Sviptingar í talningunni í Reykjavík

Fylgst með talningu

Innan klukkustundar verður talningu í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík lokið í Valhöll. Telja má öruggt nú að Guðlaugur Þór Þórðarson verði í öðru sæti og muni skv. því leiða annan framboðslista flokksins í borginni að vori. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, hefur verið í þriðja sætinu nær alla talninguna, en mikil óvissa er uppi um hvað hann muni gera í þeirri stöðu. Í síðasta viðtalinu sem Björn veitti í kvöld mátti skynja að fjarri því sé öruggt að hann verði í öðru sætinu á eftir Geir H. Haarde, forsætisráðherra, á öðrum listanum. Það mun væntanlega ekki ráðast fyrr en á morgun hvernig staða mála verður í þessum efnum endanlega.

Mikil spenna hefur verið í talningunni. Í öðrum tölum breyttist staðan með annað sætið. Síðar komst Illugi Gunnarsson uppfyrir Ástu Möller og í fimmta sætið og nú fyrir stundu komst Pétur H. Blöndal líka upp fyrir Ástu og í sjötta sætið þar með. Guðfinna S. Bjarnadóttir hefur verið í fjórða sætinu alla talninguna og er ekki hægt að segja annað en að útkoma hennar sé stórglæsileg. Pétur vann vissan táknrænan sigur með því að komast uppfyrir Ástu. Að sama skapi hljóta það að teljast mikil vonbrigði fyrir Ástu verði hún í sjöunda sæti, hafandi byrjað kvöldið í fimmta sætinu. Það má allavega segja að staða kvenna sé lítið betri en síðast.

Það má því telja ekki ósennilegt að eftirmæli þessa prófkjörs verði hin sömu og síðast. Það er enda svo að eins og staðan er núna verður aðeins ein kona á hvorum lista í fjórum efstu sætum. Sigríður Á. Andersen, Dögg Pálsdóttir og Grazyna M. Okuniewska eru næstar. Það eru því fimm konur í tólf efstu sætum sem gefin eru upp, en á móti kemur að þrjár þeirra eru í neðsta hluta þeirra marka. Það verður fróðlegt að sjá lokatölur eftir klukkutíma og lokagreiningu þeirra. Ég mun skrifa nánar um endanleg úrslit þegar að þau verða ljós innan klukkutíma væntanlega.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband