Clinton-hjónin opinbera það allra heilagasta

Clinton-hjóninEftir margra vikna umræður um fjárhagsstöðu Clinton-hjónanna í hinni harðnandi forkosningabaráttu demókrata hefur Hillary Rodham Clinton nú svipt hulunni af persónulegustu upplýsingum þeirra frá því að þau yfirgáfu Hvíta húsið. Fáir, ef nokkrir stjórnmálamenn vestan hafs, hafa gefið jafn mikið upp um persónuleg atriði sín og um leið gert hreint fyrir sínum dyrum. 

Það er fátt orðið heilagt í hinni hatrömmu baráttu Hillary og Barack Obama fyrir útnefningu Demókrataflokksins í forsetakosningunum í nóvember. Baráttan er fyrir löngu orðin ein sú kuldalegasta í bandarískri stjórnmálasögu, altént síðustu áratugina, þar sem öllum brögðum er beitt og hnútuköstin ganga á milli á hverjum einasta degi. Enda eru margir demókratar orðnir logandi hræddir um að flokkshag sé varpað fyrir róða hjá báðum frambjóðendum til þess eins að upphefja sjálfan sig til skýjanna. Fáir eru hlutlausir í þeim slag og flokkurinn logar stafnanna á milli.

Finnst fátt við þessar prívatupplýsingar Clinton-hjónanna koma að óvörum. Það vita það allir að Bill Clinton er einn eftirsóttasti ræðumaður Bandaríkjanna og ferðast heimshorna á milli til að flytja ræður sínar og er mikið borgað til að fá hann til að flytja boðskap sinn á alþjóðavettvangi, enda einn af litríkustu stjórnmálamönnum síðustu áratuga. Bækur hans og rit hafa selst vel og skrif hans verið í hávegum höfð. Fyrir bókaskrif og ræðumennsku hefur hann auðgast vel og það eru engin ný tíðindi fólgin í því að hann hafi það gott í þeim bransa.

Hillary Rodham Clinton hefur sjálf ritað pólitíska ævisögu sína, Living History, mjög áhugaverða og vel skrifaða bók sem var gefin út um allan heim og seldist t.d. vel hér á Íslandi. Enginn deilir um að þau eru vel stæð og þessar upplýsingar staðfesta það vissulega. Það hefur verið deilt um að þau skyldu ekki opinbera þessar upplýsingar fyrr. Nú hefur það gerst. Efast stórlega um að birting þessara gagna marki einhver vatnaskil í þessari baráttu. Hillary og Obama eru að berjast jafnri og hatrammri baráttu um hnossið mikla og virðist ekkert ráðið í þeirri baráttu í þessum mánuði.

Það hafði verið þrýst mjög á Hillary að gera þessar upplýsingar opinberar fyrir forkosningarnar í Pennsylvaníu þann 22. apríl nk. Flest bendir til að hún sigri þar og hún verður að sigra þar til að verða áfram sterkur frambjóðandi. Henni tókst með forkosningunum í Texas og Ohio að tryggja sér farseðil lengra. Ekkert bendir til að örlög ráðist í þessum harkalega forkosningaslag fyrr en eftir einhverjar vikur hið minnsta.


mbl.is Skattaupplýsingar Clinton-hjónanna gerðar opinberar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óðinn Þórisson

Góður pistill hjá þér Stefán.

Þessari baráttu líkur ekki fyrr en á flokksþinginu og það er spilast úr þessu eins og John McCain hefði skrifað handrið.
Áhyggjur margra demókrata yfir þessari baráttu  eru mjög skyljanlegar. 
Það gæti orðið erfitt að sameina þessa tvo hópa og er ég á því að Johan McCain verði næsti forseti bandaríkjanna

Óðinn Þórisson, 5.4.2008 kl. 14:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband