velja hverjir eigi að vera í forystusveit flokkanna fyrir þessar kosningar. Í samræmi við þennan áhuga eigum við von á miklu fleiri pólitískum heimasíðum býst ég við. Fólk fer varla orðið í prófkjör nú til dags nema að bjóða upp á eigin vettvang skoðana eða pælinga um stjórnmál, enda lágmark að þeir séu til staða fyrir kjósendur.
Í dag skoðaði ég nýjan og glæsilegan vef Ástu Möller, alþingismanns. Hún var í dag að opna kosningaskrifstofu sína í leiðinni. Finnst slagorðið hennar í prófkjörinu flott. Það er: Ásta - í ljósi reynslunnar. Þetta er flott slagorð. Það hefur flotta merkingu. Getur bæði þýtt að hana eigi að kjósa í ljósi reynslunnar síðast þegar að konur fengu skell. Þá féllu Ásta, Kata Fjeldsted og Lára Margrét úr öruggum sætum og duttu út í kosningunum 2003. Einnig getur það þýtt að hana eigi að kjósa vegna þess að hún er konan með reynsluna í prófkjörinu, eina konan í boði sem hefur átt sæti á Alþingi. Margir kostir. Allir góðir. Líst vel á þetta hjá Ástu.
Sigurður Kári opnaði í dag kosningaskrifstofu sína og vefsíðu framboðsins. Var að líta yfir hana nú í kvöld og líst virkilega vel á. Mér finnst Sigurður Kári hafa unnið vel á þingi og óska honum því að sjálfsögðu góðs. Ég skrifaði grein til stuðnings honum í síðasta prófkjöri og minnti vel þá reyndar á að ungu fólki yrði að treysta ofarlega. Það var gert. Gott yngra fólk flaug inn á þing og það á erindi að sjálfsögðu áfram. Siggi Kári er enn ungliði og þeirra fulltrúi. Það eru viss vonbrigði nú að ekki sé neinn í prófkjörinu undir þrítugu. Ég sakna þess að ungt og öflugt fólk skelli sér nýtt í slaginn, en það var mikið um það síðast og verður svosem ekki alltaf.
Í dag sá ég auglýsingar Guðfinnu S. Bjarnadóttur, rektors Háskólans í Reykjavík, í blöðunum. Hún fer af stað á morgun með skrifstofu og vef. Þar er þó kominn banner á vefinn fyrir formlega opnun. Líst vel á þá tóna sem Guðfinna setur sínu framboði. Þar er komin kona sem er reynslumikil á mörgum sviðum og býður sig fram sem öflugan valkost. Slagorðið hennar er líka virkilega flott og mér að skapi: Valfrelsi og skapandi umhverfi. Líst vel á alla tóna sem slegnir eru um meira frelsi og fagna því að hún nefni þetta orð. Það sýnir okkur vel hvert hún stefnir í sinni baráttu. Það verður að ég tel virkilega gaman að sjá stefnumálin hennar. Toppkona sem veit hvað hún syngur.
Illugi Gunnarsson, hagfræðingur, er kominn á flug. Það er virkilega gaman að líta á vefinn hans. Þetta er vefur lifandi skoðana og pælinga og vel uppfærður. Slagorðið er grípandi og gott: Ný verkefni - nýjar áherslur. Mér hefur alltaf líkað vel við Illuga og talið hann framtíðarmann í flokknum. Það er gaman að horfa á ávarpið hans Illuga á vefnum. Það er hárrétt sem hann segir að stjórnmál snúist svo mikið um að hlusta á aðra - skoðanir fólksins úti í bæ. Það á alltaf að vera svo að auðvelt sé að ná í stjórnmálamenn og fólk geti sent til þeirra skoðanir sínar og athugasemdir. Illugi slær allavega rétta tóna með vefnum og það er gaman að líta í heimsókn til Illuga.
Björn Bjarnason hefur breytt vefnum sínum og hefur breytt honum í lifandi prófkjörsvettvang í bland við sígildan vef skoðana og pælinga. Slagorðið hans er: Samstaða til sigurs. Flott slagorð. Björn hefur mikla reynslu að baki og þekkingu á lykilmálum í pólitík - hún er okkur nauðsynleg. Það var kostulegt að heyra undarlega stjórnmálaskýringu Steingríms Ólafssonar í Kastljósi í gær um Björn og Guðlaug Þór. Líkti hann þeim Guðlaugi og Birni við tölvu og ritvél og nefndi Björn greinilega sem ritvélina. Það mátti greinilega skilja orð hans með þeim hætti að Björn væri mjög gamaldags. Það er ljóst að hvorki hann né sessunautur hans í þættinum vilja veg Sjálfstæðisflokksins sem mestan.
Björn Bjarnason var fyrsti íslenski stjórnmálamaðurinn sem byrjaði með virka og lifandi heimasíðu þar sem birtust reglulega greinar um stjórnmál og málefni dagsins í dag. Hann hefur verið með vefsíðu í ellefu ár og alltaf verið þar hið minnsta með vikulegar greinar, síðustu árin hefur hann haldið dagbók þar. Þetta er því stórt safn skrifa um stjórnmál og þetta er eiginlega fjársjóður að lesa, enda er allt efnið auðvitað aðgengilegt með auðveldum og góðum hætti. Björn var því frumkvöðull í pólitík á netinu hérlendis.
Þegar að hann byrjaði með vef sinn voru margir að undrast það að Björn væri að leggja áherslu á þennan þátt sinnar stjórnmálaþátttöku. Þá þótti þetta ekki nógu kórrétt pólitík og það eru reyndar margir enn í pólitík svo virkilega gamaldags og úr öllum takti að varast netið með öllu og þora ekki að skrifa þar á hverjum degi um skoðanir sínar og pælingar. Á þessum grunni öllum er hlægilegt að heyra ummæli Steingríms Ólafssonar sem eru að mínu mati gjörsamlega út í hött að öllu leyti.
Þegar að hann byrjaði með vef sinn voru margir að undrast það að Björn væri að leggja áherslu á þennan þátt sinnar stjórnmálaþátttöku. Þá þótti þetta ekki nógu kórrétt pólitík og það eru reyndar margir enn í pólitík svo virkilega gamaldags og úr öllum takti að varast netið með öllu og þora ekki að skrifa þar á hverjum degi um skoðanir sínar og pælingar. Á þessum grunni öllum er hlægilegt að heyra ummæli Steingríms Ólafssonar sem eru að mínu mati gjörsamlega út í hött að öllu leyti.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:40 | Facebook