Björgum þotunni - Gullfaxa til Akureyrar

Gullfaxi kemur til Íslands árið 1967 Fjórum áratugum eftir að þotan Gullfaxi markaði þáttaskil í flugsögu Íslendinga er saga hennar að verða öll í Nýju-Mexíkó þar sem á að brytja hana niður. Það er að mínu mati stórslys ef ekki tekst að bjarga Gullfaxa frá þeim örlögum. Að mínu mati á Gullfaxi best heima í safni hér á Íslandi, enda merkilegur hluti af flugsögu landsins.

Best færi á því að það myndi takast að flytja Gullfaxa hingað til Akureyrar og þotan yrði hluti af Flugsafninu hér. Sögulega séð væru það viðeigandi endalok í þessum efnum. Það er allavega mikilvægast af öllu að bjarga Gullfaxa frá því að verða brytjaður niður og koma flugvélinni aftur til Íslands. Það verður menningarlegt slys ef það tekst ekki og tilraunir þeirra sem eru að reyna að eignast Gullfaxa renna út í sandinn.

Það er svo merkilegt að ég var að horfa á gamlar spólur í gærkvöldi og rakst þá á gamlan þátt úr Sjónvarpinu þar sem var klippt saman gömlu efni. Þar á meðal var umfjöllun um komu Gullfaxa árið 1967 og merkilegar klippur frá athöfn á Reykjavíkurflugvelli þar sem Ásgeir Ásgeirsson, þáverandi forseti Íslands, kom fram ásamt fleiri merkisfólki. Koma Gullfaxa voru stórtíðindi, enda með því mörkuð þáttaskil í flugsögu landsins. Var þessum atburði líka lýst vel í þætti um flugsöguna, sem voru gerðir árið 2002, sem ég ennfremur á bandi og horfði nýlega á.

Sagan er mikilvæg - það má vel vera að Gullfaxi sé kominn til ára sinna og þjóni ekki lengur lykilhlutverki í samgöngusögu landsins. En hann lék þar sögulega rullu og það er mikilvægt að bjarga þotunni frá því að verða brytjuð niður. Myndi slíkur merkisgripur íslensku flugsögunnar hvergi passa betur en á safni hér nyrðra, en sárt yrði að sjá hann enda í varahlutum og járnarusli í Nýju-Mexíkó.

mbl.is Fyrsta þota Íslendinga í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Stefán,

Takk fyrir ágæta grein þína um þessa fyrstu þotu okkar íslendinga. Eins og fram kom í grein Morgunblaðsins er það óhemjudýrt að gera þennan skrokk flughæfan. Þó svo að það takist þá skulu menn vita og muna að það yrði ekki sami Gullfaxi sem kæmi til baka, heldur fraktflugvél með engum sætum og síst af öllu með það sem gerði þennan fallega grip að íslenskri flugvél, innréttingumum, það er panelnum í farþegarýminu, sem var skreyttur teikningum Halldórs Péturssonar listamanns af íslenskum náttúrufyrirbrigðum eins og goshver, eldfjalli, íslenskum hesti og svo muna örugglega einhverjir hér e-ð fleira. Þetta er löngu glatað. Kannski á einhver ljósmynd af þessari klæðningu, það myndi örugglega gleðja marga að sjá hana. Raunhæfust er sú tilraun sem á að gera að bjarga einhverju af flugstjórnarklefanum, þar eru væntanlega stýrin sem íslensku flugmennirnir héldu farsællega um í nær 7 ár.

Annars er það sem verið er að gera nú á Akureyri í verndun flugmynja mjög merkilegt. Aldrei í isl. flugsögu hafa komið saman jafnmargir vel efnaðir áhugamenn um þessa hluti eins og nú. Þeir eru að lyfta grettistaki í þessum málum, allt frá Rapid til DC3 (ég vona að ég móðgi engan með þessari upptalningu) og allt þar á milli. Flugsafnið er falleg bygging og á ég reyndar sjálfur einn hlut sem ég mun koma einhverntíman með norður og færa safninu, kannski á ég fleira. Málið er að við verðum að passa okkur á að dreifa ekki kröftunum í þessum efnum heldur leggast öll á eitt að byggja upp ÞETTA safn.

Með góðri kveðju

Örn Johnson '43 (IP-tala skráð) 1.3.2008 kl. 22:30

2 identicon

Sæll aftur Stefán.

Takk fyrir að setja athugasemd mína inn. Það vita margir í flugheiminum hver ég er og vildu ef til vill ná sambandi við mig. Má ég setja bréfaslóð mína hér inn, sem þú svo birtir. Hún er: johnson@hive.is. Lofa svo að leifa þér að fylgjast með áhugaverðum bréfum sem mér verða ef til vill send.

Með kveðju

Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 1.3.2008 kl. 23:44

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin Örn. Gott að heyra í flugáhugamanni um þessi mál. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta fer með Gullfaxa. Safnið hér er sannarlega gott og það er ánægjulegt að sjá uppbygginguna sem þar hefur verið unnin af alúð og elju.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 2.3.2008 kl. 01:46

4 Smámynd: Haukur Nikulásson

Hvernig yrði Ísland ef aldrei mætti skola neinum úrgangi niður í klósettin vegna svona tilfinningasemi. Þotan er eins langt frá upprunalegri mynd og hugsast getur og það er örugglega hægt að nota hátt í hundrað milljónir eða meira í þarfari verkefni.

Haukur Nikulásson, 2.3.2008 kl. 03:46

5 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

ég er mikill áhugamaður um flugvélar og flugsögu. Þó er ég efins um að kaupa þessa vél á 80 milljónir og guð má vita hvað kostaði að koma henni í þá mynd sem var á henni hér. Ups notaði hana sem fraktvél. Hér var hún notuð til 1984 og síðan í frakt. Það segir að þessi rúmlega 40 ára vél var hér í farþegaflugi 16-17 ár en 23 ár í fraktflugi. Allt sem gerði þessa vél sérstaka er horfið...td. innréttingar sem voru mjög sérstakar. Það segir okkur að þetta eintak sem á að rífa er á engan hátt sú vél sem við þekktum og auðvelt að taka hvaða 727 og kalla hana Gullfaxa, munurinn væri ekki slíkur enda varla nokkur skrúfa eftir frá því hún fór héðan fyrir tæplega aldarfjórðung.

Ég var viðstaddur þegar Gullfaxi kom hér fyrst og á myndir af því. Gaman væri að varðveita hana eins og hún var þá en ég efast um að eyða hundruðum milljóna við að búa til sögu og forngrip. Það er ekki það sama og eignast orginal grip í óbreyttu útliti.

Jón Ingi Cæsarsson, 2.3.2008 kl. 13:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband