Úrslit liggja fyrir í prófkjörinu í Reykjavík

Farið yfir úrslitin

Úrslit í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík lágu fyrir á þriðja tímanum í nótt. Ljóst er að sigurvegarar prófkjörsins voru Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðfinna S. Bjarnadóttir og Illugi Gunnarsson. Tvö hin síðarnefndu komust bæði beint í forystusveit Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, en þau eiga ekki sæti á þingi nú og urðu ofar en fjórir sitjandi þingmenn flokksins. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður, munu leiða framboðslista Sjálfstæðisflokksins í höfuðborginni í kosningunum að vori, en Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, og Guðfinna munu skipa annað sæti skv. úrslitunum, en þau urðu í þriðja og fjórða sæti.

Lokatölur í tólf efstu sætin eru svohljóðandi:
Geir H. Haarde: 9.126 atkvæði í 1. sæti
Guðlaugur Þór Þórðarson: 5.071 atkvæði í 1.-2. sæti
Björn Bjarnason: 4.506 atkvæði í 1.-3. sæti
Guðfinna S. Bjarnadóttir: 4.256 atkvæði í 1.-4. sæti
Illugi Gunnarsson: 4.526 atkvæði í 1.-5. sæti
Pétur Blöndal: 5.175 atkvæði í 1.-6. sæti
Ásta Möller: 6.057 atkvæði í 1.-7. sæti
Sigurður Kári Kristjánsson: 6.735 atkvæði í 1.-8. sæti
Birgir Ármannsson: 7.106 atkvæði í 1.-9. sæti
Sigríður Á. Andersen: 6.328 atkvæði í 1.-10. sæti
Dögg Pálsdóttir: 5.991 atkvæði í 1.-10. sæti
Grazyna M. Okuniewska: 3.514 atkvæði í 1.-10. sæti

Listarnir verða því með þessum hætti í kjördæmunum tveimur, en eftir á að draga um röð þess hvort kjördæmið Geir H. Haarde mun leiða og hinsvegar Guðlaugur Þór Þórðarson.

Geir H. Haarde
Björn Bjarnason
Illugi Gunnarsson
Ásta Möller
Birgir Ármannsson
Dögg Pálsdóttir

Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðfinna S. Bjarnadóttir
Pétur Blöndal
Sigurður Kári Kristjánsson
Sigríður Á. Andersen
Grazyna M. Okuniewska

Björn Bjarnason

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, fékk glæsilega kosningu í fyrsta sætið, en hann hlaut rúmlega 95% greiddra atkvæða. Hann fær því gott umboð til forystustarfa. Guðlaugur Þór fær ennfremur góða kosningu til forystustarfa í sínu öðru prófkjöri í landsmálastjórnmálum, en hann varð í sjötta sæti í síðasta prófkjöri og kom þá nýr beint inn á Alþingi. Björn Bjarnason, sem setið hefur á þingi frá árinu 1991 og ráðherra nær samfellt frá 1995, náði ekki að tryggja sér leiðtogastöðu en lenti fjórða prófkjörið í röð í þriðja sætinu, sem enn og aftur verður hans sæti, en hann hefur aldrei orðið í neinu öðru sæti en því í prófkjöri hjá Sjálfstæðisflokknum.

Guðfinna S. Bjarnadóttir tryggir sér með glæsilegri kosningu titil forystukonu meðal sjálfstæðismanna í Reykjavík og tekur við því hlutverki af Sólveigu Pétursdóttur, sem setið hefur á þingi í tæp sextán ár, en ákvað að draga sig nú í hlé. Guðfinna, sem verið hefur rektor Háskólans í Reykjavík frá árinu 1998, kom nú beint inn í stjórnmál og fær flott umboð frá flokksmönnum. Illugi Gunnarsson flýgur inn í forystusveit flokksins í borginni ennfremur og fær góða kosningu í fimmta sætið, sem er þriðja sætið, á eftir Geir og Birni. Illugi, sem var aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar í fimm ár, hefur pólitískan feril sinn með miklum glans.

Ásta og Guðfinna

Lengst af kvöldsins var Pétur H. Blöndal í sjöunda sætinu en tókst undir lok talningarinnar að komast upp í sjötta sætið, og verður þriðji á eftir Guðlaugi Þór og Guðfinnu. Í síðasta prófkjöri skákaði hann Sólveigu Pétursdóttur og varð fjórði, hlaut annað sætið í Reykjavík suður á eftir Geir. Nú lækkar hann nokkuð en tókst að hækka sig á lista með því að hljóta sjötta sætið. Ásta Möller varð sjöunda. Framan af kvöldi varð hún fimmta, ofan við Illuga Gunnarsson en lækkaði svo í sjötta sætið í þriðju tölum. Undir lok talningar höfðu hún og Pétur stólaskipti. Úrslitin eru betri en síðast fyrir Ástu, en hljóta þó vissulega að teljast nokkur vonbrigði.

Sigurður Kári lendir í áttunda sætinu, sæti neðar en síðast. Úrslitin hljóta því að vera viss vonbrigði miðað við það sem þá var, en hann hefur sama sess á nýjum framboðslista og var árið 2003, fjórða sætið á öðrum listanum. Birgir Ármannsson hækkar sig um sæti, hann varð tíundi árið 2003 en varð nú níundi. Hann hlýtur eins og Sigurður Kári að hafa vænst betri árangurs en hann er á nákvæmlega sömu slóðum nú og árið 2003, í fimmta sæti annars framboðslistans og enn í baráttusæti. Sigríður Á. Andersen er tíunda og hlýtur að vera ánægð með þá útkomu, þó hún hafi stefnt hærra. Hún verður í baráttusæti að vori, fimmta á öðrum listanum.

Það vekur athygli að Dögg Pálsdóttir skyldi ekki færa hærra. Hún stefndi á fjórða sætið en varð ellefta, og skipar því hið sjötta á öðrum listanum. Mörgum að óvörum varð pólski hjúkrunarfræðingurinn Grazyna M. Okuniewska í tólfta sæti og er því komin í baráttusætin, mörgum að óvörum. Fáir áttu von á svo glæsilegum árangri hjá henni, en henni er óskað innilega til hamingju með árangurinn. Hún auglýsti lítið sem ekkert, hafði einfalda blogspot-kosningavefsíðu og eyddi litlum peningum í baráttuna. Árangur hennar er því óvenjuglæsilegur og gott að hún skuli vera svo ofarlega sem raun ber vitni. Heilt yfir eru þetta sterkir listar.

Geir og Björn

Úrslitin eru merkileg. Ég nefndi tíu aðila á vefnum á föstudagskvöldið, sem þá er ég myndi kjósa. Þeir urðu í tíu efstu sætunum, svo ég get vart annað en verið sáttur við val flokksmanna, þó ekki hefði ég númerað þá með þessum hætti. Það er svo aftur á móti annað mál. Nú tekur við að greina úrslitin. Eins og fyrr sagði eru Guðlaugur Þór, Guðfinna og Illugi sigurvegarar. Beðið er nú viðbragða Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, sem náði ekki sínu markmiði að fá umboð til leiðtogastarfa, en heldur þess í stað sinni stöðu á öðrum framboðslistanum. Það verður fróðlegt að heyra viðbrögð hans og annarra áhrifamanna með morgni.

Heilt yfir vona ég að þetta prófkjör hafi styrkt Sjálfstæðisflokkinn. Prófkjörið tókst vel og margir tóku þátt, þó mun færri en í prófkjörinu í nóvember í fyrra vegna borgarstjórnarkosninganna. Það eru viss vonbrigði. En vonandi boðar þetta prófkjör sterka framboðslista sem tryggja Sjálfstæðisflokknum góð úrslit að vori, þar sem fleiri þingsæti nást en vorið 2003, þegar að flokkurinn hlaut 9 þingmenn kjörna í Reykjavík. Nú er stefnan sett væntanlega á 10-11 hið minnsta.


mbl.is Geir H. Haarde í 1. sæti og Guðlaugur Þór í 2. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Sæmundsdóttir

Þessi niðurstaða hlýtur að vera mikil vonbrigði fyrir Björn, og eins sitjandi þingmenn að fá nýliða, þau Guðfinnu og Illuga upp í 4 og 5 sæti. Eins held ég að það hefði verið sterkara fyrir listann að Ásta og Dögg hefðu báðar farið ofar. Ég hef nú grun um að einhverjir eftirmálar verði. Konur vilja fá fleiri konur framar á lista og Björn ?? tekur hann þessu sæti ?? Nú væri gaman að vera með hlerunarbúnað þarna í Valhöll. En þetta eru nú bara mínar skoðanir.

Sigrún Sæmundsdóttir, 29.10.2006 kl. 12:16

2 Smámynd: Sveinn Arnarsson

Hvað segja sjálfstæðismenn núna, með 7 karla og 2 konur. Við vitum nú öll að íhaldið er með 9 þingmenn í reykjavíkurkjördæmunum nú þegar og ef svo vildi til að þið bara næðuð að hanga á ykkar fylgi, þá fækkar enn konum í flokki ójöfnuðar og ójafnréttis, það er bara svo einfalt!

kv.

Sveinn Arnarsson, 29.10.2006 kl. 12:34

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þetta er niðurstaða prófkjörs. Það er ekkert við því að segja hvernig þetta fer, þetta er einfaldlega svona. Þetta er staða mála valin af flokksmönnum sjálfum. Hvað varðar þessa lista finnst mér þeir sterkir, það er mikil breidd í þeim og öflugar konur eru þarna og sumar eru í baráttusætum, sem geta vel unnist. Heilt yfir vona ég að þessir listar boði góð úrslit að vori. Nú tekur kosningabaráttan við.

Stefán Friðrik Stefánsson, 29.10.2006 kl. 13:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband