Ákveða þarf sem fyrst hver verði borgarstjóri

Gísli Marteinn, Hanna Birna og Vilhjálmur Þ. Ég tel að flestir sjálfstæðismenn séu ósáttir við að ekki hafi verið ákveðið með afgerandi hætti hver verði borgarstjóri af hálfu Sjálfstæðisflokksins í mars 2009. Það er engan veginn nógu gott að vafi sé í þessum efnum og hefði almennileg niðurstaða í málið aðeins fengist með ákvörðun um borgarstjóraembættið. Pattstaðan sem nú er uppi er ekki góð fyrir flokkinn og verður að binda enda á hana.

Það er eðlilegt að kallað sé eftir enda á þessum spurningum um forystu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þessi krísa hefur skaðað flokkinn í höfuðvígi hans og það verður að binda enda á þessa óvissu, svo að um annað verði rætt í borgarmálunum en það hver eigi að leiða flokkinn sem borgarstjóri á síðari hluta kjörtímabilsins. Það er hreinlegast og best að í þeim efnum sé litið til niðurstöðu í fjölmennasta prófkjöri Íslandssögunnar, sem fram fór fyrir síðustu kosningar meðal sjálfstæðismanna í borginni. Það er fjarstæða að horfa framhjá því.

Sé vafi uppi um að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hafi styrk og stuðning til að verða borgarstjóri, eins og við blasir reyndar af atburðarás síðustu daga, á að fara yfir listann og finna nýjan borgarstjóra í kjölfar þess sem skipar fyrsta sætið. Hér á Akureyri og ennfremur í Mosfellsbæ hættu bæjarstjórar sem leiddu flokkinn sem leiðtogar á fyrri hluta kjörtímabilsins og héldu í önnur verkefni. Þar var sjálfgefið að sá sem skipaði annað sætið yrði bæjarstjóri í nafni flokksins og tæki við leiðtogahlutverkinu. Það á ekkert annað að gilda um Reykjavík í þessum efnum.

Sé bakland leiðtoga flokksins í borginni brostið eins og sést á þessum vafa er eðlilegast að Hanna Birna Kristjánsdóttir verði borgarstjóri. Það er ekkert flókið við það og er eiginlega með ólíkindum að ekki enn hafi verið höggvið á þennan hnút, enda er þessi krísa engum til góðs, sérstaklega hvorki flokknum né þeim sem eru kjörnir fulltrúar hans í Reykjavík.

Þessi galtóma niðurstaða sunnudagsins lokar ekki á kjaftasögur og vangaveltur um styrk Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík til forystu. Á meðan að ekki er tekið af skarið og svarað þeirri spurningu sem mestu skiptir mun allt snúast um hvort flokkurinn hafi styrkt til að hafa völd í höfuðborginni.

mbl.is Niðurstaðan ekki eins skýr og ætla hefði mátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tiger

Heillavænlegast væri fyrir borgarbúa - sem og sjálfstæðisflokkinn í heild - væri að skipa Hönnu Birnu sem borgarstjóraefni þeirra þegar Ólafur F. stígur niður. Hún virðist hafa mesta fylgið á bakvið sig og njóta mesta traustsins. Flokkurinn á landsvísu myndi hagnast á því ef þetta væri gert strax - hvort sem þessi skrípaleikur núverandi meirihluta heldur velli út tímabilið eða ekki.

Tiger, 26.2.2008 kl. 03:10

2 Smámynd: Ingólfur

"vangaveltur um styrk Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík til forystu"

Er það ekki augljóst að Ekki-listinn hefur enga burði til að stjórna.

Það verður aldrei munað eftir þessum borgarfulltrúum fyrir annað en það sem þeir ekki gerðu.

Ekki láta samflokksmenn vita þegar gerður er milljarða samruni við einkaaðila
Ekki lesa minnisblöð
Ekki axla ábyrgð
Ekki taka ákvörðun um flugvöllinn
Ekki tala við fjölmiðla
Ekki taka ákvörðun um framtíð oddvitans
Ekki koma sér saman um eftirmann hans
Ekki höggvið á hnútinn af formanninum þegar allt er í upplausn

Þetta væri fyndið ef ekki væri svona mikið í húfi. 

Ingólfur, 26.2.2008 kl. 04:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband