Hvað gerir Ágúst Ólafur?

Ágúst Ólafur og Ingibjörg Sólrún

Framboðsfrestur í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík rennur út um helgina. Það hefur vakið mikla athygli að Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, hefur ekki enn tilkynnt um á hvaða sæti hann muni þar stefna. Mikið er rætt um fyrirætlanir hans í framboðsmálunum. Þær sögur hafa gengið nú um nokkurt skeið að lítið sem ekkert samstarf sé á milli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, og Ágústs Ólafs og þau varla tali við hvort annað. Um fátt hefur enda verið meira rætt seinustu vikurnar hvernig sambandið innan forystu Samfylkingarinnar sé.

Þær sögur hafa verið lífseigar að hún vilji losna við varaformanninn og hefur heyrst að hún vilji aðra og þekkta frambjóðendur í staðinn. Þetta hefur sést vel af framboði fjölda fólks í væntanlegu prófkjöri Samfylkingarinnar sem hefur raðað sér í neðri sætin á eftir formanninum og þingflokksformanninum Össuri Skarphéðinssyni. Allir þessir aðilar ætla sér greinilega ekki að hliðra til fyrir Ágúst Ólafi, sem varð varaformaður flokksins á landsfundinum vorið 2005. Mesta athygli vekur að ekki liggur enn fyrir á hvaða sæti hann stefnir í Reykjavík, en það eitt liggur fyrir að hann verði í framboði þar.

Það hefur reyndar margoft verið sagt, sem rétt er, að Ingibjörg Sólrún hafi ekki stutt Ágúst Ólaf til varaformennsku heldur stutt andstæðing hans í kjörinu, Lúðvík Bergvinsson, alþingismann flokksins í Suðurkjördæmi. Á landsfundi Samfylkingarinnar í maí 2005 brostu Ingibjörg Sólrún og Ágúst Ólafur sínu breiðasta og reyndu að sýna samstöðu með því að koma fram saman við lok fundarins. Ef marka má það sem heyrist nú er kalt á milli æðstu forystumanna Samfylkingarinnar og barist þar af krafti. Framundan eru þingkosningar og orðrómurinn um að formaðurinn vilji losna við varaformann sinn fer sífellt vaxandi.

Ágúst Ólafur er ungur maður, jafngamall mér reyndar, og hefur náð miklum frama innan Samfylkingarinnar á tiltölulega skömmum tíma. Það verður fróðlegt að sjá hvort að honum tekst að verjast áhlaupi formanns flokksins og stuðningsmanna hennar sem bráðlega munu reyna allt með sýnilegum hætti að henda honum út úr pólitík. Það yrði verulegt áfall ef hann næði ekki öruggu þingsæti í þessu prófkjöri allavega, og hvergi nærri tryggt að hann nái því í væntanlegum átökum.

mbl.is Framboðsfrestur í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík rennur út á laugardag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband