Paul Scofield látinn

Paul ScofieldBreski óskarsverðlaunaleikarinn Paul Scofield er látinn, 86 ára að aldri. Hann var ein af goðsögnum breskrar leiklistar á 20. öld. Segja má hann hafi verið sá síðasti sem kvaddi af gömlu kynslóðinni sem setti mest mark sitt á kvikmyndaheim landsins og leikhúsmenninguna margfrægu. Scofield var rómaður Shakespeare-leikari og var sannur í tjáningu sinni á sögufrægum persónum breskra leikhúsbókmennta og gerði persónur sínar ekki síður eftirminnilegar á hvíta tjaldinu.

Scofield hóf leikferil sinn á sviði í London árið 1940 og stundaði nám í konunglega listaháskólanum þar. Síðar hélt hann til Hollywood og lék þar í fjölda kvikmynda, mörgum þeirra mjög eftirminnilegum, bæði lék hann þar breska aðalsmenn og bandarískar intellectual-týpur og sögulegar persónur. Hann hafði mikinn klassa og segja má að hann hafi verið frambærilegasti fulltrúi sinnar kynslóðar í leik á eftir þeirri fyrri sem skartaði lykilmönnum á borð við Sir Laurence Olivier, Sir John Gielgud, Sir Ralph Richardson og Sir John Mills.



Scofield hafði helgað sig sviðsleik og þar var hans heimavöllur í leikrænni tjáningu. Hann lék þó í rétt rúmlega þrjátíu kvikmyndum og sjónvarpsverkum. Þegar að hann hlaut óskarinn fyrir ógleymanlega tjáningu á Sir Thomas More í A Man For All Seasons, sem er ein sú besta á sjöunda áratugnum ef undan er skilin eftirminnileg tjáning Rex Harrison á Henry Higgins í My Fair Lady og Peter O´Toole á Lawrence í Lawrence of Arabia, hafði hann aðeins leikið þrisvar áður í kvikmynd en hann lék í sinni fyrstu kvikmynd árið 1955, That Lady. Scofield lék fyrst hlutverk More á West End og svo aftur á Broadway.

Scofield þótti ekki Hollywood-maður í kvikmyndatúlkun og afþakkaði með öllu hefðarsess þar og þann sess að vera í raun kvikmyndaleikari. Hann var leikhúsmaður í bestu merkingu þess orðs. Hann mætti ekki á Óskarsverðlaunin 1967 og tók því ekki við óskarsverðlaunum sínum fyrir leik í A Man For All Seasons. Í stað þess tók Dame Wendy Hiller, vinkona Scofields úr breska leikbransanum, við verðlaununum en hún lék eiginkonu hans, Alice, í myndinni, en hún var ennfremur tilnefnd til verðlaunanna en tapaði fyrir Sandy Dennis sem átti stjörnuleik í Who´s Afraid of Virginia Woolf?

Frægt var þegar að Richard Burton, samferðarmaður Scofield í bransanum, sem margir töldu standa fremstan breskra leikara af þeirra kynslóð, sagði að sá titill tilheyrði Scofield. Enda ætti hann átta af tíu bestu sviðstúlkunum breskrar leikhússögu. Þeir voru tilnefndir saman til óskarsverðlaunanna árið 1967; Scofield fyrir A Man Of All Seasons en Burton fyrir að túlka eiginmanninn í Who´s Afraid of Virginia Woolf? Þar áttu bæði hann og eiginkona hans, Elizabeth Taylor, bestu stund sína á hvíta tjaldinu. Burton tók tapið nærri sér, enda hafði lagt allt í rulluna, en sagði sjálfur síðar að Scofield hefði toppað sig.



Scofield afþakkaði tvívegis að vera aðlaður af Elísabetu II Englandsdrottningu, síðast í upphafi nýrrar aldar, og þótti honum það sterk yfirlýsing um að hann þyrfti ekki veigameiri titil en herra til að sinna list sinni, þyrfti ekki á meiru að halda. Scofield var einfari alla tíð. Þótti fara sínar leiðir, kom og fór eftir eigin boðum og skeytti engu um hvað öðrum þótti um sig. Eftirminnilegasta kvikmyndatúlkun hans, fyrir utan A Man of All Seasons, er auðvitað stjörnutúlkun hans á Mark Van Doren, hinum heilsteypta og grandvara gáfumanni, sem í heiðarleika sínum sér fall sonar síns í frægum spurningaþætti.

Í raun var það grátlegt að hann fékk ekki óskarinn fyrir Quiz Show, enda er túlkunin heilsteypt og svo innilega traust. En á móti kemur að Martin Landau átti svo trausta túlkun á leikaranum Bela Lugosi í Ed Wood og hafði svo oft verið sniðgenginn áður, t.d. er hann lék lækninn í sálarkreppunni í Woody Allen-myndinni frábæru Crimes and Misdemeanors árið 1989. Scofield lét sér svosem fátt um finnast og sendi sömu skilaboð og áður um að þarna vildi hann ekki hefðarsessinn mikla og mætti ekki. Hann átti svo brilljant túlkun sem Lér konungur árið 1971, fáir léku Lér betur en Scofield.

Auk þess má auðvitað nefna túlkun hans á franska kónginum í Henry V. Þar lék hann á móti einum fremsta Shakespeare-leikara næstu kynslóða, Kenneth Branagh. Henry V er traust og góð mynd sem vert er að mæla með fyrir þá sem vilja alvöru kvikmyndauppfærslu á gömlu og traustu leikverki. Þeir sem vilja kynna sér list leikarans Paul Scofield er ráðlagt að líta á A Man For All Seasons, Quiz Show, kvikmyndaútfærsluna af Lér konung og Henry V sem brot um snilld trausts og vandaðs leikara.

En stóru sigrana sína upplifði Scofield á leiksviðinu. Það var hans vettvangur. Hann vildi sennilega ekki að sín yrði minnst sem kvikmyndaleikara en ferill hans verður hvorki heilsteyptur né heiðarlega skrifaður nema með þeim hætti. Þessi breski leiksnillingur var enda jafnvígur á sviðsleik og kvikmyndatúlkun, enda einn hinna bestu í bransanum.

mbl.is Paul Scofield látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband