Ólympíueldurinn slökktur í mótmælum í París

Ólympíueldurinn í París Bjarmi mestu íþróttahátíðar sögunnar dó táknrænt í mótmælaöldunni sem mætti honum í París í morgun. Af tvennu illu ákvað lögreglan að slökkva ólympíueldinn sjálf frekar en láta mótmælendur slökkva hann. Þetta er táknrænt að öllu leyti - væntanlega aðeins forsmekkur þess sem koma skal á næstu mánuðum og þegar að Ólympíuleikarnir verða haldnir í Peking síðar á þessu ári. Ólgan vegna Tíbet er alþjóðleg og nú er tækifærið notað til að berja á Kínverjum.

Það var reyndar súrrealískt að sjá fréttamyndirnar frá miðborg Lundúna í gær þar sem sveit lögreglumanna varð að passa upp á kyndilinn og þann sem hljóp með hann hvert skref. Reyndu mótmælendur öll brögð til að slökkva kyndilinn og tókst það næstum því er þeir reyndu að hrifsa hann til sín. Ef ekki hefði verið fyrir vel æfða breska lögreglumenn hefði ólympíuneistinn slokknað þar með. Merkilegar fréttamyndir og táknrænar að öllu leyti.

Man ekki eftir öðrum eins mótmælum í aðdraganda Ólympíuleikanna - að það þurfi hóp lögreglumanna til að beinlínis vernda ólympíueldinn á ferð um vestrænar borgir. Það var reyndar viðbúið að þetta myndi gerast. Það eru allir búnir að fá nóg af yfirgangi Kínverja og hvernig þeir hafa komið fram í málefnum Tíbet. Það voru mikil mistök hjá alþjóða ólympíusambandinu að ákveða að hafa leikana í Peking, einkum í skugga þessarar grafalvarlegu stöðu sem blasir við og einkum mannréttindabrota Peking-stjórnarinnar.

Þeim er að hegnast fyrir það núna. Þó að margt misjafnt sé í alþjóða ólympíusambandinu hafa Ólympíuleikarnir allt að því verið heilagir í huga flests fólks og notið alþjóðavirðingar. Fólk sætti sig merkilega við það að hafa leikana í Berlín á Hitlerstímanum og Moskvu á Brésnef-tímanum. En þetta er eitthvað sem öllum sundlar yfir - og eðlilega er reynt að koma með pólitískar yfirlýsingar með mótmælum.

Er hræddur um að þessir ólympíuleikar anno 2008 í vöggu mannréttindabrotanna verði sögulegir og eftirminnilegir.

mbl.is Slökkt á ólympíueldi í París
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Það er vert að rifja upp í þessu samhengi hvernig ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar ákvað að fótumtroða almenn mannréttindi á Íslandi sumarið 2002 þegar Jiang Zemin kom í opinbera heimsókn til landsins ásamt herliði sínu gráu fyrir járnum.

Við það tilefni urðu þeir kumpánar slegnir aðkenningu af mikilmennsku, sendu lista yfir "óæskilega" um víðan völl, munstuðu Icelandair í þjónustu hugsanalögreglunnar, bönnuðu gula boli á almannafæri og hnepptu ferðamenn í stofufangelsi að ósekju.

Það var von mín að ný ríkisstjórn, með nýjan utanríkisráðherra, hefði nægt siðferðisþrek til að fordæma mannréttindabrot kínversku ríkisstjórnarinnar og lýsa yfir stuðningi við þau þjóðarbrot, sem vilja losna undan oki drottnara sinna og reyna fyrir sér í sjálfsstæðu, friðsömu lýðræðisumhverfi.

Vonin er enn til staðar, en bjartsýnin stendur höllum fæti.

Kveðja,

Sigurður Ingi Jónsson, 7.4.2008 kl. 13:14

2 Smámynd: Árni Matthíasson

Sæll vertu Stefán.

Ráðamenn í Þýskalandi notuðu Ólympíuleikana til að gefa ógnarstjórn sinni manneskjulegra yfirbragð og náðu með því að blekkja fólk um víða veröld. Fyrir vikið gátu þeir gengið lengra í yfirgangi sínum en Þjóðverjum hefði annars verið unnt með afleiðingum sem óþarft er að tíunda.

Álíka má segja um það er Ólympíuleikarnir voru haldnir í Moskvu 1980. Hvað hefði verið hægt að forða miklum illvirkjum ef þjóðir heims hefðu staðið saman um að fordæma mannréttindabrot og kúgun? 

Allt tal um að Ólympíuleikarnir eigi að vera ópólitískir er ekki annað er barnaskapur - hvað ætla menn að gera ef Kínverjar ganga enn lengra í hrannvígum og ofbeldi í Tíbet? Á að fagna á blóði drifnum verðlaunapöllum?

Árni Matthíasson , 7.4.2008 kl. 13:38

3 identicon

Ég er einfaldlega sammála þeim sem hér á undan hafa sagt.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 7.4.2008 kl. 15:03

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin. Gott að við erum allir sammála um þetta.

Stefán Friðrik Stefánsson, 8.4.2008 kl. 12:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband