Vandaður heimildarþáttur um leiðtogafundinn

Ronald Reagan og Mikhail Gorbachev

Það var virkilega áhugavert að sjá heimildarþátt Ingólfs Bjarna Sigfússonar í Ríkissjónvarpinu í kvöld um leiðtogafundinn í Reykjavík fyrir tveim áratugum. Mikil vinna var greinilega lögð í þáttinn og þarna var virkilega borin virðing fyrir umfjöllunarefninu og ræktað mjög að vel yrði farið yfir alla sögulega þætti málsins. Það sést mjög vel á þessum þætti þegar að allar hliðar fundarins eru skannaðar hversu gríðarlega sögulegur atburður þessi fundur var. Það voru vissulega gríðarleg vonbrigði að leiðtogarnir, Ronald Reagan og Mikhail Gorbachev, skyldu ekki ná samkomulagi á þessum fundi en hann hafði víðtæk áhrif á næstu skref.

Það er óumdeilt að leiðtogafundurinn í Höfða í október 1986 færði leiðtogana saman, þeir kynntust betur og vissu meira um grunn hvors annars, bæði persónulega og pólitískt. Þeir vissu að þeir gætu samið, sorglega litlu munaði að sagan yrði mótuð á fundinum og kalda stríðinu lyki fyrr en ella. En allt sem á eftir kom og lauk með hruni kommúnistastjórna í Evrópu og uppstokkun í kjarnorkuvopnamálum voru afleiðingar Höfða-fundarins. Það hefði óneitanlega verið einstakt fyrir okkur að leiðtogarnir myndu ná sögulegu samkomulagi í Reykjavík. Við getum allavega huggað okkur við það að þessi fundur á sess í mótun sögulegra þáttaskila.

Þó fundurinn hafi virkað sem sár vonbrigði á októberkvöldinu 1986 þegar að Reagan og Gorbachev fóru í sínhvora áttina leikur enginn vafi á því eftir að hafa séð þennan þátt hversu mikilvæg skref náðust á þessum dögum. Það er reyndar merkilegt að sjá það hversu nærri samkomulagi leiðtogarnir voru um fulla útrýmingu kjarnorkuvopna.

Það er merkilegt að sumir sérfræðingar kalda stríðsmála meti fundinn jafnmikilvægan sögulega séð og Jalta-fundurinn. Hann braut blað í samskiptum tveggja ólíkra póla í heimsmyndinni og sagan var þar rituð að hluta. Eftirmálinn er öllum ljós. Ingólfur Bjarni fór vel yfir þetta og þetta var í senn umfangsmikil og vönduð samantekt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband