Klofningur demókrata - mesta krísan frá 1968

Obama og Hillary Það er ljóst að harðvítugur forkosningaslagur Hillary Rodham Clinton og Barack Obama um útnefningu Demókrataflokksins í forsetakosningunum í nóvember er að snúast upp í rembihnút og pólitískt stórslys fyrir flokkinn. Það er orðið ljóst að hvorugt þeirra mun ná útnefningunni í forkosningaferlinu og að óbreyttu mun þetta verða blóðugur slagur á gólfinu á flokksþinginu í Denver.

Mér finnst það merkilegt hjá Netmogganum að birta í fyrirsögn að vinsældir Hillary einnar séu að minnka. Bæði Hillary og Obama fá þungan skell í þessari könnun og það er djúpstæður klofningur í flokknum með stöðu mála. Það virðist ekkert benda til að annað þeirra geti sameinað flokkinn að baki sér í stöðunni. 22% vilja að bæði dragi framboð sitt til baka og er það til marks um að nýjustu krísur þeirra hafa skaðað þau bæði; er þá ýkjur Hillary vegna Bosníuferðarinnar og krísuna vegna kjaftæðisins í fjölskylduklerk Obama.

Bæði hafa skaðast á undanförnum dögum. Þessi hnútuköst þeirra á milli og málin tvö fyrrnefndu eru ekki aðeins að skaða þau bæði persónulega heldur einnig Demókrataflokkinn. Það er fjarstæða að hvorugt þeirra dragi sig í hlé með stöðuna eins og hún er. Það er ekkert svo gríðarlegur munur á þeim í þingfulltrúaslagnum og ef Hillary sigrar í Pennsylvaníu hefur hún bæði stöðu og skyldu til að halda áfram. Það eru engar líkur á að Obama nái útnefningunni í forkosningaferlinu og því er undarleg krafa að flokkurinn sameinist að baki honum í þessari jöfnu stöðu þar sem hvorugur frambjóðandinn hefur náð útnefningunni.

Þeim vantar báðum talsvert upp á að ná hnossinu og stærðfræðin án Flórída og Michigan segir ósköp einfaldlega að þessi slagur verður tekinn alla leið til Denver. Það yrði pólitískt stórslys fyrir Demókrataflokkinn vissulega, en demókratar geta sjálfum sér um kennt með meingallað forkosningaferli sem hefur verið við lýði frá árinu 1984 en virðist nú í fyrsta skipti vera að skera flokkinn í tvær fylkingar; þeirra sem fylgja Hillary alla leið og þeirra sem fylgja Obama. Það er rammt hatur á milli þessara fylkinga og þrumufleygarnir fljúga á milli. Það er engin stjórn á þessum slag - hann er kominn út í tóma vitleysu.

Mér sýnist demókratar vera komnir í sína mestu krísu frá árinu 1968. Þá logaði flokkurinn stafna á milli í forkosningaferlinu. Robert F. Kennedy var myrtur á mikilvægasta hluta kosningabaráttunnar í júní 1968, að kvöldi þess dags sem hann sigraði forkosningarnar í Kaliforníu, og tvær fylkingar börðust hatrammlega fyrir hnossinu á flokksþinginu í Chicago í Illinois. Að lokum vann Hubert Humphrey, varaforseti Johnson-stjórnarinnar, útnefninguna en tapaði forsetakosningunum fyrir Richard Nixon. Ólgan þá skaðaði flokkinn, sem fyrir var stórlega skaddaður vegna veikrar stöðu Johnsons forseta.

Það er vissulega eitt og annað ólíkt með stöðu demókrata í kosningunum 1968. Þeir höfðu þá Hvíta húsið, Johnson forseti hafði orðið að hætta við að sækjast eftir endurkjöri öðru sinni, sem hann gat þar sem hann hafði aðeins setið innan við hálft kjörtímabil Kennedys forseta, sem myrtur var í heimaríki Johnsons, Texas, í nóvember 1963. Víetnamstríðið sligaði Johnson. Með því að hann dró sig í hlé gat flokkurinn endurnýjað sig en var sjálfum sér verstur í forkosningaferlinu og flokksþingið í Chicago var fjarri því settlegt.

Þessar væringar anno 2008 eru skaðlegar fyrir þann flokk sem fyrirfram var talinn með pálmann í höndunum. Þetta er komið í rembihnút hinn mesta. Bæði forsetaefnin eru sköðuð og hafa ekki náð útnefningunni á heiðarlegan hátt í forkosningaferlinu enn - það sem verra er að flokkurinn þeirra er mun meira skaddaður og að óbreyttu virðist hreinn vígvöllur blasa við demókrötum næstu mánuðina. Tel blasa við að demókratar megi ekki við blóðugu sólarlagi í Denver og gildir þá einu hvort forsetaefnið tapar þar úr þessu.

Sá eini sem getur brosað þessa dagana í forsetaslagnum vestanhafs er John McCain, hinn lífsreyndi hermaður og pólitíski klækjarefur, sem á áttræðisaldri þarf aðeins að sigra einn demókrata til að komast í Hvíta húsið, hljóta hnossið sem hann hefur viljað árum saman. Eins og staðan er núna myndi ég telja mjög líklegt að hann vinni kosningarnar. Demókratar eru búnir að klúðra mikilvægum tíma fyrir sér í tóma vitleysu. Það er vandséð hvernig þeir geti reddað sér úr þessu feni með sómasamlegum hætti.

mbl.is Vinsældir Hillary Clinton minnka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Sammála þessu Stefán ,þetta skaðar flokkinn mikið,svona höfum við sjálf upplifað í prófkjörum í okkar flokki og fleiri flokkinn/en þetta mun taka enda,þegar Demókratar þinga um þetta/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 28.3.2008 kl. 11:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband