Athyglisverðar niðurstöður í prófkjörinu

Fylgst með úrslitum

Það er athyglisverð staða sem við blasir eftir prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þegar að ég vaknaði í morgun fór ég yfir skiptingu atkvæða og fannst merkilegt að líta yfir þá stöðu mála. Það er alveg ljóst að Guðlaugur Þór Þórðarson vann afgerandi sigur í baráttunni um annað sætið og hefur þar mikið forskot. Merkilegast fannst mér að sjá hvernig atkvæðin skiptast á tólf efstu. Sérstaklega hvað varðar fyrsta sætið, en Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, fékk næstflest atkvæði í það sæti og meira að segja Grazyna M. Okuniewska hlaut nokkur atkvæði í það sæti. Merkilegast finnst mér að sjá hversu þó mörg atkvæði Geir og Björn fá t.d. í tíunda sætið.

Heilt yfir finnst mér glæsilegt að sjá flotta útkomu nýliða, en Guðfinna S. Bjarnadóttir og Illugi Gunnarsson fljúga beint inn á þing í sínu fyrsta prófkjöri. Guðfinna er með sérstaklega glæsilega kosningu og er t.d. með vel yfir 8000 atkvæði. Sögufrægt varð er Geir Hallgrímsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, féll í umdeildu krossaprófkjöri í nóvember 1982. Hann varð þá í sjöunda sæti. Það er merkilegt að sjá hvernig staðan hefði orðið ef slíkt fyrirkomulag hefði verið nú, en það er ljóst að nokkrir frambjóðendur sem urðu ofarlega hefðu getað fengið slæma útreið við slíkar aðstæður. En greining atkvæða er athyglisverð, svo ekki sé meira sagt.

Fylgst með talningu

Ég skrifaði hér um úrslitin í nótt, þegar að þau lágu fyrir, eins og þau blöstu þá við mér. Það er ánægjulegt að margir hafi lesið það og kommentað á þau skrif. Ég vona að efstu menn geti vel við unað, þrátt fyrir allt. Björn er á sama stað eftir þetta prófkjör og hann var eftir hið síðasta. Hann er í öðru sæti á öðrum framboðslistanum. Það eru viss vonbrigði að hann skuli ekki hafa náð leiðtogastöðu, því neita ég ekki, en vilji flokksmanna liggur fyrir í þessum efnum. Það er greinilegt að mikil smalamennska var viðhöfð í gær og úrslitin endurspegla þá smölun mjög vel. Nú ræðst hvað Björn gerir, ef marka má fyrstu viðbrögð mun hann taka sætið.

Ég vil auðvitað óska Guðlaugi Þór til hamingju. Hann er einn forvera minna sem formaður Varðar hér á Akureyri. Met þessa menn báða mikils, en hef aldrei farið leynt með stuðning minn við Björn. Hann á þann stuðning skilið. Ég tel að fáir hafi lagt mér meira lið í minni pólitík og þeim verkum sem ég hef sinnt á netinu t.d. en Björn. Hann hefur ávallt minn stuðning. Samfagna þó vissulega með Guðlaugi Þór. Það er auðvitað visst gleðiefni að ungum manni sé falin slík forystustörf en Guðlaugur Þór var formaður SUS á þeim árum sem ég gekk í flokkinn og fór að starfa þar að ráði fyrst. Guðlaugur Þór markar sig sem framtíðarmann í Sjálfstæðisflokknum með þessu.

Guðfinna

Árangur Guðfinnu S. Bjarnadóttur er glæsilegur og vil ég óska henni til hamingju. Mitt nafn birtist í stuðningsauglýsingu fyrir hana, svo að ég fagna árangri hennar mjög. Hún er framtíðarkona fyrir flokkinn og verður forystukona hans í borginni í þessu prófkjöri. Sigur hennar er mikill og öllum ljóst að nú tekur pólitíkin við hjá henni og endalok orðin á glæsilegum rektorsferli hennar við Háskólann í Reykjavík, en hún hefur byggt skólann upp með mikilli elju og gríðarlegum metnaði. Öll bindum við vonir að verk hennar verði jafn farsæl og öflug í pólitísku starfi innan Sjálfstæðisflokksins. Mér fannst Guðfinna standa sig vel í prófkjörsslagnum og hún sannaði kraft sinn.

Illugi er öflugur ungur maður sem á góðan árangur skilið. Fagna mjög að Guðfinna og Illugi fari á þing. Svo er gott að Pétur náði að hækka sig, en hann hefur staðið sig vel á þingi og verið mikill talsmaður frelsisins. Svo er Ásta þarna, leitt að hún skyldi falla um sæti, en svona er þetta alltaf í prófkjörum að menn hækka og lækka fram og til baka reglulega. En fyrir mestu er að hún sé í öruggu þingsæti. Gott að Sigríður Andersen nái ofarlega, það er töggur í henni og vonandi fer hún á þing. Þannig að heilt yfir gleðst ég með tíu efstu, þetta er það fólk sem ég spáði að yrði í topp tíu og því ekkert annað en gott um þetta að segja í heild sinni.

Björn

Ég veit ekki hverjir eftirmálar prófkjörsins verða, ef nokkur eru. Beðið er viðbragða og greiningu Björns Bjarnasonar á stöðu mála. Það voru viss hættumerki fyrir prófkjörið að næði hann ekki öðru sætinu sem hann batt vonir sínar við gæti hann fallið niður listann, enda eru ruðningsáhrif alltaf til staðar nái menn ekki markmiðum sínum. Það er gleðiefni að hann haldi þó allavega sínu sæti frá síðasta prófkjöri. Það hefði verið afleit niðurstaða fyrir Sjálfstæðisflokkinn hefði Björn fengið verri útkomu en þessa.

En úrslit liggja fyrir. Það verður spennandi að heyra meiri viðbrögð á þessari stöðu mála. Það er alveg ljóst að þessi úrslit boða viss þáttaskil fyrir Sjálfstæðisflokkinn og kynslóðaskipti á vissum stöðum. En ég vona að samstaða Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík verði sú sama og áður í langri leiðtogatíð Davíðs Oddssonar. Það verður nú að ráðast hvort mönnum ber gæfa til að halda sameinaðir til verka, nú þegar að hans nýtur ekki lengur við.


mbl.is Niðurstaða prófkjörs Sjálfstæðisflokksins bindandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband