Rannsókn á hlerunarmálum

Árni Páll Árnason Jón Baldvin Hannibalsson

Um fátt er meira rætt þessa dagana en hlerunarmálin. Enn heyrast sögur af meintum hlerunum og í Silfri Egils í dag fullyrti Árni Páll Árnason, prófkjörsframbjóðandi Samfylkingarinnar í kraganum, sem var einn af aðstoðarmönnum Jóns Baldvins Hannibalssonar í utanríkisráðherratíð hans að sími sinn í ráðuneytinu hefði verið hleraður og hann fengið ábendingar um það. Eins og í því máli og öðrum kemur þar ekkert fram nema ábendingar á nafnleysingja sem enginn veit hver er og því ekki að heyra meira um málið. Þetta eru endalausar ábendingar á nafnleysingja. Slíkt er með öllu ólíðandi, það verður að fara yfir grunnpunkta málsins og helstu hliðar þess.

Þetta mál er komið í mjög góðan farveg. Þingmenn allra flokka samþykktu með flýtimeðferð á Alþingi skömmu eftir upphaf þinghalds að skipa nefnd mála á tíma kalda stríðsins undir formennsku Páls Hreinssonar, lagaprófessors, sérstaklega til að fara m.a. yfir hlerunarmálin. Þar er talað um tíma kalda stríðsins 1945-1991, enda er það sá tími sem helst hefur verið nefndur og verið mest umdeildur í umræðunni. 1991 var enda sögulegt lokaár kalda stríðsins með endalokum Sovétríkjanna. Þessari nefnd er veittur frjálsur aðgangur að öllum gögnum í vörslum stjórnvalda sem snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi, á tímum kalda stríðsins.

Aflétt er með þessu allri almennri þagnarskyldu opinberra starfsmanna, meðal annars þeirra sem væntanlega hafa upplýsingar um hleranir. Það er þörf að fara yfir öll þessi mál og það verður nú gert, hvort að umboð nefndarinnar sé nægjanlegt mun ráðast af þeim gögnum sem fyrir liggja væntanlega. En þetta er allavega gott og mikilvægt skref, enda er nauðsynlegt að fara yfir öll mál sem gerðust á tímum kalda stríðsins, enda hitatímar. Það verður að hreinsa andrúmsloftið og það sem er í umræðunni. Það sem er þó verst eru þessar ábendingar, sem oftast kallast kjaftasögur, með ábendingum á menn sem eru eins og algjörir huldumenn án nafns.

Nú er talað um að fara yfir mál handan kalda stríðsins. Eins og allir vita var öll umræða lengst af miðuð við kalda stríðið, fyrrnefnt tímabil. Það eru aðeins örfáir dagar síðan að t.d. Jón Baldvin Hannibalsson opinberaði grunsemdir sínar um hleranir. Það er með ólíkindum alveg að hann hafi ekki greint frá því fyrr, helst strax og hann komst að þessum grunsemdum sínum, sem var á þeim árum að hann var einn valdamesti maður landsins og örlagavaldur í íslenskum stjórnmálum, eftir að hafa sprengt tvær ríkisstjórnir og farið undir lok ferilsins í stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Þetta er ný umræða og kom fram eftir ákvörðun þingsins.

Það er réttast að öll mál verði rannsökuð og það verði opnað að rannsaka mál eftir 1991 að mínu mati. Ég er sammála því sem t.d. Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, sagði um þetta í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Það verður að opna þetta mál, koma því frá kjaftasöguhjalinu og fara yfir hvort meira sé til í því en kjaftasögurnar einar, sem eru vægast sagt orðnar ólíðandi og fyrir neðan allar hellur. Nú verður t.d. nafnlausa fólkið hans Jóns að koma fram í dagsljósið og fara yfir sína hlið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband