Hauskúpa finnst í Kjós - leyndarmál fortíðar

Hauskúpa Mér leið eins og ég væri að lesa krimma eftir Arnald Indriðason þegar að ég las um beinafundinn í Kjós og beið eiginlega eftir viðbrögðum Erlendar Sveinssonar við þessum fregnum og auðvitað því að hann myndi leysa ráðgátuna. En þetta er víst ekki svo einfalt, enda blákaldur raunveruleiki og mikilvægt að úr því verði skorið hver beri beinin í Kjós.

Þar sem enginn kirkjugarður er nálægt þeim stað er beinin fundust er ekki nema von að spurningum fjölgi. Frumrannsókn gefur til kynna að þetta séu bein af konu eða barni og séu tíu til þrjátíu ár gömul. Það hafa ekki margar konur horfið á þessu tímabili og greinilega er mikil saga á bakvið þessi bein og viðbúið að lögreglan verði að leita að gamalli sögu fortíðarinnar við að leysa þetta mál, rétt eins og Erlendur hefur gert í sögum Arnaldar.

Það hafa mjög margir Íslendingar horfið sporlaust síðustu áratugina. Mörg þessi mál hafa orðið fræg og hjúpuð leyndardómsfullum spurningum - talað um öðru hverju - en hin hafa fallið í gleymskunnar dá. Þegar að ég las bók um mannshvörf fyrir nokkrum árum kom það mér einmitt mest að óvörum hvað það voru margir sem hafa horfið og ekkert spurst til meira.

Því er svo mikilvægt að reyna að rekja uppruna þessara beina og söguna á bakvið persónuna sem þarna ber beinin.


mbl.is Mannabein fundust á víðavangi í Kjósarhreppi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Það var ekkert talað um aldur einstaklingsins hvers höfuðkúpan er, heldur var sagt að viðkomandi hefði látist fyrir 10 - 30 árum.  En það breytir ekki þeirri staðreynd að þetta er hið dularfyllsta mál allt saman, ég þurfti að rifja upp hvaða dagur var á dagatalinu þegar ég heyrði þetta í fréttum í morgun.

Sigríður Jósefsdóttir, 24.3.2008 kl. 13:59

2 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Þetta náttúrlega smellur allt saman við næstu bók Arnaldar: Grafarrán.

(Hver er að þvælast með beinparta einversstaðar inni í dal?) 

Ásgrímur Hartmannsson, 24.3.2008 kl. 14:18

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Sigríður: Já, ég meinti það með orðum mínum. Allavega er þetta mjög dularfullt mál í alla staði. Það eru mun færri konur en karlar sem hafa horfið síðustu áratugina og greinilega mikil ráðgáta framundan fyrir lögregluna við að reyna að leysa þetta mál. Spurningarnar eru margar. Tek undir það, fannst þetta óraunverulegar fregnir í morgun.

Ásgrímur: Nákvæmlega. Þetta minnti mig á bókina hans Arnaldar um beinin í Grafarholtinu og söguna á bakvið það. Veit ekki hvort sagan sé svo tilþrifamikil á bakvið þetta en einhver harmleikur er tengdur þessum beinum. Það væri gaman ef einhver fjölmiðill myndi kortleggja hversu margar konur hafa horfið síðustu þrjá til fjóra áratugina.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 24.3.2008 kl. 15:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband