Turnbruni í Kópavogi - Towering Inferno

Turnbruni í Kópavogi Það fyrsta sem mér datt í hug þegar að ég heyrði af brunanum í turninum í Kópavogi í kvöld var stórslysamyndin mikla The Towering Inferno - þar sem smálogi kviknar í miklum og veglegum turni, Glass Tower, 138 hæða, á vígsludegi, sem endar með því að turninn skíðlogar.

Góð ráð verða dýr fyrir veislugestina á efstu hæðunum - gleði og glaumur breytist í mikla lífsbaráttu. Ein af þessum ógleymanlegu stórslysamyndum áttunda áratugarins sem skörtuðu stórstjörnum í hverju hlutverki og allt varð svo stórt og mikið - auðvitað voru hetjurnar í bruna-aksjóninu goðumlíkar stjörnur; Steve McQueen og Paul Newman.

Sem betur fer varð þetta ekki mikið eldhaf í turninum í Kópavogi og tókst að ráða niðurlögum hans tiltölulega fljótlega þegar að þeirri spurningu hafði verið svarað hvar eldurinn var, en það tók sinn tíma að átta sig á því. Góðar eldvarnir hafa skipt þarna einhverju máli vonandi og því að eldurinn náði ekki að breiðast mjög mikið út. Þetta hefði getað farið mun verr.

Það er reyndar svolítið sérstakt að þetta komi upp svo skömmu eftir að turninn, sem nú gnæfir yfir höfuðborgarsvæðinu, var tekinn í notkun. Það fer kannski svo einhvern tímann að það reyni á hvort að svipuð stemmning myndist hér heima og í þessari gamalkunnu bandarísku stórmynd. Vonandi ekki. Komment við færsluna fær mig allavega til að hugsa um þetta.

En já, það er kannski spurning að líta bráðlega á Towering Inferno? Eða hvað? Eðalmynd reyndar, hiklaust besta stórslysamyndin sem gerð var á áttunda áratugnum - þá var aðalsportið að gera svona myndir.

Sjáum smá klippu úr þessari eðalstórslysaræmu.



Set hér líka inn klippu með hinu löngu gleymda óskarsverðlaunalagi úr myndinni, We May Never Love Like This Again, með stórslysamyndasöngkonunni frægu Maureen McGovern. Hún söng nefnilega líka titillagið í stórslysamyndinni, The Poseidon Adventure, tveim árum áður - hið mun þekktara The Morning After. Það vann líka óskarinn. Það var síðar gert gott grín að því í stórslysaþætti hjá Simpson-fjölskyldunni undir heitinu I Think We´re Heading For a Disaster.



Bendi líka á upphafsklippu myndarinnar - flugferðinni í turninn mikla í San Francisco - þess má reyndar geta að hann var sjónhverfing ein, vel gerður af tæknibrellumeisturum þess tíma.



mbl.is Ráða niðurlögum eldsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég var stödd á 15.hæð í kvöld þegar bruninn kom upp.. get ekki alveg hrósað fyrir eldvarnir, né get ég séð að það sé nokkuð búið að æfa hvað skal gera þegar rýma skal turninn. Að hlaupa niður 15 hæðir í panikk, vitandi ekkert hvar á að fara út, lennda niðrí kjallara með læstar dyr og hitakompu... þurfa að snúa við upp og finna útgönguleið, loks komið út og enginn að bjóða aðstoð. Strætó drusla kom þarna og fór með eitthvað fólk í fína pússinu af veitingastaðnum.

Það hringdi engin brunabjalla, það var enginn við útgang að vísa leiðina, bara lögreglumaður sem kallaði að allir ættu að fara út niður brunastigann og óvissan tók þar við. Fyrir utan var saman safn af fólki úr húsinu en ég sjálf ráfaði frá húsinu í stuttermabolnum og vissi ekkert hvað væri í gangi fyr en lögreglu maður fór að segja mér að fara frá gula borðanum og útaf svæðinu.

ÉG tjáði honum að ég hafi verið uppá 15 hæð og hlaupið niður, en hann sagði mér þá að fara inní bílinn minn og halda kjurru þar því enginn færi af svæðinu. ÉG keyrði svo bara í burtu því heima beið mín ungabarn sem þurfti að fá mig heim.

Þetta þarf að skoða betur með þessar aðgerðir að tæma húsið.

Hvað ef gamalmenni og offitusjúklingar hefðu þurft að slaga niður tröppurnar í panik og fallið í yfirlið á miðri leið? Þarna var enginn, og ekkert símasamband í göngunum.

Hundamamman (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 00:49

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka kærlega fyrir kommentið. Snarbreytti færslunni eftir að heyra þetta sjónarhorn á málið. Það er alveg greinilegt að allnokkrar brotalamir eru í öryggismálum við þetta. Enda er það vissulega erfitt við að eiga ef eldur nær að breiðast út í svo miklu stórhýsi og enginn ræður við neitt. Allavega það er hægt að upplifa svoleiðis stemmningu með því að horfa á þessa mynd. Vona að slíkt gerist aldrei hér.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 10.4.2008 kl. 01:05

3 identicon

Ekki gleyma því að efnin í þessum húsum er úr þannig efni, og þannig samsett, að eldur geti ekki borist á milli hæða/holrýma.

Eftilvill verður fólk panikað í þessum aðstæðum því það horfði á stórslysamyndina "back in the days"

Róbert (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 01:37

4 identicon

Þú ert snillingur! Um leið og ég heyrði af þessu (bara nokkrum mínútum eftir að bruninn átti að hafa byrjað) var 'Towering Inferno' það fyrsta sem mér datt í hug, enda snilldarræma þar á ferð.

Hitt er svo annað að ég sé turninn mjög vel bara hérna úr stofuglugganum hjá mér og við sáum aldrei reyk né blá blikkandi ljós...ekkert minnst á þetta á mbl.is og varla fréttnæmt í 10-fréttum RÚV heldur....en er nokkuð viss að þetta muni draga dilk á eftir sér. 

Hef bara einu sinni lent í svona dæmi, og þá var það notabene á sam stað...í Smáralind. Við félagi minn kíkjum í bíó á vinsælustu myndina þá stundina (fullpakkaður salur) og þá kviknaði víst í poppvélinni með tilheyrandi látum. Engin bjalla fór í gang eða neitt þannig, heldur hljóp bara ein unglingsstúlkan úr poppsölunni inn í sal og tilkynnti að allir yrðu að fara út strax. Fólk var ekkert að taka mikið mark á þessu, flestir skildu dótið sitt og yfirhafnir bara eftir og ætluðu að sækja seinna... hvað ef þetta hefði verið stórbruni? Þá hefði ekki verið neitt eftir til að sækja, og hefði örugglega orðið manntjón, því enginn tók þetta alvarlega fyrr en nánast allt slökkvilið höfuðborgarsvæðisins kom aðvífandi með blikkandi blá ljós. 

Var að versla í Smáralind á laugardaginn seinasta og var ekki alveg að skilja af hverju hlið sumra verslana voru hálf-lokuð og allt á rúi og stúi í Hagkaup... ekki hægt að skoða í útstillingarglugga þar sem einhver hlið voru að byrgja allt. Heyrði svo bara frá starfsmanni þar að brunavarnarkerfið í Smáralind hefði farið í gang ca hálftíma fyrr og þurft að rýma húsið. Furðulega stuttur tími sem líður frá því að húsið er rýmt og þar til allt er orðið eins og vanalega á laugardagseftirmiðdegi (fyrir utan hliðin, sem strax vöktu athygli mína) fullt af fólki bara að versla eins og venjulega. Hvað ef þetta hefði ekki verið 'false alarm?' (Og hvað vitum við nema að svo hafi ekki verið?) Allavega var ekki minnst á þennan "hiksta" öryggiskerfis Smáralindar í neinum fjölmiðlum þann daginn....

Veit að brunavörnum í Smáralindinni sjálfri er ekkert ábótavant, var að vinna í þessu húsi í einhvern tíma og sjálfvirku brunahurðirnar (og áðurnefnd hlið) eru ekkert grín! En finnst virkilega vanta almennilegt viðvörunarkerfi til FÓLKSINS. Því mikilvægasta í húsinu að sjálfsögðu...

Og vá hvað þessi færsla var svona tíu sinnum lengri en ég ætlaði! :)

Bimma (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 01:48

5 Smámynd: Dunni

Það er ekki bara eldsvoðar sem geta ógnað fólki í háhýsum. Það geta jarðskjálftar, snjóflóð og skriður líka gert.  Fyrir mér er nærtækast að husga til hörmungarnar í Álasundi í Noregi fyrir um hálfum mánuði.  Manni verður hugsað til fólksins sem hímdi á svölunum, í hinu átta hæða fjölbýlishúsi, meðan það beið eftir að verða bjargað.  Það vissi ekki hvort húsið myndi hrynja til grunna eða hanga nógu lengu uppi til að hægt væri að bjarga því eftir að hluti úr fjallinu færði blokkina um heila 7 metra.

Þá er líka vel vert að leiða hugan að aðstandendum þeirra sem ekki varð bjargað.  Í átta daga biðu þeir eftir að frétta af örlögum ættingja sinna sem lágu inni í brennandi húsarústunum. Engin gat vitað hversu lengi þetta fólk lifði.

Hörmungum sem þessum hefði mátt fækka til muna ef verkfræðingar og arkitektar um allan heim hefði tekið mark á síðustu orðunum sem Steve McQueen sagði við Paul Newman í lok kvikmyndarinnar góðu.

GÞÖ

http://orangetours.no/ 

Dunni, 10.4.2008 kl. 08:28

6 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Held að þessi mynd hafi verið fyrsta stórslysamyndin mín! .. Fannst hún hrikaleg!

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 10.4.2008 kl. 14:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband