Davíð undrast ummæli Jóns Baldvins

Davíð Oddsson

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri og fyrrum forsætisráðherra, staðfesti í kvöldfréttum Stöðvar 2 að hann hafði enga vitneskju um það fyrr en nú að sími Jóns Baldvins Hannibalssonar í utanríkisráðuneytinu eigi að hafa verið hleraður. Fátt hefur meira verið rætt í gær og í dag en utanríkisráðherrann hleraði og síminn og ummæli hans um að hann hefði komist að því að hann væri hleraður snemma á tíunda áratugnum, í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks undir forsæti Davíðs. Áður hefur Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, er var þá dómsmálaráðherra, sagst ekki hafa vitað af þessu fyrr en eftir útvarpsviðtalið.

Eins og ég sagði í skrifum mínum hér fyrr í dag vekur verulega mikla athygli að Jón Baldvin skyldi ekki ræða þessi mál við samstarfsmenn sína í ríkisstjórn. Það að Jón Baldvin hafi talið þetta eðlilegt og viljað halda því fyrir sig kemur ekki heim og saman, hreint út sagt. Það vekur líka mikla athygli að Jón Baldvin skyldi ekki fyrr gera þetta opinbert, heldur tala um þetta á árinu 2006. Honum hefði verið í lófa lagið að gera eitthvað í málinu í utanríkisráðherratíð sinni, þegar að hann var einn valdamesti maður landsins. Mér finnst það alvarlegt mál að Jón Baldvin hafi þagað yfir þessu öll þessi ár og það hlýtur að vekja spurningar um hvort öll sagan sé sögð.

Mér finnst vanta verulega stóran bita í þetta púsluspil Jóns Baldvins satt best að segja. Þetta einhvernveginn kemur ekki heim og saman. Það er allavega enginn vafi lengur á því að Jón Baldvin tjáði sig ekki um þessi mál við samstarfsmenn sína í Sjálfstæðisflokknum innan Viðeyjarstjórnarinnar né heldur gerði hann þetta að umræðuefni í alþingiskosningunum 1995 þar sem að hann barðist fyrir pólitísku lífi sínu, eftir klofninginn innan Alþýðuflokksins, er Jóhanna Sigurðardóttir sótti af krafti gegn sínum gamla flokki og Jóni Baldvin. Uppljóstrun þessa hefði gerbreytt kosningabaráttunni þá. Þetta virðist fyrst nú vera rætt milli manna. Það er stórundarlegt hreint út sagt.

Spurning vaknar um það hvort að Jón Baldvin tjáði samstarfsmönnum sínum innan Alþýðuflokksins á ríkisstjórnarárunum um þessa vitneskju sína. Ég trúi því varla að Jón Baldvin hafi einn byrgt þetta innra með sér öll þessi ár. Hafi þetta fyrst verið rætt manna á milli á vinstrivængnum nú á síðustu dögum vekur það verulega stórar spurningar, mun stærri en nú blasa við. Undarlegt þykir mér að fjölmiðlamenn gangi ekki á eftir Jóni Baldvini með þær vangaveltur hvort Rússarnir hafi kannski hlerað hann, í ljósi þess að hann lagði frelsisbaráttu Eystrasaltsríkjanna mikið lið. Hann fór reyndar til Litháen á þeim tíma og lagði líf sitt í hættu fyrir málstaðinn.

Enn merkilegra er það að Davíð Oddsson segir að símar ráðamanna hafi verið skoðaðir með hugsanlegar hleranir í huga árlega og það af NATO og norsku öryggislögreglunni. Það vekur stórar spurningar. Ekkert nema spurningar vakna í þessum efnum eftir þessa uppljóstrun Jóns Baldvins. Það að hann hafi beðið með að tala um þetta í heil 13 ár er með hreinum ólíkindum. Enn verra er svo að Jón Baldvin ýjar að því að lögreglan hafi hlerað símann. Það eru frekar undarlegar dylgjur í sannleika sagt. En allar hliðar þessara mála verða að fara upp á borðið. Það er svo einfalt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Hefur Jón Baldvin svarað tali Davíðs, Þorsteins Pálssonar eða Halldórs Blöndals? Allir sem einn segjast þeir hafa heyrt af þessu máli í gær eins og við hin. Afhverju bakkar ekki Jón Sigurðsson, nánasti samstarfsmaður Jóns Baldvins í formannstíð hans í Alþýðuflokknum, upp tal JBH. Hann segist ekki hafa vitað um þetta fyrr en í gær. Af hverju notaði JBH þetta mál ekki til bjargar sér þegar að hann sigldi í strand við klofning Alþýðuflokksins? Það eru mjög margar spurningar í þessu máli sem snúa að JBH. Af hverju beið hann í 13 ár? Þetta meikar ekki sens.

Stefán Friðrik Stefánsson, 12.10.2006 kl. 00:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband