Prófkjörsbaráttan í Suðvesturkjördæmi

Bjarni Benediktsson

Bjarni Benediktsson, alþingismaður, opnaði í dag prófkjörsskrifstofu sína í Garðabæ og heimasíðu sína. Ekki virðist mikil barátta blasa þó við Bjarna í prófkjörinu þann 11. nóvember nk. í kraganum. Enginn annar býður sig fram í annað sætið og hann virðist hafa nær óumdeilda stöðu í forystusveit flokksins í kjördæminu. Staða Bjarna hefur styrkst jafnt og þétt allt þetta kjörtímabil. Hann var valinn til setu í fimmta sæti framboðslistans í kraganum í uppstillingu fyrir kosningarnar 2003 og náði þá kjöri á þingi. Hann varð formaður allsherjarnefndar í árslok 2003 þegar að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varð ráðherra.

Bjarni hefur styrkst við hvert málið undir hans verksviði í þinginu. Hann t.d. kom fram af krafti og ábyrgð í fjölmiðlamálinu árið 2004 og stóð sig mjög vel við að tala fyrir því. Rimmur hans við stjórnarandstöðuna á því átakavori og sumri eru eftirminnilegar okkur stjórnmálaáhugamönnum. Það hefur blasað við nær allt kjörtímabilið að Bjarni myndi hækka verulega á listanum í kraganum við þessar kosningar og var jafnvel um tíma talað um að hann myndi gefa kost á sér í fyrsta sæti framboðslistans er Árni M. Mathiesen tók ákvörðun um að færa sig í annað kjördæmi. Svo fór að hann gaf kost á sér í annað sætið.

Það virðist lítill hasar vera um fyrsta og annað sætið í væntanlegu prófkjöri eftir hálfan mánuð. Meginátakalínurnar virðast vera um þriðja til sjötta sætið, sem gætu allt á góðum degi orðið þingsæti, enda mældist Sjálfstæðisflokkurinn í Suðvesturkjördæmi með 49% í síðustu mánaðarkönnun Gallups. Það er mikilvægt að mínu mati að Bjarni Ben fái þar öfluga og góða kosningu, efast ég vart um að svo myndi fara. Bjarni er enda öflugur framtíðarmaður í flokknum sem hefur sannað kraft sinn og mátt - sannað að hann er forystumaður þar.

Í dag opnuðu ennfremur Kópavogsbúarnir Ármann Kr. Ólafsson og Sigurrós Þorgrímsdóttir heimasíður sína og kosningaskrifstofu. Ármann keppir um þriðja sætið við Ragnheiði Ríkharðsdóttur, bæjarstjóra í Mosfellsbæ, en Sigurrós um hið fjórða við þau Bryndísi Haraldsdóttur, Jón Gunnarsson og Ragnheiði Elínu Árnadóttur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband