Kristján Þór Júlíusson í leiðtogaframboð

Kristján Þór Júlíusson

Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, tilkynnti á fjölmennum aðalfundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna hér á Akureyri í kvöld að hann sæktist eftir fyrsta sætinu á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í komandi kosningum. Orðrómur hafði verið mikill síðustu mánuði að hann stefndi á þingframboð og varla vafi í huga flokksmanna hér á Akureyri að hann myndi fara fram, eftir að Halldór Blöndal, alþingismaður, tilkynnti formlega um að hann myndi draga sig í hlé að vori. Fyrr í dag gaf Þorvaldur Ingvarsson, lækningaforstjóri FSA, út yfirlýsingu um leiðtogaframboð sitt og í september tilkynnti Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður, um framboð sitt í fyrsta sætið.

Kristján Þór Júlíusson var bæjarstjóri á Dalvík 1986-1994, á Ísafirði 1994-1997 og hefur verið bæjarstjóri og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri allt frá árinu 1998 og leitt flokkinn hér í bænum í þrennum kosningum. Kristján Þór hefur verið lengi virkur í stjórnmálum og unnið ötullega fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Það kemur því engum að óvörum hér á þessum slóðum og væntanlega víðar, sem kynnst hafa Kristjáni Þór í flokksstarfinu að hann hafi áhuga á að sækja fram til forystu í Norðausturkjördæmi. Nú stefnir í spennandi prófkjör þar sem flokksmenn hafa góða valkosti til forystu. Kjördæmisþing mun formlega taka ákvörðun væntanlega um prófkjör um helgina.

Kristján Þór gaf kost á sér til varaformennsku á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir ári. Hann hlaut tæplega 40% atkvæða og beið því lægri hlut í snörpum varaformannsslag við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra. Þá þegar varð orðrómurinn um þingframboðið sterkur og talið víst að landsmálin væru innan seilingar. Þetta er því rökrétt framhald þess sem nú hefur gerst. Í bæjarstjórnarkosningunum í vor gengu fjölmiðlamenn mjög nærri Kristjáni Þór með að fá svör um þingframboð og var um fátt meira talað í kosningabaráttunni en mögulegt landsmálaframboð bæjarstjórans.

Aðalfundur fulltrúaráðsins tókst mjög vel í alla staði. Þetta var góður og öflugur fundur, þar sem farið var yfir málin í aðdraganda kjördæmisþingsins um helgina og rædd staða mála á kjördæmavísu. Viðstödd fundinn voru allir leiðtogaframbjóðendurnir þrír og ávörpuðu Arnbjörg og Þorvaldur fundinn auk Kristjáns Þórs. Björn Magnússon var endurkjörinn formaður fulltrúaráðsins og engin breyting varð á skipan aðalmanna er kjörnir eru á aðalfundi. Ný lög fulltrúaráðsins voru samþykkt á fundinum, en þau hafa verið óbreytt frá árinu 1999.


mbl.is Kristján Þór Júlíusson sækist eftir fyrsta sæti í Norðausturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband