Hillary skammt frá ástarfundum í Hvíta húsinu

Bill og HillaryÞað er merkileg staðreynd að Hillary Rodham Clinton var í Hvíta húsinu á sömu stund og Clinton forseti og lærlingurinn Monica Lewinsky áttu frægasta ástarfund sinn á forsetaskrifstofunni í hinu margumtalaða hneykslismáli sem næstum því kostaði forsetann embættið. Hillary hefur nú loksins birt dagbækur og gögn um verk sín þegar að hún var forsetafrú Bandaríkjanna. Það er löng romsa af allskonar upplýsingum sem varpa litlu ljósi á sögulegt hlutverk hennar.

Eðlilega voru fréttamenn helst áhugasamir um að vita hvar Hillary var þegar að Clinton og Lewinsky stunduðu ástarleiki sína og uppljóstrunin um að þau voru öll í forsetabústaðnum hefur hleypt nýju lífi í gamlar glæður þessa hneykslismáls.  Áratug eftir að Bill Clinton barðist fyrir því að halda forsetaembættinu og hjónabandinu vegna framhjáhaldsins með lærlingnum fylgir skuggi Monicu enn eftir Clinton-hjónunum á kosningaferðalagi um Bandaríkin. Minna máli skiptir í gögnunum hvort að Hillary hafi verið klappstýra eiginmannsins eða sú sem stýrði veldinu á bakvið hann.

Monica var sem skuggi á eftir Clinton síðustu þrjú ár forsetaferilsins og á árinu 1998 og 1999 er hann barðist í ákæruferlinu fyrir þinginu komst hann varla í opinberar heimsóknir án þess að frekar væri spurt um dökkhærða lærlinginn sem hann svaf hjá en heimsmálin. Það fer ekki á milli mála að ástarsamband forsetans við Monicu Lewinsky var eitt helsta máls seinna kjörtímabils hans og var á eftir honum allt þar til að hann lét af embætti í janúar 2001. Sambandið hófst rétt fyrir forsetakosningarnar 1996 og stóð hápunktur þess á þeim tíma sem hann sór embættiseið seinna skipti í þinghúsinu fyrir ellefu árum.

Nú berst Clinton forseti aftur fyrir því að komast í Hvíta húsið, nú við hlið eiginkonunnar sem fyrirgaf honum seint og um síðir ótryggðina og að hafa logið að sér á viðkvæmustu augnablikum forsetaferilsins. Og í fyrsta skiptið frá því að Clinton viðurkenndi ótryggðina varð Hillary að brjóta odd af oflæti sínu og svara viðkvæmum spurningum á sömu stund og spurt er um efnahaginn, utanríkismálin og trúmálin í suðurríkjum Bandaríkjanna í kosningaslagnum fyrr á árinu.

Þetta mál var sögufrægt og það deyr ekki þó árin líði. Enn er skuggi lærlingsins sem mara yfir Clinton-fjölskyldunni. Spurningin er hvort sögulegar minningar skaði hana, nú þegar að hún hefur náð forskotinu aftur á Obama og hefur blásið lífi að nýju í framboð sitt.


Skuggi Monicu fylgir Clinton-hjónunum eftir
ítarlegri umfjöllun mín um málið frá því í janúar 2008


mbl.is Lewinskymálið skýtur á ný upp kollinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband